Dill og kartöflugrasDásamlegt krydd, en hefur eins og margt annað tilhneigingu til að spretta snemma úr sér. Því er gott ef hægt er að sá því tvisvar, fyrst snemma á vorin og svo aftur í júní. Dill er svo fínlegt að það er mjög auðvelt að þurrka það til vetrarins. Það er ekki bragðsterkt þurrkað, en rækti maður það sjálfur er sjálfsagt að taka hluta af því inn og þurrka strax og það sýnir merki um að verða gróft og ætlar að fara að mynda fræ. Ef fiskveiðimaður leynist í fjölskyldunni er allt að því nauðsynlegt að eiga dill um þær mundir sem von er á afla til að hafa út í sósu eða ef grafa á lax. Fái það tækifæri, sáir það sér sjálft og kemur upp snemma á vorin í gróðurhúsi og fyrir kemur að fræin lifa úti í moldinni og spíra ef þau hafa náð að þroskast árið áður.

Grafinn lax
Þetta er gömul sænsk aðferð og gott að kunna, ef mikið veiðist. Laxinn er flakaður og beinhreinsaður af natni, en ekki roðflettur. Það má strjúka gaffli eftir flakinu til að leita að beinum, sem leyna á sér. Fyrir hvert kíló af fiski þarf 3 msk af salti og aðrar 3 msk af sykri, 2 tsk gróft möluð eða steytt hvít piparkorn og vænt búnt af fersku dilli. Blandið saman salti, sykri og pipar og nuddið fjórðungi blöndunnar inn í hvort flak. Þau eru lögð í samloku þannig að roðið sný r út og sporðendi annars nemur við þunnildi hins. Á milli skal strá afganginum af kryddblöndunni og gróft söxuðu dillinu. Nú eru flökin lögð varlega inn í plastpoka eða pakkað í álpappír og vel lokað fyrir til að enginn vökvi renni út. Sett á stórt fat í kulda upp undir tvo sólarhringa og snúið einu sinni eða tvisvar á sólarhring. Sumir hafa létt farg á fiskinum. Fiskurinn geymist síðan vel í ísskáp um vikutíma. Ýmis tilbrigði eru við þessa aðferð. Sumir telja að ekki þurfi að snúa fiskinum eða nota ekki farg. Aðrir hafa bara eitt lag af flökum, strá fyrst salti á fiskinn, svo sykri og síðast kryddi. Sumir saxa ekki dillið en merja stilkana, telja dillið ekkert heilagt og nota megi kerfil í staðinn og jafnvel hvönn. Þurfi fiskurinn að vera tilbúinn innan sólarhrings er hann hafður við stofuhita, annars í ísskáp

Graflaxsósa
Í hefðbundna graflaxsósu fer gott franskt sinnep, sem er aukið og bragðbætt með sykri, salti, örlitlu af ediki, ólífuolíu, hvítum pipar og fersku dilli.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.

Mynd: Dill í garði Hildar Hákonardóttir í lok ágúst 2009,  Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
July 7, 2013
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Dill“, Náttúran.is: July 7, 2013 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/07/dill/ [Skoðað:June 24, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 7, 2007
breytt: Jan. 1, 2013

Messages: