„Það er við hæfi að fyrsta vistgatan í Reykjavík verði í Grófinni því þar er miðja Reykjavíkur og þaðan liggja allar leiðir,“  segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður umhverfis- og samgönguráð Reykjavíkurborgar í tilefni af því að ráðið hefur samþykkt að auka umhverfisgæði norðan til í Kvosinni með því að gera nokkra götukafla að vistgötum í samræmi við umferðarlög.

Umhverfis- og samgönguráð samþykkti í vikunni að eftirfarandi götukaflar verði vistgötur: Vesturgata milli Grófinnar og Aðalstrætis, þar verði einnig afmarkað eitt rútustæði, Aðalstræti milli Fischersunds og Vesturgötu, og Hafnarstræti milli Aðalstrætis og Veltusunds. Þorbjörg Helga segir að ráðið hafi samþykkt þarna langþráð skammtímarútustæði vegna þeirra fjölmörgu hótela og ferðaþjónustufyrirtækja sem starfrækt eru á þessu svæði.

Ráðið lagði einnig til að sett verði einstefna á Vesturgötu frá Aðalstræti að Grófinni og að biðskylda verði á umferð um Vesturgötu frá Aðalstræti inn á akstursleið um Vesturgötu frá Mjóstræti og um Grófina. Þetta var samþykkt  með fyrirvara um samþykki lögreglustjórans í Reykjavík.

Mót Aðalstrætis, Hafnarstrætis og Vesturgötu eru oft kölluð miðja Reykjavíkur. Þar er viðmiðunarpunktur götunúmera í borginni og þar var áður einskonar borgarhlið milli hafs og lands því vörum var skipað í gegnum húsið sem nú er nefnt Kaffi Reykjavík.

Í miðju Reykjavíkur eru mörg söguleg hús sem gerð hafa verið upp á liðnum árum og nú hefur Zimenshúsið bæst við í Grófinni þar sem áður voru bílastæði, í því verður starfsemi tengd ferðaþjónustu, meðal annars veitingastaður í kjallaranum sem opnar í sumar.

Umferðalög gera ráð fyrir vistgötum en Reykjavíkurborg hefur ekki áður skilgreint svæði með þessu hugtaki. Í sjöundu grein umferðarlaga stendur: „Heimilt er að dveljast og vera að leik á vistgötu. Þar ber að aka mjög hægt, að jafnaði eigi hraðar en 15 km á klst. Ef gangandi vegfarandi er nærri má eigi aka hraðar en á venjulegum gönguhraða. Ökumaður skal sýna gangandi vegfaranda sérstaka tillitssemi og víkja fyrir honum. Gangandi vegfarandi má eigi hindra för ökutækis að óþörfu. Eigi má leggja ökutækjum nema á sérstaklega merktum stæðum. Ákvæði þetta gildir eigi um reiðhjól.“
Birt:
April 16, 2009
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Vistgötur umhverfis miðju Reykjavíkur “, Náttúran.is: April 16, 2009 URL: http://www.nature.is/d/2009/04/16/vistgotur-umhverfis-mioju-reykjavikur/ [Skoðað:Dec. 7, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: