Þegar kúmenið er þroskað síðsumars hefur mér verið kennt að bíða þangað til fræið er rétt að byrja að falla úr fræhúsunum. Taka þá einn og einn knúpp eða blómkörfu, klemma hana saman með fingrunum og strjúka fræin úr fræhulstrunum niður í skál. Kúmen er notað í brauð. Amma mín hitaði kúmen í mjólkinni, sem átti að fara í laufabrauðið, en síaði svo kúmenið frá áður en deigið var hnoðað því fræið er hart og getur eyðilagt skurðinn. Sumir nota kúmen í staðinn fyrir kóríander. Kúmen þykir gott með rauðrófum og hvítkáli. Hjá aldraðri konu í Strandasýslu var viðkvæði þegar góðar fréttir bárust: – Ég held ég hiti nú bara kúmenkaffi. Kúmen má líka hafa í teblöndur.

Oft er minnst á kúmen í lækningabókum. Blóðhreinsandi, vindeyðandi, styrkir maga og læknar gulusótt, segir Erlingur Filippusson. Það er haft eftir Sören Sörensyni, sem lærði lækningar í Bandaríkjunum, að ef maður tyggur kúmen vel og lengi batni verkir í hálsi, baki og herðum. Þá þarf að tyggja kúmenfræin í 3–10 daga samfleytt og hvíla svo. Kúmen er með smæstu og hörðustu fræjum en þetta ráð að tyggja lengi, jafnvel allan daginn, á við um fleiri jurtir eins og hvannarót. Hvað kúmen varðar, virðist tuggan leysa úr læðingi ákveðin efni sem eru bólgueyðandi að mati lyfjafræðings þó þessa sé ekki getið í innlendum jurtakverum. Í einstaka breskum jurtabókum er ráðlagt að tyggja kúmen.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.

Ljósmynd: Kúmen, Guðrún Tryggvadóttir ©Náttúran.is.

Birt:
July 17, 2013
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Kúmen“, Náttúran.is: July 17, 2013 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/09/kmen/ [Skoðað:Sept. 16, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 9, 2007
breytt: Jan. 1, 2013

Messages: