Í kvöldfréttum Sjónvarpsins var flutt furðuleg frétt um „nýtt áhættumat“ frá framkvæmdaraðilunum sjálfum varðandi flóðahættu í neðri hluta Þjórsár. Ekkert var minnst á að óeðlilegt megi teljast að Landsvirkjun sjálf standi að nýju mati en síendurtekið hefur verið bent á að varla geti það talist óyggjandi sannindi þegar að framkvæmdaraðili sjálfur annist umhverfis- og áhættumat og birti síðan hluta af niðurstöðum, þeim sem henta framkvæmdagleði fyrirtækisins hverju sinni. Nú síðast skoraði stofnfundur Græna netsins á yfirvöld og Landsvirkjun að leggja til hliðar öll áform um þrjár virkjanir og uppistöðulón í neðri hluta Þjórsár.

Niðurstaða Landsvirkjunar eins og hún var kynnt landsmönnum í kvöld hljóðar á þessa leið: Íbúum við Þjórsá stafar hætta af stórflóðum í ánni, hvort sem virkjað verður eða ekki. Í áhættumati vegna Þjórsárvirkjana er gert ráð fyrir því að sprungur geti opnast undir lóni í Suðurlandsskjálfta, og stíflur rofnað á nokkrum stöðum en það gæti hvort eð er komið stórflóð sem haft gætu hræðilegar afleiðingar fyrir þá sem fyrir þeim verða. Þannig komst Helgi Bjarnason starfsmaður Landsvirkjunar að orði og fannst hann þannig geta dregið úr ótta íbúa við Þjórsá.

Minnst var á í fréttinni að áhættumatið yrði kynnt á fimmtudaginn kemur. Íbúum Flóahrepps barst bréf nú á föstudaginn þar sem orðrétt segir:

ÍBÚAFUNDUR UM KYNNINGU Á HÆTTUMATI VEGNA URRIÐAFOSSVIRKJUNAR

Íbúafundur um kynningu áhættumats vegna Urriðafossvirkjunar verður haldinn í félagsheimilinu Félagslundi fimmtudaginn 18. október n.k. kl. 20:30.

Fulltrúar frá VST munu kynna áhættumatið og svara spurningum um það.

Sveitarstjórn.

Myndin er af Urriðafossi. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Oct. 14, 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Meiri hætta af náttúruöflunum en af stíflurofi?“, Náttúran.is: Oct. 14, 2007 URL: http://www.nature.is/d/2007/10/14/meiri-htta-af-nttruflunum-en-af-stflurofi/ [Skoðað:Feb. 29, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Oct. 15, 2007

Messages: