Síðast liðna þrjá mánuði hefur háskólanám í umhverfisfræðum verið í fullum gangi á Sólheimum. Sesseljuhús umhverfissetur og CELL, bandarísk menntasamtök standa að náminu en CELL stendur fyrir "Center for Ecological Learning and Living". Þessi samtök bjóða upp á svokallað "Study Abroad Program’ en þá gefst bandarískum stúdentum tækifæri að fara út í heim að læra og er það metið til 15 háskólaeininga sem nýtast í áframhaldandi háskólanámi eftir að heim er komið.

Námið hefur gengið vel og eru nemendur mjög ánægðir með dvölina. Yfirskrift námsins er “Sjálfbær þróun í sjálfbæru samfélagi” og því urðu Sólheimar fyrir valinu enda hefur verið unnið þar markvisst að umhverfismálum um árabil.

Nemendurnir 14 hafa lært allt mögulegt; allt frá Íslandssögu til sjálfbærrar þróunar. Hluti námsins felst í vettvangsferðum en þá er farið í ýmis fyrirtæki, stofnanir og söfn og þekkingin sótt heim. Á þessari önn var farið í orkufyrirtæki, Umhverfisráðuneytið og ýmis söfn auk þess sem náttúru Íslands var notið í útivist. Annar mikilvægur hluti námsins felst í verkefnum sem nemendur vinna á Sólheimum og miða þau öll að því að gera umbætur í umhverfismálum. Næsta föstudag munu þau kynna niðurstöður sínar og verður það spennandi að sjá og heyra. Nemendurnir hafa samlagast Sólheimum mjög vel og tekið ríkulegan þátt í samfélaginu. Þau hafa öll fengið tækifæri við að aðstoða á vinnustofum Sólheima og náð þannig að kynnast íbúum betur en ella. Auk þess hafa þau spilað á hljóðfæri við messur í Sólheimakirkju og nú ný verið tekið þátt í tónleikahaldi með starfsfólki Sólheima. Það má því með sanni segja að þeirra verið sárt saknað þegar þau fara þann 25. nóvember n.k. Næsta hausts mun ný r nemendahópur koma til Sólheima. Frekari umfjöllun um námið er á heimasíðu Sesseljuhúss, www.sesseljuhus.is.
Birt:
Nov. 20, 2007
Uppruni:
Sesseljuhús
Tilvitnun:
Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir „Háskólanám á Sólheimum - 1. önn senn að ljúka“, Náttúran.is: Nov. 20, 2007 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/20/haskolanam-solheimum-1-onn-senn-ao-ljuka/ [Skoðað:Oct. 15, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Jan. 15, 2008

Messages: