Losunarkvóti flugfélaga gæti raskað samkeppnisstöðu Íslands
Stefna Evrópusambandsins um losunarheimildir á koltvísýringi í flugi gæti raskað samkeppnisstöðu Íslands og þrengt rekstrarsvigrúm íslenskra flugrekenda samanborið við aðra í Evrópu.
Þetta er ein niðurstaðan í lokaskýrslu stýrihóps um losunarheimildir í flugi sem samgönguráðuneytið skipaði. Markmiðið með setningu kvóta á losun koltvísýrings í flugi er einkum að draga úr losun hans en einnig að færa flugumferð á eins til tveggja klukkustunda flugleiðum yfir á aðrar umhverfisvænni samgöngugreinar svo sem lestir og áætlunarbíla.
„Sérstaða Íslands hvað þetta varðar er augljós,“ segir í skýrslunni.
Með fullri þátttöku sé líklegt að framlag Íslands til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda verði hlutfallslega meira en annarra ríkja.
Ástæðan sé fyrst og fremst sérstaða Íslands vegna legu landsins og vegna mikillar hlutdeildar flugstarfseminnar í þjóðarframleiðslu landsmanna.
„Eðlilegt er að reynt verði að ná fram niðurstöðu sem taki mið af því að framlag Íslands verði sanngjarnt á við aðrar þjóðir Evrópu og sé í samræmi við sérstakar aðstæður í flugstarfsemi á Íslandi,“ segir enn fremur í skýrslunni.
Formaður stýrihópsins er Gunnlaugur Stefánsson.
Birt:
Tilvitnun:
Viðskiptablaðið „Losunarkvóti flugfélaga gæti raskað samkeppnisstöðu Íslands “, Náttúran.is: Sept. 4, 2008 URL: http://www.nature.is/d/2008/09/04/losunarkvoti-flugfelaga-gaeti-raskao-samkeppnissto/ [Skoðað:Oct. 4, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.