Ómar Ragnarsson V

Steinunn Harðardóttir ræðir við fólk í eldlínunni

Steinunn Harðardóttir
author

Steinunn Harðardóttir sér um þáttinn Með náttúrunni á Náttúran.is. Steinunn er með BA í almennri þjóðfélagsfræði og hefur verið stundakennari á ýmsum skólastigum, haldið sjálfstyrkingarnámskeið, starfað sem leiðsögumaður og síðustu 25 ár sem dagskrárgerðarmaður á Ríkisútvarpinu. Lengst af var hún með þætti sem tengjast náttúrunni, útivist og ferðamálum. Þátturinn „Út um græna grundu“ hafði verið 18 ár á dagskrá þegar hann hætti haustið 2013 og átti þá stóran hlustendahóp. Hann hlaut viðurkenningu Umhverfiráðuneytisins fyrir umfjöllun um umhverfismál 1998 og var tilnefndur til fjölmiðlaverðlauna á Degi íslenskrar náttúru 2011.

Náttúran.is
producer

Náttúran.is er sjálfstætt starfandi vefsetur með aðaláherslu á að þjóna hinum almenna neytanda með áreiðanlegum upplýsingum um allt sem snertir umhverfi okkar og heilsu. Í raun er hér allt undir, nærumhverfi okkar og náttúran sjálf sem og heimilið, neyslan og fyrirtækin sem upplýstir borgarar vilja fá til aðstoðar við að skapa sjálfbæra framtíð.

Náttúran.is var stofnuð árið 2006.
Stofnandi og framkvæmdastjóri Náttúrunnar er Guðrún Arndís Tryggvadóttir.

Náttúran.is hlaut Kuðunginn fyrir árið 2011 fyrir „framúrskarandi vefsíðu um umhverfismál, og jákvæð áhrif þess á almenning og fyrirtæki.“  Segir í ...


Related content

Komið þið sælir kæru náttúruunnendur!

Ómar og Paul Cox er Ómar fékk Seacology verðlaunin 2008. Ómar Ragnarsson skemmtikraft, fréttamann, rithöfund, flugmann, lagasmið og kvikmyndagerðamann þarf ekki að kynna fyrir þjóðinni. Hann sagði upp störfum á fréttastofu Ríkisútvarpsins árið 2006 vegna stöðugra ásakanna um hlutdrægni í fréttaflutningi af Kárahnjúkamálinu. Síðan hefur hann helgað líf sitt baráttunni fyrir náttúruvernd og verið óþreytandi á því sviði.

Að kvöldi 26. september 2006  leiddi Ómar ríflega 10 þúsund manns í mótmælagöngu niður Laugaveginn gegn stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Í kosningum Rásar 2 og Stöðvar 2 um mann ársins sama ár varð Ómar hlutskarpastur. Hann ferðaðist til Bandaríkjanna Noregs og víðar til að kynna sér þjóðgarða og skipan náttúrverndarmála og heimsótti 28 þjóðgarða og 18 virkjanasvæði.

Hann hefur gert fjölmarga þætti og myndir um náttúruvernd, meðal annars myndina In merorian um Kárahnjúka og svæðið fyrir norðan Vatnajökul. Ómar tók þátt í baráttunni um verndun Gálgahrauns og vakti það þjóðarathygli þegar hann var borinn út í lögreglubíl vegna mótmælasetu sinnar þar. Ómar hefur verið í eldlínunni síðustu vikurnar og sagt frá áhrifavöldum í lífi sínu og augnablikum sem skiptu sköpum fyrir hann.

Honum er mikið niðri fyrir þegar hann fjallar um handtökuna í Gálgahrauni. Hann hefur sagt frá ferðum í þjóðgarða erlendis. Hann sagði frá uppblæstri og ástandinu á Kárahnjúkasvæðinu í dag en hann er þar mikið á ferðinni og er störfum hlaðinn við gerð mynda um náttúruperlur á Íslandi sem er ógnað og koma frá sér upplýsingum sem hann hefur safnað gegnum árin. Hann er líka að taka myndir af gosinu í Holuhrauni, semja tónlist, safna gömlu efni í myndbönd og reyna að hafa áhrif á gang mála.

Hlusta á viðtalið.

Útdráttur úr viðtalinu

Mikilvægt að kvikmynda staði sem er ógnað

Ég er með 10 kvikmyndir sem ég hef  byrjað á vegna þess að það hefur verið svo mikill æðibunugangur varðandi virkjanakosti.  Allt í einu voru þeir orðnir á annað hundrað og það stóð til að fara í Reykjadali á Torfajökulsvæðinu og „stúta" þeim segir Ómar.  Ég fór austur og eyddi í það tveimur milljónum nettó. Síðan var það Villinganes og Skagafjörður svo Kárahnjúkar, Skaftá og  Langisjór. Allt sem ég átti fór í að elta  þetta til að upplýsa fólk um það sem var að gerast. Ég ætlaði að vera búinn með mynd  sem heitir Sköpun jarðarinnar og ferðin til Mars.  Hún átti að snúast um Gjástykki og allt eldvirka beltið frá Öxarfirði út á  Reykjanestá. Þetta er mjög brýn mynd en nú er hún stopp. Ég fór yfir 100 ferðir frá Reykjavík upp á hálendið til að taka myndefni vegna drekkingar Hjalladals og Kárahnjúka. Fyrirtækið sem hjálpaði mér af stað fór í hruninu svo ég get ekki haldið áfram en myndefnið er til og það er mjög mikilvægt.

Herflugvöllur á hálendinu?
Ómar flytur eldheita ræðu á Umhverfisþingi í Hörpu 2013. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Ég er með mjög skemmtilega hugmynd sem er óbeint um Kárahnjúkasvæðið, nokkuð sem hefði getað breytt gangi seinni heimstyrjaldarinnar. Þjóðverjar gerðu  innrásaráætlun á Ísland 10 maí. Það átti að fara með 4 stór skip og 8.000 hermenn og yfirbuga bretana.  Það eina  sem vantaði var tilbúinn flugvöllur eins og var í Noregi. Þjóðverjar vissu þó mikið um flugvallastæðin hér.  Þór Whitehead fann kort í Berlín með merkingum við helstu flugvallastæði á Íslandi.

Agnar Kofoed-Hansen var á ferð á þýskri flugvél árið 1938 og fann flugvallastæði  á Kárahnjúkasvæðinu og bað bóndann um leyfi til að byggja þarna flugvöll. 

Sama ár fór þýskur jarðfræðiprófessor sem er sterklega grunaður um að vera á bandi Þjóðverja um svæðið. Flugvöllur á þessu svæði hefði breytt allri stöðunni. Þarna kom enginn maður nema seint í september til að smala kindum. Þjóðverjar hefðu því getað verið þarna í leyni. Bretar voru ekki með flugvélar á Íslandi fyrr en á ágúst 1940. Ef innrásaráætlunin á Ísland  hefði verið framkvæmd hefði gangur styrjaldarinnar breyst mjög en þó ekki úrslitin. Kvikmyndahandritið mitt hefur breyst í bók en ég er að vona að ef mér tekst að klára hana vakni áhugi fyrir kvikmynd. Slík mynd höfðar til  allra þjóðanna sem tóku þátt í stríðinu en það þarf marga milljarða.

Fékk ekki styrk frá bílaleigunum.
Ég er með 25 mínútna uppkast sem heitir Eitt af undrum veraldar, Ísland. Þar er fjallað um virkjanafyrirbrigðin og hvað tekist er um hér.  Ég sýndi hana þegar ég fékk verðlaun í San Francisco og fékk góðar viðtökur en þarf að lagfæra hana. Það er svo mikið að gera segir Ómar. Ég er að gera mynd sem heytir Akstur í óbyggðum, ég  vona að ég geti grætt á henni næsta sumar, hafði vonast til að fá stuðning frá bílaleigum og ferðaskrifstofum en það vill engin styrkja þetta. Samtök bílaleiga vilja ekki taka þátt og einstakar bílaleigur vija ekki rugga bátnum. Staðreyndin er að litlu jepplingarnir breytast í fólksbíla þegar búið er að hlaða þá til að fara inn á hálendið.

Eitt tryggingafélag hefur sett í þetta pening en ég hef fengið mikið minni fjármögnun en ég vonaði. Myndin kemur þó væntanlega út á þremur tungumálum næsta sumar. Ég man ekki allan listann segir Ómar og heldur áfram. Ég er að gera myndbönd fyrir sjónvarpið, safna saman öllu efni sem ég hef gert. Núna fyrir jólin koma út fjórir diskar sem heita Eldur þeir eru um eldgosin sem ég hef fjallað um frá 1970. Ég hef líka fjallað um Skáftáreldana en ég tel að umfjöllun um þá eigi mikið erindi núna. Það er eina gosið sem hefur valdið mikilli brennisteinsmengun eins og nú er í Holuhrauni .

Reynir að taka öðruvísi myndir
Ég er að safna myndefni frá  Holuhrauni  og reyni  alltaf að taka  öðruvísi myndir og hef náð nokkrum slíkum. Ég tók til dæmis myndir af Holuhrauni áður en það fór að gjósa. Það datt engum öðrum í hug og því eru það einstakar myndir. Ég taldi víst að þar gysi þó sérfræðingar teldu þá að það tilheyrði ekki Bárðarbungu. Ég á myndir af öllum gýgunum og svæðinu ósnortnu. Ég náði  að taka mynd ofan í gosgýginn þannig að hann fyllti út í rammann og er vakandi yfir myndskeiði sem mig langar til að taka en til þess þarf mikla tækni. Ég komst til dæmis að Grímsvatnagosinu áður en nokkur annar kom þar að. Ég sel Sjónvarpinu og fleirum þessar myndir en þetta er þó allt gert með tapi. Ég er búinn að fara margar ferðir í Grímvötn á milli gosa en þá fór engin annar þangað. Það er smá brot af því í Eld seríunni.

Gallinn er sá að varðandi myndir sem ég tók þegar ég var hjá Sjónvarpinu á ég engan beinan höfundarrétt, er bara í stórum hópi manna sem geta sótt um í sjóð. Fékk einu sinni tvöhundruð þúsund  og búið. Rithöfundar er eina listamannastéttin sem er með sín mál í lagi varðandi höfundarrétt og beitingu úrræða. Því er enn ekki mikið af hljóðbókum og niðurhali, því þar þarf að gera samninga við höfundana. Við erum enn á sama stigi og þegar verið var að skrifa Íslendingasögurnar, bókmenntirnar eru eitthvað sérstakt . Það er eins og allt hitt sé húmbúkk.

Öll gullkista Sjónvarpsins frá 1966 er bara geymd í einum kjallara í Efstaleiti en allar bókmenntir eru varðveittar á tveimur stöðum sitt hvoru megin í landinu. Auðvitað á safnið í Efstaleiti að vera geymt á Eiðum líka. Ég hef verið að reyna að koma þessu að hjá menntamálaráðherrum en það er enginn skilningur en um  leið og talað er um bókmenntir vaknar áhugi.

Sigur vinnst um síðir
Ég fór í pólitík til að reyna að hafa áhrif en þykir slæmt að þurfa að vera að því segir Ómar. Það var meira heillandi en erfiðara og gagnsminna að vera í því sem ég var fram til 2006. Við hjónin söknum bæði þess tíma, sérstaklega hún. En það verður að gera fleira en gott þykir. Árið 2006 þegar mér fannst ég væri að svíkja og væri ekki að leggja mig allan fram varð ég að stíga þetta skref (og hætta hjá Sjónvarpinu). Ég  reyni að rækta það sem er óumdeilanlegt eins og myndin  Akstur í óbyggðum og því urðu það vonbrigði að fjármögnun skyldi ekki vera betri en varð raunin.

Varðandi framtíðina segir Ómar að hann væri ekki að þessu ef hann væri ekki bjartsýnn. Ég var að þýða lauslega textann We will overcome some day, það er eiginlega ekki hægt að segja þetta beint en það er hægt að segja  Sigur vinnst um síðir. Ég prófaði sönginn í Gálgahrauni og í Háskólabíói og fékk mjög góðar viðtökur. Eitt af því sem ég er að gera er að semja tónlist sem skilur eitthvað eftir varðandi miklilvæga málstaði og bjarga gamalli tónlist eftir mig og koma  á framfæri. Ég gerði lag og texta fyrir samnefnda þætti á Stöð tvö fyrir 22 árum sem hét  Aðeins ein jörð. Síðan var gert annað lag í staðinn  og aðeins lítill hluti textans var fluttur. Mér finnst þessi texti hafi meira gildi nú en fyrir tuttugu og tveimur árum.  Mig dreymir um að láta góðan dúett syngja þetta lag ásamt Sigur vinnst um síðir og Söngnum okkar sem er baráttusöngur. Það á að gera mann að hálfgerðum Dillan hippa segir Ómar að lokum og hlær.

Steinunn Harðardóttir.

Hlusta á viðtalið.

Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar styrkir þáttagerðina.

Tengdar hjóðupptökur:

Ómar Ragnarsson V


Birt:
Dec. 12, 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Steinunn Harðardóttir „Með náttúrunni – Ómar Ragnarsson í eldlínunni - 5. þáttur“, Náttúran.is: Dec. 12, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2014/12/12/med-natturunni-omar-ragnarsson-i-eldlinunni-5-that/ [Skoðað:Sept. 20, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: