Bæjarstjórn sveitarfélagsins Voga við Vatnsleysuströnd á Reykjanesi hefur hafnað áætlunum Landsnets um háspennulínulagnir vegna fyrirætlaðs álvers í Helguvík. Áður hafði sveitarfélgaið neitað að taka afstöðu til málsins þar sem ekki var um neinn valkost utan ofanjarðarmastra að ræða. Vogar eru þriðja sveitarfélagið á svæðinu til að hafna línulögnum ofnajarðar á landi sínu. Sandgerðisbær hafnaði línulögnum ofanjarðar strax í vor og Grindavík hafnaði nú í september.
 
Umhverfisnefnd Voga lagði fram tillögur til sveitarstjórnar um að línulögnum yrði hafnað „enda myndu slíkar línur spilla ásýnd landsins og hefta möguleika til atvinnusköpunar, útivistar og annarrar landnýtingar á svæðinu til frambúðar“. Í umsögn umhverfisnefndar segir ennfremur að „ekki verður heldur séð að þörf sé fyrir svo stór og afkastamikil mannvirki, jafnvefl þótt virkjanir stækki og þótt 250 þús. tonna álver yrði byggt í Helguvík“. Nefndin mælir með jarðstreng meðfram Reykjanesbrautinni og að sæstrengur leiði rafmagns til fyrirhugaðs álvers milli Flekkuvíkur og Helguvíkur.

Raflínur og álverið í Straumsvík. Ljósmynd: Árni Tryggvason.
Birt:
Nov. 5, 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Vogar hafna háspennulínum“, Náttúran.is: Nov. 5, 2007 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/05/vogar-hafna-hspennulnum/ [Skoðað:Dec. 3, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: