Hvernig á að flokka
Í þennan flokk fer t.d. tölvupappír, skrifpappír, faxpappír, sjálfafritandi nótur (NCR pappír) og hvítur afskurður frá prentsmiðjum.

Hvað fer ekki í þennan flokk
Ekki má setja litaðan ljósritunarpappír, skilaboðamiða með lími, umslög eða þykkan kartonpappír sem er mikið ámálaður (skólar og leikskólar).

Hvert á að skila
Almenningur getur skilað þessum pappír með dagblöðum og tímaritum í grenndargáma á höfuðborgarsvæðinu eða á endurvinnslustöðvar.

Endurvinnsla – hvað er gert við hráefnið
Pappírinn er pressaður saman undir miklum þrýstingi og vírbundinn í 400 - 500 kg bagga. Hann er síðan sendur til Svíþjóðar í 40 feta stórum gámum þar sem fyrirtækið Il recycling tekur við honum. Þeir senda pappírinn síðan áfram til nokkurra fyrirtækja í Svíþjóð, m.a. SCA í Lilla Edet. Þar er t.d. framleiddur salernispappír og eldhúspappír (vörumerkin Edet og Tork). Við endurvinnslu á pappír er leitast við að ná ákveðinni blöndu af trefjamassa sem miðast við þá vöru sem verið er að framleiða hverju sinni. Við framleiðslu á salernispappír er t.d. ákveðnum hlutföllum af skrifstofupappír (meiri gæði, meiri trefjar) blandað saman við dagblaða og tímaritapappír (minni gæði) og svo er yfirleitt eitthvað af frumunnu efni (trefjar unnar úr trjám). Þessi hlutföll breytast síðan eftir því hvaða vöru er verið að framleiða hverju sinni.  Önnur framleiðsla úr endurunnum skrifstofupappír er m.a. ljósritunarpappír, dagblaðapappír, stílabækur, teiknipappír og margt fleira.
Birt:
March 28, 2007
Höfundur:
Uppruni:
SORPA bs
Tilvitnun:
NA „Skrifstofupappír, prentsmiðjuúrgangur (hvítur afskurður)“, Náttúran.is: March 28, 2007 URL: http://www.nature.is/d/2007/03/28// [Skoðað:Feb. 29, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: April 20, 2007

Messages: