Ný reglugerð um þalöt í leikföngum
Reglugerðin tók gildi í maí og kemur í stað reglugerðar frá árinu 2000. Með reglugerðinni eru sett takmörk á innihald þalata í leikföngum og öðrum vörum sem ætluð eru til notkunar af börnum svo sem hluti ætlaða til þess að kalla fram svefn, slökun, hreinlæti eða mötun þ.m.t. naghringir, snuð, túttur, smekkir, baðáhöld og mataráhöld. Takmörkunin er tvíþætt, annars vegar eru þrjú þalöt bönnuð með öllu í leikföngum og umönnunarvörum barna. Hins vegar er takmörkun á öðrum þremur þalötum sem ekki eins augljós hætta stafar af og nær aðeins yfir leikföng og umönnunarvörur sem börn geta stungið upp í sig.
Reglugerðin tekur til fleiri hluta í umhverfi barna en áður og miðað er við hluti sem lítil börn geta stungið í munninn, sogið eða tuggið. Reglugerðin er hluti af samræmdum aðgerðum á Evrópska efnahagssvæðinu.
Þalöt eru efnasambönd sem hafa þá eiginleika að gefa plasthlutum mýkt og er algengast að þau séu notuð með PVC plasti. Þalöt hafa verið notuð í efnaiðnaði síðan snemma á 20. öld og sem mýkingarefni í plast fljótlega eftir að það fór að koma á markað upp úr 1950. Vitað er að viss þalöt geta dregið úr frjósemi manna og verið skaðleg ófæddum börnum í móðurkvið. Þessi efni eru talin sérstaklega hættuleg yngstu börnunum sem eiga eftir að taka út mikinn þroska.
Af vef Umhverfisstofnunar. Sjá nánar.
Grafík: Signý Kolbeinsdóttir
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Ný reglugerð um þalöt í leikföngum“, Náttúran.is: June 10, 2007 URL: http://www.nature.is/d/2007/06/10/n-regluger-um-alt-leikfngum/ [Skoðað:Sept. 11, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: July 9, 2007