Sundlaugar í Reykjavík eru bæði heilnæmar og öruggar. Þetta kemur fram í niðurstöðum reglubundins eftirlits Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur með sundlaugum árið 2008, sem nýlega voru kynntar á fundi Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur.

19 stundstaðir eru í Reykjavík, 7 sem reknir eru á vegum ÍTR, 6 skólasundlaugar og 6 aðrar. Á hverjum stað er ein til tvær sundlaugar og oft margar setlaugar. Árið 2008 var auk reglubundins eftirlits, gerð könnun á heilnæmi vatns og öryggismálum í samstarfi við Umhverfisstofnun og önnur heilbrigðiseftirlitssvæði. Þar var leitað svara við ýmsum spurningum um heilnæmi vatnsins, innra eftirlit, þjálfun starfsfólks og skyndihjálparbúnað á staðnum. Þá voru tekin sýni úr öllum laugum. Sýrustig vatns, klórstyrkur og bundinn klór var mældur á staðnum og tekið var vatnssýni fyrir heildargerlafjölda úr öllum laugum. Einnig var leitað í nokkrum lauganna að bakteríunni Pseudomonas Aeurginosa sem getur valdið sýkingum í húð.

Niðurstaðan er að heilnæmi sundlaugavatns í Reykjavík var í ágætu lagi. Öll mæld klórgildi voru innan marka. Hvergi mældist bundinn klór nálægt 0,5 mg/l. Heildargerlafjöldi var innan marka baðvatnsreglugerðar í 95% vatnssýna og pseudomonas bakterían fannst ekki í neinni laug í Reykjavík í þessari könnun. Þá virðast öryggismál vera í góðu lagi og helstu björgunartæki eru alls staðar fyrir hendi.

„Við erum mjög ánægð með niðurstöðuna,“ segir Ingibjörg H. Elíasdóttir heilbrigðisfulltrúi í Reykjavík. „Það sem helst má bæta eru varnaðarmerkingar um hættu sem stafað geta af dýfingum,“ segir hún. Laugarverðir eiga að endurnýja hæfnispróf sitt árlega og aðrir starfsmenn sundlauga sem þjóna gestum fara á skyndihjálparnámskeið annað hvert ár. Á einum sundstað átti laugarvörður eftir að endurnýja árlegt hæfnispróf sitt.

Umhverfisstofnun birtir á næstunni skýrslu með niðurstöðum könnunarinnar á landsvísu um gæði laugarvatns og öryggi á stundstöðum.
Birt:
May 12, 2009
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Sundlaugar Reykjavíkur heilnæmar og öruggar“, Náttúran.is: May 12, 2009 URL: http://www.nature.is/d/2009/05/12/sundlaugar-reykjavikur-heilnaemar-og-oruggar/ [Skoðað:Dec. 7, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: July 26, 2010

Messages: