Hér á landi hefur heimaræktun gjörbreyst með tilkomu plasts og akrýldúka og lítil, færanleg gróðurhús eru afar hentug. Þá er smíðaður léttur trérammi, svona 110–120 cm eða í beðbreidd og allt að helmingi lengri. Beðbreidd miðast við að þægilegt sé að teygja sig inn í beðið til að planta, þrífa og taka upp grænmetið. Síðan eru keypt nokkur rafmagnsrör úr plasti, sem eru framleidd í 4 m lengdum. Þau eru bútuð í tvennt. Borað er fyrir rörunum ofan í rammann, þó ekki alla leiðina í gegn, með 50–60 cm millibili og röraendunum stungið í holurnar. Hafa má tvö rör hlið við hlið fremst og aftast til styrktar.

Síðan er keypt plast, lagt yfir bogana og fest með heftibyssu niður á rammann. Það er hægt að brjóta upp mjóan fald á yfirbreiðsluna og hefta í gegn, þar sem hún er tvöföld. Plastið er látið standa um það bil einn metra fram- og afturaf til að hægt sé að fergja endana með steinum og það heldur jafnframt húsinu niðri. Það má líka hafa akrýldúk yfir bogunum eða skipta út plastinu fyrir akrýl, þegar fer að hitna í veðri. Í svona hús má sá harðgerðum plöntum strax og frost er farið úr jörðu og moldin aðeins farin að hlýna. Auðvelt er að lyfta húsinu frá annarri hliðinni og stinga spýtu undir meðan vökvað er, sé plast notað. Tvo þarf hins vegar til að færa húsið þó það sé lauflétt, því minnsta gola vill feykja því burt eins og risastórri regnhlíf, sé því lyft upp af jörðinni.

Þegar húsið hefur lokið hlutverki sínu er yfirbreiðslan pilluð af. Sama plastið er hægt að nota nokkrum sinnum, þó það sé rifið af heftunum. Plastinu er pakkað saman og það merkt og síðan gjarnan bundið við rammann, svo allt sé tilbúið fyrir næsta vor. Ef svona plasthús er í skjóli fyrir köldum vindum má með lagni rækta í því, þótt nokkrar frostnætur komi í apríl og byrjun maí. En þá þarf gjarnan að hlífa húsinu með nokkrum lögum af akrýldúk eða jafnvel teppum til að halda frostinu frá á næturnar. Auðvitað er það áhætta og spurning um vinnuþrek, hversu snemma er byrjað og svolítið ergilegt þegar plöntur, sem sáð var í byrjun apríl, verða að endingu á eftir þeim sem sáð var til hálfum mánuði seinna þrátt fyrir mikla fyrirhöfn. Eldri aðferð var að gera sólreiti eða vermireiti, með tréumgerð og opnanlegu glerloki. Sjálfsagt hlífa þeir betur smáum plöntum en plasthús í vorkuldum. En vaxtarhæð er minni og færanlegu plasthúsin hafa vissan kost á stöðum þar sem búast má við miklum snjóþyngslum á veturna, því þau eru lögð saman og fjarlægð úr görðunum. Einnig má stinga plaströrunum beint ofan í moldina þar sem það hentar best. Göturnar í garðinum eru oft mikið vandamál, því þær þarf að hreinsa. Sé hægt að helluleggja göturnar sparast sú vinna. Þá má sleppa öllum römmum og skorða rafmagnsrörabogana milli hellnanna, breiða plast eða akrþl yfir og tylla niður með steinum.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum. Grafík: Hildur Hákonardóttir.

Birt:
May 1, 2014
Uppruni:

Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Hvernig byggja má lítil, færanleg gróðurhús“, Náttúran.is: May 1, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/07/hvernig-byggja-m-ltil-franleg-grurhs/ [Skoðað:Sept. 16, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 7, 2007
breytt: May 1, 2014

Messages: