Margt smátt minnkar útblástur
Orð dagsins 16. maí 2008
Í gær kynnti Umhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket) úthlutun svonefndra KLIMP-styrkja til ýmissra verkefna sem ætlað er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Að þessu sinni var úthlutað 480,6 milljónum sænskra króna, (um 5,9 milljörðum ísl. kr). KLIMP-verkefninu (Klimatinvesteringsprogrammet) var hleypt af stokkunum árið 2003. Síðan þá hefur samtals verið úthlutað styrkjum upp á 2 milljarða sænskra króna (um 24,6 milljarða ísl. kr) til tæplega 150 verkefna á vegum sænskra sveitarfélaga, héraða og fyrirtækja.
Úthlutunin í gær var sú síðasta á vegum verkefnisins. Eitt þeirra verkefna sem fengu styrk að þessu sinni, er samstarf 18 kúabúa í grennd við Mellerud og Vänersborg um söfnun og vinnslu metans. Gasi frá búunum verður safnað með neðanjarðarleiðslum á einn stað, þar sem gasið verður hreinsað og því komið á markað. Að teknu tilliti til höfðatölu jafngilda þessi framlög sænska ríkisins því ef íslensk stjórnvöld myndu styrkja loftslagsverkefni sveitarfélaga og fyrirtækja um 830 milljónir króna á 5 ára tímabili.
Lesið fréttatilkynningu Naturvårdsverket í gær
og frétt Miljörapporten í dag
Birt:
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Margt smátt minnkar útblástur“, Náttúran.is: May 16, 2008 URL: http://www.nature.is/d/2008/05/19/margt-smatt-minnkar-utblastur/ [Skoðað:Oct. 11, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: May 19, 2008