Meira en helmingurinn af sorpinu okkar getur brotnað niður á náttúrulegan hátt. Jarðgerð felur í sér að lífrænt efni eins og jurta- og matafgangar brotna niður af örverum, fyrst og fremst bakteríum og sveppum. Næringarefnin í jarðgerðarmassanum verða aftur aðgengileg fyrir nýjar jurtir. Á meðan að niðurbrot er í gangi er jarðgerðartunnan heit. Þegar niðurbrotinu lýkur lækkar hitastigið.

Það er hægt að jarðgera alla matarafganga og breyta þeim í næringarríka moltu. Það er ekki erfitt að skapa náttúrulega hringrás í garðinum og að jarðgera er ekki erfitt ef maður lærir nokkur grundvallaratriði:

Súrefnisríkt umhverfi:

Það er nauðsynlegt að það sé súrefni í jarðgerðarmassanum til þess að allar lífverurnar og örverurnar geti unnið sitt verk. Ef súrefnið kemst ekki að verður niðurbrotið súrefnisfirrt, efnið byrjar að rotna eða gerjast og þá myndast slæm lykt. Hrærðu við og við í jarðgerðarmassanum og blandaðu saman við massann greinum, grasi og öðrum efnum sem skapa loftrými. Niðurbrotið tekst betur ef það eru ánamaðkar í jarðgerðarmassanum sem gera það að verkum að það loftar um massann.

Hæfilega mikill raki:

Vatn skiptir jafn miklu máli og loft. Jarðgerðarmassinn á að vera rakur eins og kreistur þvottasvampur. Ef hann er of þurr stöðvast jarðgerðarferlið, ef hann er of blautur kemst súrefnið ekki að og niðurbrotið verður súrefnisfirrt. Stjórnaðu vatnsinnihaldinu með notkun þurrefnis eða vatns eftir því hvort jarðgerðarmassinn er of þurr eða of blautur.

Rétt næringarhlutfall:

Örverurnar þurfa næringu í formi kolefnis og köfnunarefnis til þess að geta starfað almennilega. Ágætt jafnvægi skapast ef hlutföllin eru kolefnisríkt þurrefni 1 á móti 3 köfnunarefnisríku efni (matarúrgangar).

Hæfilega mikill varmi:

Jarðgerðarferlið skapar sinn eiginn hita. Niðurbrotið er hægt við lágt hitastig, það gengur hraðast við 35-50°C. Ef hitastigið fer niður fyrir 10°C stöðvast jarðgerðarferlið. Ef jarðgerðarmassinn frþs sofna allar örverur og vakna ekki aftur til lífsins fyrr en hitastigið hækkar aftur.

Síðari hlutar jarðgerðarferlisins:

Í flestum tilvikum þarf jarðgerðin marga mánuði áður en að eiginleg molta verður til og hægt er að setja hana í beðin. Einfaldur óeinangraður kassi er hentugur fyrir síðustu stig jarðgerðarinnar. Moltan á að líta út og lykta eins og mold.

Við jarðgerðina minnkar rúmmál úrgangsins og hann léttist þegar koltvíoxíð, vatn og hiti yfirgefa massann. Endanlega moltan á að vera um 20% af upprunalegu rúmmáli.

Maður þekkir góða jarðgerð af eftirfarandi:

 • Það stígur vatnsgufa upp af jarðgerðarmassanum og það myndast hiti
 • Það er nóg af lirfum, litlum ánamöðkum og ormum, ekki bara flugur
 • Jarðgerðamassinn lyktar ekki illa


Hvernig á að velja jarðgerðarkassa:

 • Hann verður að vera nógu stór. Þú skalt gera ráð fyrir 100 lítrum á hvern íbúa
 • Kassinn verður að vera meindýraheldur. Ekki stærri göt en 5-6mm
 • Ef jarðgera á allt árið verður kassinn að vera einangraður. Þá er hægt að jarðgera allt árið um kring
 • Kassinn á að vera vel loftræstur
 • Kassinn verður að vera þannig að hundar og kettir komist ekki í hann
 • Kassinn verður að vera þægilegur í notkun. Það er ekki verra að hægt sé að taka hann alveg í sundur
 • Jarðgerðarkassa er hægt að fá t.d. hjá Gámaþjónustunni og Íslenska gámafélaginu


Hvar er best að hafa jarðgerðarkassann?

 • Það verður að vera auðvelt að komast að kassanum einnig að vetri til
 • Ekki of nálægt nágrannanum ef lyktarvandamál skyldu koma upp
 • Best er að kassinn sé opinn að neðan þannig að ánamaðkar geti skriðið upp í hann og sigvatn komist niður í jarðveginn
 • Æskilegt er að kassinn sé í skugga og skjóli frá vindum og veðrum


Að hefja jarðgerð:

 1. Settu greinar í botn kassans til þess að lofti vel um að neðan.
 2. Settu smá mold yfir botninn til að fá jarðgerðina í gang sem fyrst
 3. Byrjaðu með því að setja í hann grænmetisúrgang. Bíddu með kjötið og fiskinn þangað til að jarðgerðarferlið er farið af stað
 4. Dreifðu matarafgöngunum um tunnuna. Þannig myndast meira yfirborð fyrir örverurnar
 5. Tæmdu matarafgangana 2-3 í viku í jarðgerðartunnuna. Því oftar því betra
 6. Eftir hverja tæmingu skaltu strá yfir jarðgerðartunnuna með þurrefni. Þurrefnið getur verið sag, spæni, garðaúrgangur, hálmur, börkur, þurr lauf, eldhúsrúllur, sundurrifnir eggjabakkar, dagblaðapappír í ræmum. Mundu hlutfallið 1/3 á milli kolefnis og köfnunarefnis
 7. Hrærðu í jarðgerðarmassanum og loftaðu hann í hvert skipti sem þú bætir í. Hrærðu í öllum massanum

Eftirfarandi má jarðgera:

 • Matarafganga, kjöt , fisk, grænmeti og ávexti
 • Brauð, kex og kökur
 • Kaffikorg og telauf, ekki tepoka
 • Fisk, kjúkling og kjöt (ekki stór bein)
 • Eggjaskurn, mulda
 • Garðaúrgang
 • Illgresi
 • Hey
 • Jurtir og blóm
 • Eldhúsrúllur og servíettur
 • Dagblaðapappír í ræmum
 • Tréflísar og sag í litlum mæli

Eftirfarandi má ekki jarðgera:

 • Plast, gler, málm, gúmmí, vefnaðarvöru, bómul
 • Rafhlöður, lyf, spilliefni og annann hættulegan úrgang
 • Vaxhúðaðan eða plasthúðaðan pappír
 • Pappír í miklu magni
 • Sígarettustubba eða sígarettuösku
 • Viðarösku eða kalk
 • Ryk úr ryksugunni
 • Bleiur og dömubindi
 • Stór bein
 • Leirborinn kattasand
Birt:
April 21, 2008
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Leiðbeiningar um jarðgerð“, Náttúran.is: April 21, 2008 URL: http://www.nature.is/d/2007/04/10/jarger/ [Skoðað:April 19, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: April 10, 2007
breytt: Nov. 16, 2010

Messages: