Ný þingsályktunartillaga um bann við útiræktun erfðabreyttra lífvera (EBL) var lögð fram á Alþingi fyrir rúmum mánuði síðan (667. mál, þingsályktunartillaga á 140. löggjafarþingi, þingskjal 1073, http://www.althingi.is/altext/140/s/1073.html). Þetta er önnur tillagan um þetta mál, sem lögð hefur verið fram á einu og hálfu ári, en sú fyrri (450. mál, þingsályktunartillöga á 139. löggjafarþingi, þingskjal 737, http://www.althingi.is/altext/139/s/0737.html) hefur enn ekki verið tekin til umræðu á Alþingi. Núverandi þingsályktunartillaga, sem styðst við samþykktir Evrópusambandsins um þessi mál, m.a. ályktun þings Evrópuráðsins um notkun erfðabreyttra lífvera í landbúnaði (11. mars 2011), var lögð fram af átta þingmönnum allra þingflokka nema Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks.

Það er kannski ekki skrýtið, að síðstnefndi flokkurinn sé ekki með í þessari tillögu, þar sem sterk gróða- og nýsköpunaröfl standa að baki þeim fyrirtækjum, sem stunda útiræktun EBL. Hafa ber í huga, að erlend stórfyrirtæki eiga einnig hagsmuna að gæta hér á landi, s.s. Monsanto, sem framleiðir hið illræmda plöntueitur, Roundup, og er auk þess stærsti og argvítugasti seljandi EBL í heiminum. Í þessu sambandi má minna á, að byggtegundin, sem nú orðið er mest ræktuð hér á landi, var upphaflega sköpuð fyrir hálfri öld síðan með geislun, sem breytti erfðamenginu og er því að öllum líkindum undir einkaleyfi erlends fyrirtækis, eins og aðrar EBL. Enn hafa engar rannsóknir verið gerðar á afleiðingunum á neyslu þessa yrkis, en kannanir erlendis hafa m.a. leitt í ljós sterk ofnæmisviðbrögð hjá bæði börnum og fullorðnum við neyslu erfðabreytts maís.

Fjærvera þingmanna Framsóknarflokksins frá hópi stuðningsmanna tillögunnar veldur hinsvegar heilabrotum, þar sem grunnur þess flokks var frá upphafi meðal bænda, sjómanna og búaliðs, og hafa forystumenn flokksins ítrekað lýst sig verndara þessara atvinnugreina og blómlegs atvinnulífs á landsbyggðinni. Það eru einmitt þessar atvinnugreinar, sem eiga hvað mest á hættu, ef íslenskt lífríki spillist af erfðamengun. En yfirvöld þegja þunnu hljóði um þessi mál, enda töluverðir einkahagsmunir í veði.

Þann 24. apríl s.l. sendi hinsvegar níu manna hópur, þar af átta akademískir starfsmenn, frá sér mótmæli til Alþingis gegn þingsályktunartillögunni (http://www.althingi.is/dba-bin/erindi.pl?ltg=140&mnr=667). Titill mótmælabréfsins er „Enn skal banna útiræktun erfðabreyttra lífvera - Hefur eitthvað breyst?“, og er þar vitnað í þingsályktunartillögu frá fyrra ári um takmörkun útiræktunar EBL (sjá ofan).

Titill bréfsins er einkar merkilegur með tilliti til þess, að útiræktun EBL hefur enn ekki verið bönnuð, ekki einu sinni takmörkuð svo nokkru nemi, og auk þess hefur hvorug þingsályktunartillagan nokkru sinni verið rædd á Alþingi, frá því hún var lögð fram! Spurning mótmælendanna bendir okkur einnig á það, að þögnin er ærandi, að ekkert hefur breyst! Hún undirstrikar deyfð þjóðkjörinna fulltrúa, sem virðast láta undan undir frekju einkahagsmunaafla og sinna ekki málum, er varða framtíð lífs og umhverfis þjóðarinnar, sem þeir eiga að sjá um að þjóna og vernda.

Mótmælendur tillögunnar segjast ekki vita um nein „fræðileg rök um hættuna sem erfðabreyttrar plöntur geti haft“, en nefna engar vísindalegar niðurstöður máli sínu til stuðnings. Þeir virðast ekki hafa lagt sig mikið fram við að kynna sér málin, eins og eðlilegt væri bæði með tilliti til þess, að gagnrýni þeirra er opinber og eindregin, og að þeir eru yfirlýstir sérfræðingar í erfðafræði og skyldum greinum og sitja í háum akademískum stöðum. Almennt hefur vissulega birst ótrúlega lítið af áreiðanlegum, fræðilegum rannsóknum á afleiðingum EBL á náttúruna. Meðmælendur gætni og fyrirsjár í umgengi manna við umhverfi sitt hafa á orði, að engar rannsóknir séu gerðar af einkahagsmunaaðilum, sem græða á sölu og ræktun EBL, vegna þess að þeir vilja ekki sjá neinar slíkar rannsóknir: Niðurstöður þeim í hag breyta ekki neinu um viðskipti þeirra, en neikvæðum niðurstöðum er stungið undir stól.

Spurningin er þá, hvers vegna akademískir sérfræðingar gera svo sjaldan rannsóknir á umhverfisafleiðingum EBL, en því svara umhverfissinnar með því, að núorðið séu akademískar stofnanir svo háðar rekstrar- og rannsóknarfé frá einkaaðilum, að slíkar rannsóknir séu litnar óblíðum augum af stjórnsýslu stofnananna, af sömu ástæðum og áður voru nefndar. Ef við lítum sérstaklega á íslensk lög um opinbera háskóla, stendur ekkert í þeim um miðlun eða dreifingu traustra upplýsinga, gagna eða rannsóknarniðurstaða, eða um sannleika og áreiðanleika (sbr. lög 2006 nr. 63 13. júní og 2008 nr. 85 12. júní). Það hvílir sem sagt engin lagaleg skylda á akademískum starfsmönnum að vera nákvæmir eða heiðarlegir í vísindum sínum, eins og sjá má merki um í nokkrum tilfellum, sem náð hafa augum almennings á síðustu árum.

Það er engin ástæða til að ætla, að nokkur þeirra, sem nú sendu bréf til flutningsmanna þingsályktunartillögunnar, sé að neinu leyti þessu marki brenndur. Einn þeirra akademísku starfsmanna, sem skrifuðu undir mótmæli við fyrri þingsályktunartillöguna um bann við útiræktun EBL, hefur auk þess stundað rannsóknir á byggrækt á Íslandi, þ.á.m. dreyfingu erfðaefnis, og eru þær niðurstöður mjög áhugaverðar í þessu sambandi (sbr. hér að neðan).

Í skýrslum Evrópusambandsins er því lýst yfir, að við eigum að fara okkur hægt, og afla meiri upplýsinga áður en við leggjum út í ræktun EBL. En á meðan fara nýskaparar offörum. Erlendis hefur komið í ljós rótgróin spilling kringum þessa arðbæru tækni, en almenningur er kerfisbundið leyndur upplýsingum um hana (http://crisisboom.com/2011/02/26/wikileaks-gmo-conspiracy/). Nýjar fréttir gefa til kynna stöðugt versnandi ástand, einkum í þróunarlöndum, vegna yfirgangssamrar EBL ræktunar. Á Indlandi og í Afríku hefur lífríki og umhverfi skaðast illa af þessum sökum, sjúkdómar og sjálfsmorð aukast, fjölskyldur og samfélög sundrast, en á meðan moka alþjóðafyrirtækin inn gróðanum (http://www.guardian.co.uk/environment/2011/oct/19/gm-crops-insecurity-superweeds-pesticides?intcmp=239).

Helstu fræðilegu rök mótmælenda tillögunnar fyrir því, að engin hætta sé á dreifingu EBL, hafa áður komið úr skýrslu um tilraunir í Gunnarsholti í september 2004. Það má þó lesa annað og meir í skýrslunni, en það sem vitnað var í áður. Samkvæmt niðurstöðunum "tapaði … Golden Promise um 25% af korni sínu" á einni nóttu þegar vindhraði var að meðaltali 30 m/sek. Kornadreifingin var hinsvegar einungis tilkynnt fyrir annað yrki, Ven, en flest kornin, sem fokið höfðu af þeim plöntum, fundust á jörðu innan 5 m radíusar, en nokkuð magn allt upp í 20 m frá plöntunum. Mestallt kornið, sem fellur undir þessum kringumstæðum, liggur eftir á jörðinni og getur hæglega dreifst með dýrum, vatni og vindi. Einnig má lesa, að „Samkvæmt könnun [á ótilgreindu yrki], sem gerð var í Borgarfirði haustið 1997, töpuðust að jafnaði 510 kg af korni á hektara í meðförum við skurð“ (Jónatan Hermannsson o.fl., 2005, Rit LBHÍ nr. 1, bls. 6-8).

Allt þetta bendir eindregið til, að útiræktað EBL bygg dreifist óhjákvæmilega á nærliggjandi akra. Erlendis hefur svona dreifing EBL maís valdið miklum vandamálum meðal bænda, t.d. í Kanada og Mexíkó. Þetta þýðir einnig, að óbreytt bygg, mun að öðru jöfnu krossfrjógast við erfðabreytt bygg af nálægum ökrum. Í annarri skýrslu stendur (Jónatan Hermannsson o.fl., 2010, ICEL. AGRIC. SCI. 23, bls. 53) „there is always the possibility of cross-pollination between plants in adjacent barley fields and the results from other countries suggest that pollen dispersal and cross-fertilization between barley plants is possible over a distance up to 50 m.“ Erlendar rannsóknir hafa sýnt, að EBL maís berst oft meir en hálfan km á milli akra í áveituskurðum og lækjum (http://sverigesradio.se/sida/artikel.aspx?programid=406&artikel=4058872). Hér á Íslandi höfum við orðið vitni að því, að EBL, ræktað í gróðurhúsi, fýkur töluverðar vegalengdir, ef gróðurhúsið splundrast í roki, en slíkt hefur gerst oftar en einu sinni. Staðhæfing líftæknimanna, að engin hætta sé á dreifingu EBL í íslenskri náttúru, stenst því enganveginn. Eigum við þá, almenningur og löggjafar á Alþingi, að kyngja því umbreytta efni, sem borið er á borð fyrir okkur af þessum líftæknimönnum? Er ekki öllu nær, að þingmenn axli ábyrgð sína gagnvart okkur hinum, og ræði a.m.k. þingsályktunartillöguna, sem átta úr þessum þjóðkjörna hópi hafa lagt fram? Eða hvar er hún annars, þessi ábyrgð, sem við höfum falið hinum fáu útvöldu? Hefur hún dottið niður milli þingpalla og næst ekki upp aftur? Eða er ákvörðunin þegar tekin, en ekki má tilkynna hana? Megum við allra auðmjúklegast biðja um svar, takk?!

Höfundurinn Valdimar Briem, er dr. phil., fræðilegur ráðgjafi.

Ljósmynd: Lífrænt, óerfðabreytt bygg í Alviðru, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
May 3, 2012
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Valdimar Briem, dr. phil. „Ekkert má og allt er bannað“, Náttúran.is: May 3, 2012 URL: http://www.nature.is/d/2012/05/03/ekkert-ma-og-allt-er-bannad/ [Skoðað:April 18, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: May 16, 2012

Messages: