Norski olíusjóðurinn hefur selt hlut sinn í alþjóðlega námuvinnslu- og hrávörurisanum Rio Tinto vegna skeytingarleysis félagsins í umhverfismálum. Rio Tinto á meðal annars kanadíska álfyrirtækið Alcan sem rekur álverið í Straumsvík. Samkvæmt Dow Jones-fréttaveitunni hefur sjóðurinn selt hlut sinn í Rio Tinto PLC fyrir 4,42 milljarða norskra króna og hlut sinn í Rio Tinto Ltd. Fyrir um 430 milljónir norskra króna.

Ákvörðunin um söluna var tekin eftir að siðferðisráð norska olíusjóðsins komst að þeirri niðurstöðu að samstarfsverkefni Rio Tinto við Freeport-McMoran Copper & Gold um námuvinnslu í Grasberg í Indónesíu væri að “valda meiriháttar” umhverfisspjöllum en sagt er að um 230 þúsund tonn af úrgangi af námuvinnslunni sé veitt út nálæg vötn og ár. Í yfirlýsingu frá sjóðnum ítrekar að hann veiti ekki fé í verkefni þar sem mikil áhætta sé á að “stórfelldu ósiðlegu framferði.” Jafnframt kemur fram að sjóðurinn telur engar vísbendingar vera um að Rio Tinto hyggist breyta framferði sínu og að ráðist verði í aðgerðir sem draga eiga úr umhverfisspjöllum.

Grasberg-náman er ein sú ábatasamasta í heimi og þar er að finna einhverjar mestu  koparbirgðir heims auk þess sem þar er gnótt er af gulli í jörðu. Norski olíusjóðurinn hefur þá vinnureglu að hann setur ekki fé sitt í fyrirtæki sem brjóta í bága við víðtæka mælikvarða á siðlegu athæfi.

Birt:
Sept. 9, 2008
Höfundur:
Viðskiptablaðið
Tilvitnun:
Viðskiptablaðið „Norski olíusjóðurinn selur hlut sinn í Rio Tinto“, Náttúran.is: Sept. 9, 2008 URL: http://www.nature.is/d/2008/09/09/norski-oliusjoourinn-selur-hlut-sinn-i-rio-tindto/ [Skoðað:Oct. 4, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Sept. 10, 2008

Messages: