Á þriðjudaginn 13. maí rennur út frestur til að gera athugasemdir við breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins Ölfuss 2002-2014 sem varða atriði nr. 1 í auglýsingunni, Bitruvirkjun; bygging allt að 135 MW jarðvarmavirkjunar.

Gert er ráð fyrir að senda þurfi útprentað bréf með undirskrift sem auk þess gæti verið ítrekað með netpósti á Sveitarfélagið Ölfuss en það nægir víst ekki að senda netpóst þó að það nægi að senda athugsemdir til Skipulagsstofnunar í netpósti þegar svo ber undir. Lára Hanna hefur m.a. gert athugasemdir við þetta fyrirkomulag eins og fram kemur í greininni hér að neðan.

Hengilssvæðið og dalirnir austan, vestan og sunnan þess hafa lengi verið ein helsta útivistarparadís íbúa höfuðborgarsvæðisins og er skilgreint sem útivistarsvæði, staðfest af umhverfisráðherra í janúar 2005. Nú, þegar verið er að þétta byggð á höfuðborgarsvæðinu svo gríðarlega sem raun ber vitni, byggja á öllum auðum blettum og fækka útivistarsvæðum í þéttbýli, er brýnna en nokkru sinni að íbúar höfuðborgarsvæðisins eigi kost á að njóta óspilltrar náttúru í hæfilegri dagsferðarfjarlægð frá heimilum sínum. Þetta svæði er eitt örfárra í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem hægt er að ganga um í friði og ró, njóta ótrúlega fjölbreyttrar náttúrufegurðar fjarri amstri dagsins og síaukinni bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu. Svæðið er aðgengilegt fyrir alla hvort sem börn eða fólk með skerta gönguhæfni er á ferðinni.

  • Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein á Íslandi sem er í hvað örustum vexti. Samkvæmt spá ferðamálaáætlunar 2006-2015 mun sá vöxtur halda áfram. Rannsóknir hafa sýnt að erlendir ferðamenn koma fyrst og fremst til Íslands til að njóta þeirrar náttúrufegurðar sem landið hefur upp á að bjóða. Við auglþsum landið sem óspillta náttúruperlu og á þeim svæðum sem það loforð stenst standa ferðamenn á öndinni yfir þeirri fegurð sem við þeim blasir. Hengilssvæðið er einn þessara staða og vinsælt að fara þangað í dagsferðir með erlenda ferðamenn. Margir ferðamenn gera stuttan stans á landinu og þá er nauðsynlegt að geta sýnt þeim óspillta og sér íslenska náttúru sem næst höfuðborgarsvæðinu.
  • Ég tel það vera okkar ábyrgð að varðveita slíkar náttúrperlur fyrir komandi kynslóðir og legg til að í staðinn fyrir að breyta þessu frábæra útivistarsvæði í iðnaðarsvæði þá verði breytingin fólgin í því að friðlýsa svæðið.
  • Þrátt fyrir áætlanir um að fyrirhuguð virkjunarmannvirki eigi að falla vel inn í landslagið tel ég engan virkjunarkost á umræddu svæði ásættanlegan þar sem mannvirkjagerð á svæðinu myndi óhjákvæmilega gjörspilla þeirri náttúruperlu sem hér er um að ræða.
Sjá nánar á hengill.nu. Mynd af hengill.nu.
Birt:
May 11, 2008
Uppruni:
Hengill.nu
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Frestur til að senda inn athugasemdir v. breytingar á aðalskipulagi“, Náttúran.is: May 11, 2008 URL: http://www.nature.is/d/2008/05/11/frestu-til-ao-senda-inn-athugasemdir-v-bitruvirkju/ [Skoðað:April 18, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: May 12, 2008

Messages: