Fjárfestingarsjóðurinn Arev N1 hefur keypt upp fyrirtækið Yggdrasil en höfðu áður keypt helming í fyrirtækinu.

Fyrirtækið Yggdrasill var stofnað af Hildi Guðmundsdóttur og Rúnari Sigurkarlssyni en þau hjónin byrjuðu með litla verslun á horni Frakkastígs og Kárastígs árið árið 1986 og var tilgangurinn með stofnun félagsins að selja eingöngu lífrænt ræktaðar matvörur og aðrar vörur af bestu fáanlegu gæðum. Í þá tíð voru lífrænt ræktuð matvæli fáséð og má því með sanni segja að þau Hildur og Rúnar hafi rutt brautina fyrir lífræna verslun á Íslandi. Verslunin var lengi á Kárastígnum enda markaðurinn smár til að byrja með en árið 2005 flutti verslunin loks í stærra og betra húsnæði að Skólavörðustíg 16.

Auk verslunarinnar á Skólavörðustíg hefur Yggdrasill einnig starfrækt heildsölu og selt í aðrar verslanir. Heildsala og dreifing í aðrar verslanir hefur aukist jafnt og þétt og fást nú vörur frá Yggdrasil í öðrum heilsuvöruverslunum og stórmörkuðum, meðal annars í Blómaval, Brauðhúsinu, Fjarðarkaup, Hagkaup í Kringlunni, Smáralind og Skeifunni, Heilsuhúsbúðunum, Melabúðinni, Árnesapóteki á Selfossi og Versluninni Völu á Sólheimum í Grímsnesi.
Yggdrasill hefur löngum átt gott samstarf við bændur sem stunda lífræna ræktun á Íslandi og hefur ætíð til sölu það úrval af lífrænt ræktuðu grænmeti sem fáanlegt er hverju sinni.
Nýr framkvæmdastjóri Yggdrasils er Dina Akhmetzhanove en hún hefur víðtæka reynslu af verkefnastjórnun og markaðsmálum hér á landi jafnt sem erlendis.
 
Myndin er af bás Yggdrasils á sýningunni Vistvænn lífsstíll sem haldin var í Perlunni á degi umhverfisins í ár. Dina Akhmetzhanove er til vinstri á myndinni. Sjá vef Yggdrasils.
Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
June 3, 2008
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Yggdrasill nú alfarið í eigu Arev N1“, Náttúran.is: June 3, 2008 URL: http://www.nature.is/d/2008/06/03/yggdrasill-nu-alfario-i-eigu-arev-n1/ [Skoðað:Oct. 14, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: