Reynsla kynslóðanna
Fáir eru færir um að skila reynslu af matjurtaræktun og jurtanotum til næstu kynslóðar, svo við verðum að styðjast að mestu við bækur. Það er sagt í Frakklandi að besti kennari vínræktarmannsins sé nágranninn því aðstæður eru staðbundnar, veðurlag og jarðvegur breytilegur frá einum stað til annars. Ræktun matjurta hér á landi krefst bæði þolinmæði og hugkvæmni.
Ófyrirsjáanlegir erfiðleikar eins og kuldakast, þurrkar eða slagveður setja strik í reikninginn og þar þurfum við andlegan stuðning ekki síður en verkleg ráð. En margvíslegri tækni fleygir fram og þar gætum við lært miklu hraðar ef við ráðfærðum okkur við aðra ræktendur. Við erum heldur ekki öll vön því að verða að binda okkur yfir verkefni á vorin og þurfa að vera heimavið. Garðyrkjumaðurinn gerir sér grein fyrir því hversu óhemju mikið framboð er á alls konar afþreyingu svo sem aðalfundum, samkomum, endurfundum og óvissuferðum fyrirtækja, fermingum og fjölskylduboðum og skilur smám saman að þeir sem ekki rækta verða óþreyjufullir á vorin, þrá líka að hreyfa sig og láta eitthvað vaxa hvort sem það er vinátta, guðsótti eða gleði af öðru tagi.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Reynsla kynslóðanna“, Náttúran.is: Nov. 10, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/07/reynsla-kynslanna/ [Skoðað:Sept. 12, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 7, 2007
breytt: Nov. 10, 2014