Á morgun föstudaginn 18. nóvember stendur Vistbyggðarráð fyrir opnum fundi um orkunýtnar byggingar í vistvænu skipulagi í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu. Að fundinum standa tveir af vinnuhópum VBR sem hafa verið að að fjalla um orkunýtni vistvænna bygginga og vistvænt skipulag. Markmiðið er að koma af staða umræðu um orkuvænar byggingar og hlutverk þeirra í skipulagi, en hóparnir hafa hvor um sig starfað um nokkurra mánaða skeið. Viðfangsefni vinnuhóps um orkunýtni bygginga hefur m.a. verið að rýna nýja tilskipun Evrópusambandsins um orkunýtingu bygginga (Directive 2010/31/EU of the European Parliament and the Council on the energy performance of buildings), en einnig hefur hópurinn verið að skoða ýmis viðmið og aðferðir við orkuútreikninga.

Vinnuhópurinn um vistvænt skipulag hefur sett sér markmið um að skilgreina íslensk viðmið fyrir vistvænt skipulag og hefur verið að fara yfir gildandi lög og reglugerðir auk þess að skoða alþjóðleg vottunarkerfi í þessu samhengi um leið og farið hefur verið yfir   stöðuna eins og hún er hér landi.

Viðfangsefni hópanna eru vissulega yfirgripsmikil en þess mikilvægara að henda reiður á einstökum atriðum og þá einkum þeim viðmiðum sem æskilegt væri að styðjast við hér á landi og eru í raun forsenda frekari útbreiðslu vistvænna áherslna í skipulags- og bygginargeiranum.
Í upphafi munu hópstjórar vinnuhópanna segja stuttlega frá starfinu. Þá mun Kristveig Sigurðardóttir verkfræðingur hjá Almennu verkfræðistofunni kynna samanburðarannsókn á nokkrum evrópskum kerfum til að mæla orkunýtingu bygginga og velta upp spurningunni hvort þörf sé á slíkum mælingum hér á landi.
Björn Axelsson landslagsarkitekt og umhverfisstjóri Reykjavíkurborgar mun kynna vistvænar áherslur í aðalskipulagi borgarinnar og hvernig greina megi áhrif þess sérstaklega í hverfaskipulagi. Halldóra Hreggviðsdóttir jarðfræðingur og framkvæmdastjóri Alta, kynnir skipulag Urriðaholts í Garðabæ sem er fyrsta heildstæða skipulagsáætlunin hér á landi sem bygginr á vistænum gildum og  viðmiðum.
Að lokum mun Málfríður K. Kristianssen frá Skipulagsstofun fara yfir  helstu atriði nýrrar  skipulagsreglugerðar sem er nú í umsagnarferli.
Fundurinn verður sem fyrr segir  föstudaginn 18. nóvember  2011, kl. 8:30-10:00 í fyrirlestrarsal Listasafns Reykjavíkur, Hafnarhúsinu við Tryggvagötu.

Birt:
Nov. 17, 2011
Tilvitnun:
Sigríður Björg Jónsdóttir „Orkunýtnar byggingar í vistvænu skipulagi“, Náttúran.is: Nov. 17, 2011 URL: http://www.nature.is/d/2011/11/17/orkunytnar-byggingar-i-vistvaenu-skipulagi/ [Skoðað:May 23, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: