Síðustu dagana hafa GPS-landmælingatæki á Heklusvæðinu sýnt óvanalegar jarðskorpuhreyfingar sem túlka má sem afleiðingu af kvikuhreyfingum djúpt í rótum fjallsins.  Engir jarðskjálftar hafa fylgt þessum færslum og jarðskorpuhreyfingarnar hafa að nokkru gengið til baka.  Engin merki sjást um yfirvofandi eldgos.  Þrýstingur í kviku undir Heklu hefur vaxið síðan í síðasta gosi og nú síðustu ár hefur hann verið svipaður eða hærri en á undan síðustu gosum.  Því verður að telja að eldstöðin sé tilbúin í gos.

Í síðustu eldgosum hafa jarðskjálftar mælst um eina klukkustund á undan þeim og þegar síðast gaus í Heklu gátu vísindamenn spáð fyrir um gosið með um einnar klukkustundar fyrirvara.  Vegna þessara skömmu fyrirvara er full ástæða fyrir fólk að hafa allan vara á í nágrenni Heklu, nú sem endranær.

Hekla og nágrenni hennar eru mjög vinsæl til útivistar en frá fjallinu er mjög gott útsýni í góðu skyggni.  Það er ágæt regla fyrir þá sem ætla á fjallið að fá ættingja eða vini til þess að fylgjast með fjölmiðlum á meðan á göngunni stendur.  Ef vísbendingar koma um að gos sé að hefjast í Heklu er þeim upplýsingum komið til fjölmiðla eins fljótt og hægt er og geta þá ættingja og vinir hringt í göngumenn og komið boðum til þeirra.

Það er rétt að ítreka að þó svo að fjallið sé komið á tíma sjá vísindamenn ekki neinar sérstakar vísbendingar sem benda til þess að gos sé yfirvofandi.

Ljósmynd: Hekla, snemma moguns þ. 11. júní 2011, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
July 6, 2011
Tilvitnun:
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra „Jarðskorpuhreyfingar við Heklu“, Náttúran.is: July 6, 2011 URL: http://www.nature.is/d/2011/07/06/jardskorpuhreyfingar-vid-heklu/ [Skoðað:June 24, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: