Bláber soðinÞegar ekki er hægt að torga meiru af ferskum berjum er gott að búa til heita ávaxtasósu. Hún er áreiðanlega frönsk en uppskriftin er svo sem engin. Ég tek til þá ávexti eða ber sem ég á, en vil gjarnan hafa minnst þrjár tegundir og þær þurfa að vera af þeirri gerð sem þýðir að sjóða. Vatnsmelóna passar ekki hér og varla banani en þurrkaða ávexti má nota, útvatnaða eða smátt brytjaða. Ég set örlítið af vatni, saft eða eplasafa í pott og brytja fyrst þann ávöxtinn sem þarf lengsta suðu, eins og epli, út í pottinn og læt sjóða smástund.

Síðan byrjar niðurtalning, næst fer það sem þarf aðeins styttri suðu og svo koll af kolli og síðast það sem ekki þarf nema rétt að sjóða upp á, eins og bláber eða rifsber. Þetta má þykkja með sultu eða matskeið af maisenamjöli, sem er hrært út í sama vökva og byrjað var með. Þessi uppskrift getur ekki mistekist, ef sósan er of þykk, þynna bara, ef hún er of þunn má þykkja aftur, of súr þá meiri sykur, of sæt nota sítrónu. Það eina sem getur komið fyrir er að hún brenni við en þá er bara að reyna að hreinsa pottinn og gleyma því. Allt er leyfilegt, eins og að setja í ögn af líkjör eða negulnagla. Má bera fram með búðingi, ís, kökubotni eða pönnukökum.

Úr bókinni Ætigarðurinn - handbók grasnytjungsins eftir Hildi Hákonardóttur. 

Ljósmynd: Bláber soðin, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Sept. 2, 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Heit berja og ávaxtasósa“, Náttúran.is: Sept. 2, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2007/08/16/heit-berja-og-vaxtassa/ [Skoðað:Sept. 16, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Aug. 16, 2007
breytt: Sept. 2, 2014

Messages: