Á þessu ári kartöflunnar og ári hækkandi matvælaverðs líta menn í auknum mæli til þesssarar hógværu jurtar þegar finna þarf lausnir á fæðuvanda mannkyns í framtíðinni. Kartaflan hefur verið lofsungin sem „gjöf af himnum“ og „brauð jarðar“ enda var hún mikil blessun fyrir almúgann í Evrópu þegar hún barst þangað. Þá upplifðu margir fyrst þá tilfinningu að verða mettir.

Stórskáldið norska, Knut Hamsun, hyllir kartöfluna í bók sinni GRÓÐUR JARÐAR sem Helgi Hjörvar þþddi. Þegar kornakrarnir voru brunnir upp vegna þurrka hjá Ísak var allt undir kartöflunum komið, en gefum skáldinu orðið: „Hvernig var um kartöflurnar? Voru þær bara kaffitegund frá framandi landi og hægt að vera án þeirra? O-kartaflan er óviðjafnanlegur ávöxtur, hún þrífst í þurrki, hún þrífst í vætu, hún vex. Hún lætur ekki veðrið á sig fá og þolir mikið, ef ofurlítið er að henni hlynnt af manninum, þá launar hún það fimmfalt aftur. Já, kartaflan hefur ekki safa víný rúgunnar, en hún hefur kjöt kastaníunnar, það er hægt að steikja hana eða sjóða hana og hafa hana til alls. Maðurinn getur verið brauðlaus, en hafi hann kartöflur er hann ekki matarlaus. Kartöfluna má steikja í heitri ösku og hafa til kvöldmatar, það má sjóða hana í vatni og hafa til morgunmatar. Hvað þarf hún í viðmeti? Lítið, kartaflan er nægjusöm, ein skál af mjólk, ein síld er nóg með henni. Ríkismaðurinn hefur smjör við henni, fátæklingurinn dýfir henni í örlítið salt á skál. Ísak gat á sunnudögum leyft sér að renna henni niður með einum rjómasopa úr mjólkinni úr henni Gullhyrnu. Vanmetin og blessuð er kartaflan!“.

 

Með sínu alhliða næringargildi er kartaflan sem sköpuð fyrir okkur. Segja má að stór hluti írsku þjóðarinnar hafi lifað á kartöflunni nánast einni saman áður en kartöflumyglan eyðilagði uppskeruna árin 1845 og 1846 með afdrifaríkum afleiðingum, hungurdauða og landflótta. Þrátt fyrir að dregið hafi úr hefðbundinni kartöfluneyslu með breyttum neysluvenjum og auknu framboði á alls konar hráefni til matargerðar er hún enn fastur hluti flestra máltíða hjá bæði ungum sem eldri. Kartaflan er síung og nýtingarmöguleikar hennar endalausir. Hún er soðin með öllum mat, brúnuð með steikinni og bökuð eða í salati með grillmatnum. Hún er djúpsteikt sem „franskar kartöflur“ með kjúklingum, hamborgurum og steiktum fiski. Hún er í vaxandi mæli notuð í ljúffenga ofnrétti (báta, gratín) og salöt. Loks má nefna notkun hennar í flögur, skrúfur og strá sem brakandi snakk.

Fyrstu kartöflur í Evrópu

Talið er að kartaflan hafi borist eftir tveimur leiðum til Evrópu. Annars vegar kom hún frá Suður-Ameríku til Spánar um 1570 og barst þaðan um Ítalíu til Belgíu. Philippe de Sivry, héraðsstjóri í Mons í Belgíu, sendi árið 1588 kartöflur til hins fræga grasafræðings Clusiusar (Jules Charles de l’Ecluse) í Vín sem skráði niður lýsingu á þeim. Frá þessum spænska uppruna fór kartaflan um alla Evrópu sem grasafræðilegt fágæti. Um tveimur áratugum eftir að kartaflan barst fyrst til Spánar er talið að hún hafi borist til Englands frá Ameríku. Enski læknirinn og grasafræðingurinn John Gerard lýsti henni þar árið 1596 og segir hana komna frá Virginíu í N-Ameríku. Fræðimenn eru sammála um að það fái ekki staðist því kartaflan var ekki komintil N-Ameríku á þessum tíma. Goðsagnir hafa tengt aðalsmennina og landkönnuðina Sir Francis Drake og Sir Walter Raleigh við komu kartöflunnar til Evrópu en það þykir nú ólíklegt að þeim beri sá heiður. Francis Drake sá kartöflur í Chile árið 1578 en hann kom ekki til Englands fyrr en árið 1580 og er því nær útilokað að hann hafi komið með lifandi kartöflur með sér. Auk þess er til lýsing grasafræðingsins Clusiusar árið 1581 á þeim plöntum sem Drake hafði með sér og er kartöfluna þar ekki að finna. Sagt er að Walter Raleigh hafi séð og tekið með sér kartöflur í einni ferða sinna en ekki er vitað til þess að hann hafi farið þar sem kartöflur var að finna á þeim tíma. Í einhverjum tilvikum má skýra óvissu í gömlum heimildum með ruglingi við annan svipaðan, en þó óskyldan, jarðarávöxt, sæthnúða, sem upprunnir eru frá svæðinu kringum Karabíska hafið. Sæthnúðar heita á ensku „sweet potato“ eða sætar kartöflur og er kartöfluheitið „potato“ (á ensku) og hinar ýmsu myndir þess s.s. potet (á norsku), potatis (á sænsku), patetur o.fl. reyndar leitt af heiti þessa jarðávaxtar. Á spænsku heita sæthnúðar „batatas“ og kartöflur „patatas“ sem er í raun samruni á gamla Inkaheitinu yfir kartöfluna, „papa“, og sæthnúðaheitinu „batatas“. Aðrar algengustu orðmyndirnar sem notaðar eru um kartöfluna eru annars vegar samlíkingin við epli, s.s. jarðepli, pomme de terre (á frönsku) og aardappel (á hollensku) og hins vegar samlíkingin við jarðsveppi (á ensku truffles) sem á ítölsku hétu tarfufi eða tartufoli og varð að tartuffolo (á ítölsku, nú reyndar patata), cartoufle (gamalt heiti á frönsku), kartoffel (á dönsku og þþsku) og kartafla hjá okkur.

Fyrstu kartöflur á Íslandi

Birni Halldórssyni, prófasti í Sauðlauksdal við Patreksfjörð, var yfirleitt eignaður heiðurinn af því að hefja kartöflurækt á Íslandi og er hann vel að þeim heiðri kominn. Hann mun þó ekki hafa verið sá fyrsti sem setti niður kartöflur í íslenska mold. Í 6. bindi af Sögu Íslendinga (1751-1770) eftir Þorkel Jóhannesson kemur fram að hinn þþskættaði sænski barón, Friederich Wilhelm Hastfer, setti niður kartöflur á Bessastöðum vorið 1758. Heimild Þorkels gæti m.a. verið bréf Magnúsar Gíslasonar, amtmanns, til Rentukammersins (danska fjármálaráðuneytisins) dags. 28. september 1758, þar sem fram kemur að kartöflur (potaters) hafi verið settar niður og að Hastfer muni skýra nánar frá því eða bréf Hastfers sjálfs til danskra stjórnvalda, ritað á Bessastöðum 19. september 1758 þar sem hann segist hafa reynt ræktun kartaflna. Björn pantaði reyndar kartöflur 1758 en þær komu ekki fyrr en 6. ágúst 1759 frá Kaupmannahöfn og setti Björn þær í ker ásamt mold og fékk smá hný ði undan þeim í október. Þessi ber setti Björn niður 1760 ásamt nýju útsæði sem hann fékk með skipinu þ. 4. júní. Prófastur Guðlaugur Þorgeirsson í Görðum á Álftanesi og Jón Bjarnason, prestur á Ballará á Skarðströnd, settu einnig niður kartöflur á þessum árum.

Áðurnefndur Hastfer barón kom hingað 1756 á vegum danskra stjórnvalda til að setja upp fjárræktarbú við Elliðavatn. Hafði hann keypt kynbótahrúta í Svíþjóð og kom hingað með 10 hrúta af ensku kyni ásamt sænskum fjárhirði, Bottschach að nafni, er starfað hafði á fjárbúi Jonas Alströmers í Svíþjóð. Árin 1758 og 1759 komu fleiri hrútar, m.a. spænskir Merínó hrútar, og er talið að hrútar þessir hafi borið með sér fjárkláða og verið valdir að fyrri fjárkláðaplágunni er lauk árið 1779.

Það er einmitt áðurnefndur Jonas Alströmer sem talinn er eiga heiðurinn af því að útbreiða kartöflurækt í Svíþjóð þótt aðrir hafi reyndar áður verið farnir að rækta kartöflur þar í landi. Jonas Alströmer var sænskur konsúll í London þar til hann árið 1723 yfirgaf England og hélt til Frakklands og Hollands. Alströmer tókst að taka með sér til Svíþjóðar ýmsar vörur og tæki, einkum til vefnaðar, ásamt sérþjálfuðum verkamönnum frá þessum löndum þrátt fyrir að slíkt væri bannað. Kom hann upp vefnaðarverksmiðju í Alingsås og fjárræktarbúi í tengslum við hana með enskum og spænskum hrútum. Hinir innfluttu verkamenn voru vanir kartöflum til matar og lét hann þá sem hann fékk í Frakklandi hafa með sér kartöflur. Þær voru rauðar og voru komnar af þeim sem upphaflega komu til Spánar. Árið 1724 hóf hann kartöflutilraunir á býli sínu Nolhaga. Árið 1727 gaf Alströmer út rit um sauðfjárrækt ásamt viðauka um kartöflur. Til gamans má geta þess að íslenskir garðyrkjubændur rækta hér jurt sem heitir sóllilja en latneska ættkvíslarheiti hennar er Alstroemeria. Heitir hún í höfuðið á syni Jonas Alströmer, Clas, sem um tíma var nemi hjá sænska grasafræðingnum Linné og ferðaðist víða á hans vegum.

Friederich Hastfer var fæddur árið 1722 og var hann því aðeins 34 ára er hann kom fyrst til Íslands. Hann hafði þá þegar getið sér orð sem sérfræðingur í sauðfjárkynbótum. Árið 1752 kom út bók eftir hann í Svíþjóð um sauðfjárrækt sem hann tileinkar Jonas Alströmer og hafði hann því augljóslega kynnst starfi Alströmers í Alingsås en Jonas Alströmer deyr árið 1761. Í það minnsta hefur hann vart komist hjá því að lesa um kartöflur í riti Alströmers frá 1727. Hastfer minnist þó ekki á kartöflur í skrifum sínum frá 1757 þar sem hann fjallar um ástandið á Íslandi og um leiðir til úrbóta (Upartiske Tanker om Iislands Nerværende Tilstand Applicerede til dets Forbedring Forfattede udi Eet Fremmed, og nu Oversadte udi Det Danske Sprog Anno 1757). Þar veltir hann hins vegar fyrir sér korntegundunum, hveiti, byggi, rúgi og höfrum og möguleikum þeirra hér á landi. Hastfer er gagnrýninn á einokunarverslunina og hjá honum kemur fram einlægur vilji til að bæta hag landsins og samúð með landsmönnum vegna bágra kjara þeirra.

Í bréfi því sem Hastfer skrifar yfirvöldum og dagsett er í Kaupmannahöfn 28. apríl 1757 biður hann um leyfi til að búa á Bessastöðum og nýta þá 5 afgirtu garða sem þar eru til að rækta tóbak, hör og kartöflur (Potatoes). Að afloknu verkefni Hastfers á Íslandi skrifar hann yfirvöldum í Kaupmannahöfn bréf í febrúar 1761 og segir frá væntanlegri skýrslu sinni sem muni innihalda 5 kafla um fjárræktina en hann leyfi sér að bæta við 6. kaflanum er fjalla muni um hina velheppnuðu kartöflurækt en þriggja ára reynsla sannfæri hann um að hún muni verða til hagsbóta fyrir landið eins og fjárræktarbúin. Sést hér samsvörun við rit Alströmers frá 1727. Þegar skýrsla Hastfers kom út það sama ár 1761 voru þar einungis 5 kaflar en 6. kaflann vantaði. Hastfer lést í Kaupmannahöfn árið 1768 aðeins 46 ára að aldri.

Þegar saga kartöflunnar er skoðuð vekur það athygli hversu snemma hún berst til Íslands. Kartöflur voru þó nokkuð ræktaðar í Frakklandi og Þýskalandi fyrir 1700 en til Danmerkur berst hún fyrst á fyrri hluta 18. aldar. Tveir atburðir eru þar einkum nefndir. Sá fyrri var 1719-20 þegar landflótt fjölskyldur franskra húgenotta settust að í Fredericia á Jótlandi og ræktuðu þar kartöflur til eigin nota. Hinn atburðurinn var 1759-62 þegar þýskar fjölskyldur frá Rínarlöndum (Pfalz, Darmstadt og Württemberg) settust að á jósku heiðunum að frumkvæði Friðriks fimmta Danakonungs. Þessar fjölskyldur höfðu með sér kartöflur og spruttu þær ágætlega í hinum rýra jarðvegi heiðanna. Í Danmörku gengu þessir Þjóðverjar undir nafninu „kartoffeltyskerne“. Á Sjálandi voru kartöflur fyrst settar niður

1757 og 1770 voru kartöflur fyrst borðaðar við dönsku hirðina. Þetta bendir til þess að kartaflan hafi nánast verið óþekkt í Kaupmannahöfn þegar Hastfer og Björn fá sínar fyrstu kartöflur.

Hastfer hefur haft sína þekkingu á kartöflunni frá Alingsås í Svíþjóð og Björn frá S-Jótlandi. Það kemur fram hjá Þorkeli Jóhannessyni í Sögu Íslendinga að fjármaðurinn Bottschach hafi farið út haustið 1757 og hafi átt að kaupa hrúta og senda hingað sumarið 1758 hvað hann mun hafa gert. Þegar litið er til þess að Bottschach hafði starfað hjá Alströmer áður en hann kom hingað og kynnst kartöflum þar, og trú Hastfers á möguleikum kartöflunnar hér á landi ekki meiri en það að hann nefnir hana ekki í skrifum sínum frá 1757, hlýtur maður að velta fyrir sér hvort Bottschach eigi ekki einhvern þátt í að kartöflur voru settar niður á Bessastöðum 1758. Björn hefur hugsanlega lesið rit sem presturinn Lüders í Glücksborg í Slésvík gaf út 1756 en í riti Björns Korte beretninger om nogle forsög til Landvæsenets og især Havedyrkningens forbedring i Island kemur fram að honum var kunnugt um ræktun kartöflunnar í Slésvík, Holtsetalandi, Þýskalandi og annars staðar í Evrópu. Í grein sem Hannes Thorsteinson skrifaði árið 1924 í Ársrit hins íslenska Garðyrkjufélags og nefnir Smábrot úr sögu kartöflunnar vekur hann einnig athygli á því hversu snemma Björn Halldórsson hafi haft vitneskju um kartöfluna og telur það merki um hve vel hann fylgdist með því sem gerðist erlendis, glöggskygni hans og áhuga á því sem hér gæti orðið til þjóðþrifa.

Upp úr 1780 fara kartöflur að berast með skipunum frá Kaupmannahöfn og dreifðu ráðamenn þeim til landsmanna. Hafa þær verið af þeim afbrigðum sem þá voru ræktuð í Danmörku á þeim tíma en einnig komu kartöflur frá Vesturheimi. Jónas Benediktsson, fyrrum bóndi í Fjósatungu í Fnjóskadal, segir frá því í riti sínu Fáein orð um ræktun jarðepla frá árinu 1856 að árið 1807 hafi komið skip til Akureyrar frá Vesturálfu með hveiti, hrísgrjón og lítið eitt af jarðeplum. Hafi Hans Wilhelm Lever kaupmaður, sem var mikill áhugamaður um kartöflurækt, fengið þessar kartöflur, sett niður og dreift síðan útsæði til annarra. Einnig er líklegt að brottfluttir VesturÍslendingar hafi einhvern tíma sent kartöflur á sínar heimaslóðir.

Um mismunandi kartöfluafbrigði

Hvernig voru fyrstu kartöflurnar sem bárust til Evrópu? Ef litið er á fyrstu lýsingar þeirra Clusiusar í Vín og Gerards í Englandi og einnig annarra má fá hugmynd um það. M.E. Roze hefur í grein sem birtist árið 1896 velt þessu fyrir sér. Niðurstaðan var sú að þær kartöflur sem fyrst bárust um meginland Evrópu hafi verið rauðleitar og ílangar en þær sem komu fyrst til Englands hafi verið gulleitar og meira eða minna ílangar. Í báðum tilvikum var holdið hvítt. Í Svíþjóð var í upphafi talað um þrenns konar afbrigði af kartöflum: enskar gular, hollenskar rauðar og franskar rauðar. Í sænsku riti frá 1776 eru nefnd 6 mismunandi afbrigði: (1) langar rauðar, (2) hnöttóttar rauðar, (3) langar hvítar, (4) hnöttóttar hvítar, gulleitar, (5) bláleitar með þykku hýði og loks (6) ungverskar sem eru mánuði fyrr að þroskast. Hinn danski Jacob Kofoed Trojel nefnir 5 afbrigði í riti sínu frá 1772 Stutt ágrip um jarðeplana nytsemd og ræktun; (1) hnöttóttar rauðar, (2) langar rauðar, (3) hnöttóttar gular eða hollenskar, (4) flatar gular eða enskar og (5) litlar gular sem „fólk heldur að sé Írlendskar“. Loks má geta þess að fyrsta tilvísun í afbrigði á Írlandi er frá 1730 og er þar getið um 5 afbrigði: (1) hvítar, flatar og nýrnalaga, (2) hvítar hnöttóttar, (3) gular, (4) rauðar hnöttóttar og (5) svarta kartaflan.

Fyrstu kartöflurnar sem bárust til Evrópu voru ekki arfhrein afbrigði heldur blanda af mismunandi arfgerðum. Án efa hafa borist öðru hvoru nýjar sendingar af kartöflum með spænsku og ensku skipunum frá Norður- og Suður- Ameríku og þar með nýjar arfgerðir. Algengt var á þessum tíma að sá út aldinum sem mynduðust á grösunum eftir víxlfrjóvgun og þar með var myndað nýtt afbrigði. Um aldamótin 1800 er talið að í Evrópu hafi verið um 100 mismunandi afbrigði. Kartöflur þær sem Björn fékk fyrst komu frá Kaupmannahöfn og voru rauðar og hnöttóttar eða eilítið ílangar. Kartöflur þær sem Hastfer setti niður gæti hann hafa fengið frá Kaupmannahöfn þar sem hann dvaldi áður en hann kom til Íslands eða frá Svíþjóð þar sem hann átti hrúta og þaðan sem hann fékk einnig fjármann frá búi Alströmers, en ekki hefur höfundur rekist á neina lýsingu á þessum kartöflum enn.

Í riti sínu Ávísan til Jarðeplaræktanar fyrir Almúgamenn á Íslandi frá 1810 getur Hans Wilhelm Lever, kaupmaður á Akureyri, þess, að til séu mismunandi afbrigði af kartöflum (af-artir) og flest þeirra nái ekki hér þeim þroska sem í útlöndum. Ekki lýsir hann þeim en getur þess þó að menn skulu vara sig á þeim rauðleitu aflöngu jarðeplum því þau séu einhver hin lökustu. Bjarni Arngrímsson, sóknarprestur í Mela- og Leirársókn í Borgarfirði gaf út garðyrkjukver árið 1816. Þar mælir hann með þeim hnöttóttu gulu jarðeplum sem bera himinblá, þá fjólublá og loks hvít blómsturblöð. Hann nefnir einnig hin rauðu hnöttóttu og rauðu aflöngu sem beri hvít blóm.

Í norræna genbankanum eru varðveitt þrjú afbrigði frá Íslandi, Bláar, Gular og Rauðar íslenskar. Við samanburðarrannsókn þar kom í ljós að ekki var hægt að aðgreina Rauðar íslenskar frá gömlu sænsku afbrigði, Gammal svensk röd, en eitt af nöfnum þess var Nolor. Nolor er talið komið af heitinu Nolhaga sem var býli Jonas Alströmers. Þetta gamla afbrigði var einnig ræktað í Noregi og Finnlandi (undir heitinu Haalikas). Það eru því líkur til að Rauðar íslenskar eða Íslendingur eins og Hornfirðingar kalla þetta afbrigði eigi rætur að rekja til upphafs Sigurkartöfluræktar á Íslandi.

Mynd: Íslensku afbrigðin þrjú sem varðveitt eru í norræna genbankanum, Rauðar íslenskar, Gular íslenskar og Bláar íslenskar.

Birt:
July 13, 2008
Höfundur:
Sigurgeir Ólafsson
Uppruni:
Bændablaðið
Tilvitnun:
Sigurgeir Ólafsson „Úr sögu jarðepla“, Náttúran.is: July 13, 2008 URL: http://www.nature.is/d/2008/07/13/ur-sogu-jaroepla/ [Skoðað:April 16, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: