Átak til að auka skil á dagblöðum til endurvinnslu
SORPA og Fréttablaðið hafa tekið höndum saman og hvetja lesendur til að skila Fréttablaðinu til endurvinnslu að lestir loknum. Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri SORPU, og Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, hleypa verkefninu af stað í dag.
Fréttablaðið sem er prentað á pappír unnin úr nytjaskógum er fyrsti prentmiðillinn á Íslandi til að taka þátt í endurvinnsluaðgerð af þessu tagi. Átakið felst í því að Fréttablaðið birtir reglulega áminningu til lesenda að skila blaðinu eftir lestur í þar til gerða grenndargáma eða á endurvinnslustöðvar SORPU.
Hvetja neytendur til að flokka og skila
Undanfarin ár hefur orðið mikil aukning á innflutningi pappírs til landsins. Þessi aukning hefur meðal annars leitt til þess að hlutfall pappírs í óflokkuðum heimilisúrgangi höfuðborgarsvæðisins hefur hækkað verulega og er nú stærsti einstaki liðurinn í óflokkuðum úrgangi. Samkvæmt rannsóknarverkefni, sem SORPA framkvæmir árlega, voru dagblöð og tímarit um 27% þess sem endaði í heimilissorpi höfuðborgarbúa árið 2006 en árið 2003 voru þau um 15%. Á sama tíma hefur endurvinnsla þeirra aukist úr 5.188 tonnum í 8.400 tonn á svæði SORPU. Þrátt fyrir þessa aukningu skila sér einungis um 40% dagblaða til endurvinnslu.
SORPA og Fréttablaðið vonast til að með átakinu nái þau að efla neytendur blaða og pappírs til að flokka og skila og ná þar með hærra hlutfalli af pappír til endurvinnslu. Markmiðið er að auka skil á flokkuðum pappír úr þeim 40% sem þau eru í dag upp í hið minnsta 60%.
Umhverfisumræða er ofarlega á baugi um þessar mundir og eru Íslendingar óðum að vakna til vitundar um mikilvægi þess að halda umhverfinu hreinu. Fyrsta skrefið er að huga að eigin úrgangsframleiðslu og fara með heimilisúrgang líkt og dagblöð til endurvinnslu. Umhverfislegur ávinningur endurvinnslu er gífurlegur þar sem dýrmætt landsvæði og orka sparast og verðmæt hráefni ný tist áfram í nýjar vörur.
Birt:
May 23, 2007
Tilvitnun:
SORPA bs „Átak til að auka skil á dagblöðum til endurvinnslu“, Náttúran.is: May 23, 2007 URL: http://www.nature.is/d/2007/05/23/tak/ [Skoðað:Oct. 13, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Jan. 12, 2008