Á dögunum kom út bókin Heilsudrykkir eftir Auði Ingibjörgu Konráðsdóttur en Auður hefur getið sér gott orð sem „heilsukokkur“ í orðsins fyllstu merkingu. Hún stendur einnig fyrir vinsælum námskeiðum í hollustu, matargerð og lífsstíl.

Í bókinni er fjöldi uppskrifta að einföldum, hollum og gómsætum drykkjum en bókin er ekki einungis uppskriftabók því hún inniheldur einnig fræðandi efni um heilsu og innihald uppskriftanna. Hrund Jakobs tók myndirnar í bókinni.

Hér eru tvær uppskriftir úr Heilsudrykkjum:

Hindberjasmúðingur

2 dl rísmjólk
1 dl hindber
2 tsk. tahini
1 dl appelsínusafi
2 tsk. hlynsíróp

Þeyta rísmjólk, hindber og tahini saman í blandara. Bæta appelsínusafa og hlynsírópi saman við og þeyta í stutta stund.

Þessi drykkur er eins og góð tónlist, þegar tónar eða hráefni, sem manni finnst ekki að ættu að eiga saman, gera það samt á einhvern undursamlegan hátt. Afleiðingarnar verða þær, að maður hefst til skýjanna og nýtur sköpunarverksins til fulls.

Tahini er sesamsmjör, sem þýðir í raun maukuð sesamfræ. Það er einhver kalkríkasta fæða sem völ er á og líkaminn á auðvelt með að taka upp kalk úr sesamafurðum. Þeir sem brjóta bein ættu að borða sesam í ýmsu formi því það hefur græðandi áhrif. Sesamfræ innihalda mikið af steinefnum. Einnig gefa þau okkur trefjar og B1-vítamín, sem brýtur niður fitu og prótín. Sesamfræ geta lækkað kólesteról og komið í veg fyrir háan blóðþrýsting. Þau vernda einnig lifrina.

Frappuchino

125 ml möndlumjólk
25 ml expressokaffi
1 msk. hlynsíróp
4-5 ísmolar

Þeyta allt saman í blandara.

Þessi drykkur er alltaf góður og freistandi fyrir kaffiunnendur. Gott er að drekka nóg af vatni fyrir og eftir kaffineyslu, því vatnið hjálpar líkamanum að takast á við koffín og olíur í kaffinu. Í lagi er að láta eftir sér freistingar öðru hverju, en við verðum að jafna það út og vatn er okkar helsta hjálparhella.

Mikilvægast er að borða hollt á morgnana og á kvöldin. Þegar við viljum láta eitthvað annað eftir okkur er best að gera það í eftirmiðdaginn þegar líkaminn er í brennsluformi. Þá er um að gera að njóta með góðri samvisku. Kaffibaunir eru viðkvæmar fyrir skordýraeitri, sem fylgir þeim alla leið í bollann og þar með líkama okkar. Gott er að kynna sér uppruna vörunnar, því kaffi í sinni hreinustu mynd er ákjósanlegast. Ég mæli með að lífrænar kaffibaunir séu notaðar ef mögulegt er. Margir kaffibændur framleiða hreint og aukefnalaust kaffi þótt þeir hafi ekki lífræna vottun. Algengt er að jurtir séu notaðar til að halda skordýrum frá. Þannig þarf síður að eitra fyrir skordýrum og þannig er bæði uppskeran og jarðvegurinn verndaður.

Sjá nánar um Heilsukokkinn hér á Grænum síðum.

Birt:
Nov. 19, 2011
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Heilsudrykkir - ný bók “, Náttúran.is: Nov. 19, 2011 URL: http://www.nature.is/d/2011/11/18/heilsudrykkir-ny-bok/ [Skoðað:Sept. 30, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 18, 2011
breytt: Nov. 19, 2011

Messages: