Færri fara nú einir í einkabíl til vinnu eða skóla á morgnana en árið 2008. 71% reyndust keyra í vinnuna samkvæmt ferðavenjukönnun sem Umhverfis- og samgöngusvið lét gera í nóvember. Árið 2008 keyrðu 76% í vinnuna. Um það bil 4% fleiri ganga til vinnu en áður og fleiri hjóla.

„Græna skrefið að greiða götu fólks í umferðinni hefur greinilega skilað sér,“ segir Gísli Marteinn Baldursson formaður umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar „við höfum til að mynda aukið forgang strætó, bætt aðstöðu hjólreiðafólks og stutt heilsu- og umhverfisvænan lífsstíl.“ Gísli Marteinn bendir einnig á að niðurstaðan í ferðavenjukönnuninni rými við nýlega umferðatalningu þar sem fram kom að ferðatími milli úthverfa og miðborgar hefur styst um 4 mínútur milli áranna 2008 og 2009.

Spurt var í könnuninn: Með hvaða hætti ferðast þú að jafnaði til vinnu eða skóla á morgnana? Fram kom að 11% eru vanir að ganga, 7% eru farþegar í bíl, 6% taka strætó, 3% hjóla og 3% fara með öðrum hætti. Fram kemur að færri konur keyra til vinnu en karlar, þær eru oftar farþegar í bíl.

Grunnskólabörn

Fleiri grunnskólabörn hjóla í skólann en áður. Færri börn virðast hins vegar ganga að jafnaði í skólann en árið 2008. 72% gengu í skólann 2008 en 67% nú í haust. Spurt var: Með hvaða hætti fór barnið þitt/börnin þín í grunnskólann í morgun? Í ljós kom að 67% barna ganga í skólann, 29% eru keyrð, 6% hjóla, 5% taka strætó og 2% fara með öðrum hætti.

Marktækan mun má greina milli hverfa í könnuninni. Flest börn ganga í skólann í Grafarvogi og Kjalarnesi eða 89%. Fæst börn ganga aftur á móti í skólann í Miðborg og Hlíðum eða 55%. Aftur á móti er annað upp á teningnum þegar spurt er um ferðavenjur fullorðinna. Þá kemur í ljós að flestir keyra til vinnu í Grafarvogi og Kjalarnesi eða 73% en fæstir í Vesturbæ eða 55%.

Eygerður Margrétardóttir telur að ferðavenjur barna í skólann geti haft áhrif á viðhorf þeirra og venjur í framtíðinni. Umhverfis- og samgöngusvið vill því styðja við vistvænar ferðavenjur og vinnur nú til dæmis að hjólreiðaáætlun fyrir borgina og kortlagningu gönguleiða skólabarna.

Ferðavenjukönnun Umhverfis- og samgöngusviðs

Kynning á ferðvenjukönnun USR

Frétt um ferðatíma og hraða á götum borgarinnar

Birt:
Dec. 14, 2009
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Fleiri ganga og hjóla til vinnu en áður“, Náttúran.is: Dec. 14, 2009 URL: http://www.nature.is/d/2009/12/14/fleiri-ganga-og-hjola-til-vinnu-en-aour/ [Skoðað:Dec. 9, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: