Aukin vernd lífríkis sjávar með reglugerð um kjölfestuvatn
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur sett reglugerð um kjölfestuvatn. Markmið reglugerðarinnar er að takmarka losun kjölfestuvatns til að koma í veg fyrir að framandi lífverur, svo sem þörungar, krabbadýr og sýklar, berist með kjölfestuvatni til hafsvæða og stranda umhverfis Ísland.
Flutningur framandi lífvera milli hafsvæða með kjölfestuvatni er vaxandi vandamál og áhyggjuefni, meðal annars vegna aukinnar skipaumferðar og hlýnunar sjávar. Alþjóða Siglingamálastofnunin (IMO) telur að allt að 7.000 tegundir lífvera flytjist á milli staða á þennan hátt og víða hefur orðið tjón á lífríki sjávar af þeirra völdum. Framandi lífverur hafa líka valdið skemmdum á skipum, veiðarfærum, vatnsleiðslum og skeldýraeldi. Tekinn hefur verið saman listi yfir tíu óæskilegustu lífverurnar sem staðfest hefur verið að flytjist milli landa á þennan hátt. Þar á meðal eru skeldýr, krabbadýr, þari og bakteríur sem hafa valdið skaða á lífríki Vestur-Evrópu. Undanfarin ár hafa að minnsta kosti þrjár nýjar lífverur tekið sér bólfestu hér við land. Þetta eru flundra, sandrækja og grjótkrabbi og talið er líklegt að þær hafi borist hingað með kjölfestuvatni.
Hagsmunir Íslendinga af verndun lífríkis sjávar eru miklir og hafa umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun fylgst grannt með þróun mála á þessu sviði. Talin er hætta á að framandi lífverur berist til landsins og taki sér bólfestu á íslensku hafsvæði með tilheyrandi skaða fyrir lífríki og efnahag. Til að bregðast við þessari þróun og stuðla að verndun lífríkis sjávar ákvað umhverfisráðherra að setja reglugerð um kjölfestuvatn. Reglugerðin tekur gildi 1. júlí og kveður á um bann við losun ómeðhöndlaðs kjölfestuvatns innan mengunarlögsögu Íslands. Hún gildir um skip sem eiga leið um mengunarlögsögu Íslands og skip á leið til og frá höfn á Íslandi. Í reglugerðinni er meðal annars kveðið á um að skip skuli halda kjölfestudagbók þar sem á meðal annars að skrá hvar og hvenær kjölfestuvatn er tekið upp eða losað. Reglugerðin byggir á lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda og er liður í framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar um líffræðilega fjölbreytni. Reglugerðin er einnig sett með hliðsjón af samningnum um líffræðilega fjölbreytni. Í samningnum er meðal annars kveðið á um að aðildarríki samningsins skuli koma í veg fyrir að fluttar séu inn erlendar tegundir sem ógna vistkerfum, búsvæðum eða öðrum tegundum. Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað árið 2010 verndun líffræðilegrar fjölbreytni og hvatt ríki til þess að efla framkvæmd samningsins og er setning reglugerðarinnar liður í því af hálfu íslenskra stjórnvalda.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Aukin vernd lífríkis sjávar með reglugerð um kjölfestuvatn“, Náttúran.is: June 15, 2010 URL: http://www.nature.is/d/2010/06/15/aukin-vernd-lifrikis-sjavar-med-reglugerd-um-kjolf/ [Skoðað:Dec. 11, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.