Haustið, tíminn til að skipuleggja
Samfara því að taka upp úr beðunum er gott að tína gömul, fölnuð blöð og láta sniglana ekki verpa undir þeim. Eins þarf að hreinsa burt illgresi en það er yfirleitt létt verk á haustin. Um haugarfann segir í Matjurtabók Garðyrkjufélagsins að hann sé algengastur og frægastur að endemum, svo almenningur nefni jafnvel allar aðrar illgresistegundir eftir honum. Viðkoman sé óskapleg og lygileg. Vitað sé að íslensk haugarfaplanta hafi borið 110 þúsund frækorn. Og að baldursbrá – eitt hið fegursta blóm hins íslenska jurtaríkis – hafi borið 310 þúsund fræ í athugunarstöð erlendis. Af þessum tölum megi hver garðeigandi sjá, að betra sé að láta ekki mikla viðkomu þessara plantna eiga sér stað í garði sínum.
Þegar gengið er frá beðunum er rétti tíminn til að íhuga og skipuleggja fyrir næsta ár. Skrá niður og ákveða sáðskiptin. Undirbúa ný beð, athuga möguleika á að stækka eða auka við sig eða minnka og hvíla beð. Gott er að hafa öll beðin saman til að verjast betur illgresi í jöðrunum, ef það er vandamál. Matjurtagarður þarf skjól. Núna er tilvalið að undirbúa eða planta skjólvegg en líka má gera vegg úr plastrenningi eða timbri. Beðið þarfnast sólar, best er að hafa það þar sem sólargangurinn er lengstur og það má gjarnan vera nálægt eldhúsinu til að maður kveinki sér ekki við að skjótast út eftir kryddi, jafnvel í mikilli rigningu. „Eldhúsgarðurinn“ er hann kallaður á öllum nágrannatungumálunum. Það þarf að hafa gott afrennsli og sæmilega auðveldan aðgang að vatni, svo hægt sé að vökva. Það þarf verkfæraskúr eða geymslu. Þar sem heimilisgróðurhús finnast eru þau oft full af kössum, pottum, garðstólum og hjólum fjölskyldunnar. Ástæðan er augljós. Það vantar verkfæraskúr og hann þarf yfirleitt að vera jafn stór og gróðurhúsið, til að geyma í áhöld og ílát.
Hvað ætlum við að rækta?
Þó við eigum ekki geymslu fyrir kartöflur er hægt að rækta nóg til að eiga nýjar kartöflur 3–4 mánuði á haustin, jafnvel hálft árið. Það má hugsa sem svo að hvert kartöflugras dugi í eina máltíð fyrir fjóra. Þá þyrfti fjögurra manna fjölskylda 90 útsæðiskartöflur fyrir þrjá mánuði. Hvað þurfum við margar rófur? Fyrir litla fjölskyldu er ein stór rófa nóg á viku, jafnvel aðra hverja viku. Hvað keyptum við margar rófur á síðasta ári? Það kemur í ljós að 10–20 rófur gera heilmikið. Sama með hvítkálshausa – hvað haldið þið að keyptir séu margir á ári? Tveir til fjórir skapa mikla tilbreytingu. Spurning hvort við getum aukið við okkur salati eða kryddbeðum? Var nóg af steinselju í fyrra til að frysta? Viljum við reyna eitthvað nýtt á næsta ári?
Hvaða plöntur þola frost?
Haustið er góður tími til að veita plöntunum eftirtekt og athuga hverjar þola svolítið næturfrost. Kartöflugrösin eru viðkvæmust fyrir frosti en kartöflurnar sjálfar geta vaxið í tvær vikur eftir að grösin falla. Salat er næstum eins viðkvæmt fyrir frosti, því blöðin eru svo fínleg. Einstaka plöntur batna við fyrsta frost eins og rósakál. Grænkál, spergilkál, blaðbeðja, steinselja og rifsber kippa sér ekki upp við eina frostnótt. Það er hægt að verja hrokknu steinseljuna með akrýli lengi frameftir, því hún vex á takmörkuðu svæði og er ekki hávaxin. Rófur og gulrætur verða að þiðna í moldinni af sjálfu sér áður en þær eru teknar upp. Fæstar plöntur þola þó margendurtekið frost. En með útsjónarsemi er hægt að teygja ræktunina töluvert fram á haustið, þegar veðurfarið er sæmilegt. Það gerist líka frá náttúrunnar hendi, ef sumarið hefur verið sólarlítið og plönturnar þroskast hægt.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur.
Grafík: Skipulag fyrir eigin eldhúsgarð 2013, Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Haustið, tíminn til að skipuleggja “, Náttúran.is: Sept. 23, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/12/hausti-tminn-til-skipuleggja/ [Skoðað:Sept. 16, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 12, 2007
breytt: Sept. 23, 2014