Héðinsfjarðargöng mynd frá VegarðinniUm sl. aldamót var hafinn faglegur og stjórnsýslulegur undirbúningur friðlýsingar eyðifjarðarins Héðinsfjarðar, en þáverandi umhverfisráðherra stöðvaði þær aðgerðir að beiðni landeigenda Héðinsfjarðar sem væntanlega voru farnir að sjá sér féþúfu af því að láta leggja veginn milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar þar um. Um þetta var fjallað í grein í Degi, sem síðar var sett á vefinn um svipað leyti og SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, skoruðu á bæjarstjórn Fjallabyggðar að friðlýsa Héðinsfjörð. Fróðlegt er að sjá þar hvernig umhverfisráðherra kom í veg fyrir sjálfsagðar varúðarráðstafanir.

Þegar styttist í að göngin opnuðust sendu SUNN frá sér ályktun til umhverfisráðherra og bæjarstjórnar. Ég man ekki gjörla viðbrögð umhverfisráðherra en bæjarstjórnin tók þetta til jákvæðrar meðferðar og hélt a.m.k. einn fund með landeigendum sem mér skilst að hafi verið fljótir að hafna tillögum um friðlýsingu. Bæjarstjórnin gerði þá ekki meira í málinu svo að ég viti - en vaknar nú við þann vonda draum að landeigendur hafa fengið Vegagerðina til að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir - en ég man ekki betur en að þegar umhverfisáhrifin voru metin væri eingöngu miðað við veg þvert yfir dalinn, enga aðra vegi. Og varla er yfirmaður samgöngumála landsins, Kristján L. Möller samgönguráðherra, sáttur við framgöngu landeigendanna, stjórnmálamaður sem persónulega beitti sér fyrir því að Héðinsfjarðarleiðin yrði valin í samgöngubótum. Viðbótarvegarlagningin í Héðinsfirði er nefnilega algerlega óþörf náttúruspjöll sem koma til viðbótar umdeildri vegarlagningu. Framkvæmdirnar nú í Héðinsfirði koma þó ekkert á óvart því að yfirvöld voru varla nægilega vakandi fyrir því að einmitt þetta myndi gerast.

Álytkun SUNN frá ágúst 2007:

"Friðlþsum Héðinsfjörð um leið og göngin opnast

SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, skora hér með á umhverfisráðherra og bæjarstjórn Fjallabyggðar að beita sér fyrir friðlýsingu Héðinsfjarðar sem friðlands eða fólkvangs. Friðlandið yrði stofnað eigi síðar en jarðgöngin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar verða opnuð, en undirbúning friðlýsingar, merkingar gönguleiða og brúun lækja og mýrlendis þarf að hefja sem allra fyrst.

Fjallabyggð og byggðarlög í nágrenninu hafa mikla hagsmuni af því að friðland verði stofnað á norðanverðum Tröllaskaga, með eins konar hjarta í Héðinsfirði. SUNN telja því sé eðlilegt að sveitarfélagið beiti sér í málinu með umhverfisráðherra. Þá er ekki ólíklegt að hinn siglfirski samgönguráðherra hafi áhuga á málinu. Friðlýsing myndi hafa afar góð áhrif á ímynd svæðisins alls og vafalítið stuðla að auknum ferðamannastraumi um norðanverðan Tröllaskaga og auka þannig þau jákvæðu áhrif sem fólk á svæðinu vonast til að skapist vegna jarðganga og vegar sem liggur þvert yfir Héðinsfjörð.

Þótt Héðinsfjörður verði ekki friðland eða fólkvangur við opnun jarðganganna þarf að gera friðunarráðstafanir þegar vegur verður kominn. Um þetta hafa landeigendur, náttúruverndaryfirvöld, SUNN og fjölmargir aðrir sem hafa tjáð sig verið sammála, t.d. þarf að hindra bílaumferð utan þjóðvegar og það þarf að gera þar gott göngustíga- og gönguleiðakerfi sem í senn verndar gróður og landslag og tryggir almenningi aðgang. Koma þarf á fót móttöku fyrir gesti, bílastæðum, göngustígum og brúm yfir læki og um mýrlendi. Allar slíkar aðgerðir munu gagnast betur ef landið verður formlega friðlýst og komið á landvörslu og upplýsingagjöf fyrir ferðafólk."

Mynd: Héðinsfjarðargöng - Yfirlitsmynd frá Siglufirði - Vegagerðin

Birt:
Oct. 17, 2009
Tilvitnun:
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson „Þess vegna vildu landeigendur ekki friðlýsa Héðinsfjörð“, Náttúran.is: Oct. 17, 2009 URL: http://www.nature.is/d/2009/10/17/thess-vegna-vildu-landeigendur-ekki-friolysa-heoin/ [Skoðað:Dec. 9, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: