"Ef þú veist ekkert um málin þá geturðu ekki myndað þér skoðun."

Umræðan um loftslagsmál er á köflum óábyrg og komin langt frá sínu upphaflega samhengi, segir Siggi Stormur, og kemur málunum á hreint.

Sigurður Þ. Ragnarsson - einnig þekktur sem Siggi Stormur hefur starfað sem veðurfræðingur 365 miðla í meira en tíu ár. Hann býður nú ásamt fyrirtækinu Þekkingarmiðlun upp á námskeið í grunnatriðum loftslagsbreytinga, undir heitinu "Í einum grænum." Viðskiptablaðið ræddi við Sigurð um námskeiðið og hvers vegna hann telur þörf á því.

"Þekkingarmiðlun hafði samband við mig. Þeim fannst þurfa að skerpa á umræðunni. Ef þú ætlar að fá fólk til að hugsa og grípa til aðgerða er fyrsta skrefið að veita því áreiðanlegar upplýsingar," segir Sigurður, sem er jarð- og veðurfræðingur og margreyndur kennari.

Í námskeiðinu fjallar Sigurður um grunnatriðin í vísindunum sem eru nauðsynleg til að skilja gróðurhúsaáhrifin, en Þórhildur Þórhallsdóttir, þjálfari hjá Þekkingarmiðlun, fjallar um hagnýtar lausnir og viðbrögð, á borð við endurvinnslu, kolefnisjöfnun og breyttar samgönguvenjur.

Fólk veit ekki af staðreyndunum
"Fólk er sjokkerað þegar það sér staðreyndirnar og spárnar sem nú eru við lþði," segir Sigurður um viðbrögð þátttakenda í námskeiðinu. "Fólk vissi ekki af mörgum viðurkenndum staðreyndum, svo sem hinum beinu tengslum milli magns koltvísýrings í andrúmslofti og hitastigs. Það eru ekki allir sem hafa séð mynd Al's Gore eða fylgst náið með umræðunni úti í heimi," segir Sigurður.

Telur Sigurður að háværum efasemdaröddum sé um að kenna hve lítið skynbragð almenningur ber á grunnatriðin í loftslagsmálum? "Já og nei," svarar hann. "Ég held að efasemdaraddir eigi að koma fram, þótt ekki sé nema til að halda hinum við efnið. Á hinn bóginn er það klárt að efasemdamenn hafa valdið því að þessi umræða er komin út um víðan völl og langt frá sínu upphaflega samhengi. Efasemdaraddir hafa komið umræðunni á villigötur," segir Sigurður.

Koltvísýringsmagn í andrúmslofti stóreykst
En hverjar eru hinar óumdeildu staðreyndir í umræðunni um gróðurhúsaáhrif? "Við vitum til dæmis að það er beint samband milli styrks koltvísýrings í andrúmslofti og lofthita. Rannsóknir á ískjörnum sem ná átta þúsund ár aftur í tímann sýna þetta svo ekki verður um villst," segir Sigurður.

"Það er óumdeilt að gastegundin koltvíoxíð drekkur í sig varma. Svo vitum við að það eru sveiflur í styrk koltvísýrings í loftinu á þessari 400-800 þúsund ára sögu sem við þekkjum. Það sem við vitum einnig er að styrkur koltvíoxíðs hefur vaxið sem aldrei fyrr á síðustu áratugum, eða um 36% á síðustu 150-200 árum. Styrkurinn óx úr 280 í 380 mg. á hvert kílógramm lofts, og við vitum að hann er langtum hærri en hann hefur orðið nokkurn tíma áður," útskýrir Sigurður.

Spár Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna - IPCC - gera ráð fyrir að þessi styrkur vaxi upp úr öllu valdi á næstu áratugum verði ekkert að gert til að draga úr losun koltvísýrings af mannavöldum. "Það er nánast óumdeilt að styrkurinn nái 550-600 mg á hvert kílógramm lofts árið 2100 verði ekkert að gert, en svartsýnar spár gera ráð fyrir að þessi tala nái upp í 970," segir Sigurður.

Mæld hitastigsaukning á síðustu 150-200 árum er óumdeild, og hafa vísindamenn að sögn Sigurðar neytt allra ráða til að útiloka aðra skýringarþætti en koltvísýringsútblástur af mannavöldum. "Við vitum að fyrir 150-200 árum fara menn að nota kol og olíu í miklu meiri magni en áður, og megnið af þeirri aukningu er síðustu 60 árin."

Ættum að vera á kuldaskeiði
Sigurður útskýrir að vísindamenn hafi notað reiknilíkön áþekk þeim sem notuð eru við gerð veðurspáa til að kanna hvort hitastigsaukningin síðustu áratugi geti átt sér aðrar skýringar en þá aukningu í koltvísýringi sem er vitað að er tilkomin af mannavöldum. Í þessum líkönum reikna menn hitastigið eins og það ætti að vera miðað við að engin væri koldíoxíðaukningin frá manninum. Síðan reikna menn aftur og setja þá inn í líkanið koldíoxíðaukninguna frá manninum. Þessar niðurstöður eru síðan bornar saman við mæld gögn úr raunveruleikanum.

Þegar koltvísýringsaukningin af mannavöldum er tekin út úr reiknilíkaninu þá hefur að sögn Sigurðar komið í ljós að hitastigið á jörðinni væri þá allt allt annað en það í rauninni er. "Við ættum að vera á kuldaskeiði. Þannig er uppsveiflan í hitastiginu síðastliðin 100 ár algjörlega úr takti við það sem þekkt er síðustu 800 þúsund ár. Ef þessi orskaþáttur, koltvísýringsaukning í andrúmsloftinu af mannavöldum, er tekinn með í reikninginn, þá er þessi hitaaukning á jörðinni í fullu samræmi við alla útreikninga," segir Sigurður.

Í fjórðu matsskýrslu sinni frá árinu 2007 komst Vísindanefnd SÞ svo að þeirri niðurstöðu, sem byggð er á þessari aðferðafræði, að loftlagsbreytingar síðan um miðja tuttugustu öld væru "mjög líklega" af mannavöldum, en fyrri skýrslur nefndarinnar höfðu bent í sömu átt.

"Við megum gleyma því hvað Vísindanefndin IPCC er. Þetta eru ekki vísindamenn sem stunda frumrannsóknir heldur taka þeir saman niðurstöður frá gríðarmörgum ólíkum rannsóknum og draga sína heildarályktun út frá forsendum og niðurstöðum þeirra. Það er mjög erfitt að ætla að svo stór hópur vísindamanna sem IPCC leggur mat á stjórnist af annarlegum hagsmunum," segir Sigurður.

"Meðaltalshækkun á hitastigi jarðar síðan í upphafi þar síðustu aldar um 0,7 gráður. Síðustu átta ár hafa öll raðast á topplista hlýjustu ára frá upphafi mælinga," segir Sigurður. En jafnvel þótt staðfest sé að loftslagsbreytingar séu staðreynd, og orsakist af koltvísýringsútblæstri mannsins, er þá víst að afleiðingarnar séu svo slæmar? Sigurður svarar því til að líkur á hættulegum náttúrufyrirbærum aukist vegna hlýnunarinnar. "Líkur aukast á þurrkatímabilum sem valda skógareldum, á fellibyljum og skþstrókum," segir Sigurður.

Forsendur veðurkerfanna breytast
Spyrja má hvort slíkar hamfarir séu þó ekki eðlilegur hluti af gangi náttúrunnar. "Jú, vissulega eru alltaf hamfarir og jörðin er ætíð í ójafnvægi. En eitt vitum við þó: þegar hlýnar þá breytast forsendur til myndunar allra veðrakerfa. Þá geta myndast forsendur til að mynda reglulega fellibylji og búa til endalausa þurrka með tilheyrandi vandamálum."

"Við erum að búa til jarðveg fyrir miklu tíðari veðurhamfarir, til dæmis í suðurríkjum Bandaríkjanna, sem gætu orðið óbyggileg í fjóra mánuði á ári vegna tíðra fyllibylja. Með hlýnuninni erum við að búa til farveg til myndunar skelfilegra veðurfyrirbæra," útskýrir Sigurður.

"Ef þú veist ekkert um málin þá geturðu ekki myndað þér skoðun. Og ef þú ert með rangar upplýsingar þá geturðu heldur ekki tekið upplýsta ákvörðun. Staðreyndirnar verða að vera á hreinu," segir Siggi Stormur að lokum.
Myndin er af Sigga Storm. VB mynd BIG.

Birt:
May 18, 2008
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Efasemdaraddir hafa komið umræðunni á villigötur“, Náttúran.is: May 18, 2008 URL: http://www.nature.is/d/2008/05/18/efasemdaraddir-hafa-komio-umraeounni-villigotur/ [Skoðað:May 29, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: June 18, 2008

Messages: