Graslaukur
Það er varla hægt að minnast á laukræktun án þess að hugurinn hvarfli til Guðrúnar Ósvífursdóttur, þegar hún heimti sonu sína til máls við sig í laukagarð sinn að Helgafelli. Við vitum ekki hvort hún ræktaði graslauk eða einhvern eðlari lauk eða hvort höfundurinn notar orðið laukagarður sem líkingu. Það er aðeins vitað um einn garð á landinu sem bar þetta nafn. Sá var á Hólum á 15. og 16. öld.
Þorvaldur Thoroddsen veltir því fyrir sér hvort orðið laukagarður hafi einfaldlega þýtt matjurtagarður þar sem hvönn, næpur og kál hafi verið ræktað. Hvað sem um það má segja þá er graslaukurinn ákaflega auðræktanlegur, kemur snemma upp og var mikið notaður fyrr á öldum af Rómverjum. Hann vex eins og kökkur af mörgum graslaga stilkum með laukbragði. Stundum kemst grasrót í kökkinn og þá þarf að taka hann upp, skipta honum og tína grasrótina vandlega úr.
Þegar kemur fram í júlí fer hann að blómstra og blómstilkarnir verða grófir en með því að klippa hann reglulega er hægt að hægja á blómmynduninni. Blómin má reyndar nýta líka, fjólublá og falleg. Bestur er graslaukurinn hrár, á brauð, í salöt, sem útákast og með fiski. Orðið „útákast“ var áður notað um grjón, sem sett voru út í mjólk og soðin, svo úr varð grautur eða þykk súpa. Nú eldum við sjaldan slíka mjólkurgrauta en mig vantar orð, sem má nota yfir hráar kryddplöntur sem er stráð yfir ýmsa rétti, diskinn sjálfan upp á franskan móð eða bara á brauðsneiðar.
Á vorin er tilvalið að saxa smátt þmar sterkar jurtir, sem eru að koma upp, og nota á þennan hátt. Graslaukurinn hefur sérstakan keim, sem er frábrugðinn öðrum laukplöntum og hann eykur verulega bragðflóruna. Þótt hann sé yfirleitt notaður hrár er ekkert sem bannar að sjóða hann, ef annar laukur er ekki fyrir hendi. Graslaukur er stundum þurrkaður eða frystur til vetrarins.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Grafík: Hildur Hákonardóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Graslaukur“, Náttúran.is: May 23, 2015 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/06/graslaukur/ [Skoðað:Sept. 13, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 6, 2007
breytt: May 23, 2015