Grenitré er sígrænt og minnir á eilíft líf. Með því að skreyta það undirstrikum við gjafmildi jarðar og þá töfra sem náttúran býr yfir. Skrautið sem við setjum á tréð hefur einnig ákveðna þýðingu fyrir sálina. Þríhyrningsform grenitrés vísar upp og er tákn elds. Það er einnig tákn föður, sonar og heilags anda.

Við skreytum með grenigreinum til að minna okkur á vonina því lífið býr í grænum greinunum þrátt fyrir langan vetur.

Árlega kaupa íslendingar um 40.000 jólatré, flest þeirra eru innflutt eða um 75% hin 25% eru framleidd hér á landi. Umhverfisáhrif innfluttra trjáa er mun meiri. Flytja þarf þau um langan veg með skipum sem brenna olíu. Allt þetta skilur eftir spor í vistkerfi jarðar. Norðmannsþinurinn sem fluttur er til Íslands er ræktaður í Danmörku.

Við ræktunina er notað gríðarmikið af varnarefnum, þ.e.a.s. illgresislyfjum og skordýraeitri. Það skal ósagt látið hvort eitthvað af þessum efnum fylgir trjánum alla leið heim í stofuna okkar, en hitt er víst að þau hafa umtalsverð áhrif þar sem trén eru ræktuð. Þannig hafa dönsku náttúruverndarsamtökin Danmarks Naturfredningsforening ítrekað varað við þeirri hættu sem steðjar að grunnvatni, yfirborðsvatni, dýralífi og plöntum vegna þessarar miklu eiturefnanotkunar. Það er því ábyrgðarhluti að kaupa slíkt tré.

Við ræktun íslenskra jólatrjáa er notað lítið sem ekkert af varnarefnum. Rauðgrenið þarf að vísu tilbúinn áburð, en við ræktun stafafuru eru alls engin aukaefni notuð, hvorki tilbúinn áburður né varnarefni af nokkru tagi. Það gefur því auga leið að íslensk jólatré hafa algjöra yfirburði yfir innflutt tré þegar umhverfisáhrif ræktunarinnar eru borin saman. Ef norðmannsþinurinn verður þráttt fyrir þetta fyrir valinu vegna barrheldninnar, þá má minna á að stafafuran íslenska heldur barrinu enn betur.

Flest Skógræktarfélög á landinu bjóða upp á að fólk geti komið í skóginn og valið sér jólatré og fellt það sjálf. Þetta þjónar bæði þeim tilgangi að grisja skóginn og er mikilvæg tekjulind fyrir félögin. Auk þess er þetta hátíðleg og jólaleg fjölskylduskemmtun. Oft er varðeldur, kakó og jólasveinn í kaupbæti. Lifandi tré í potti er kannski nærri jólaandanum en það er erfitt að halda þeim á lífi eftir að hafa verið inni í heitri stofu í upp í 2-3 vikur. Ef hægt er að komast af með að setja tré í potti inn í stofu á aðfangadag og koma því aftur út á þriðja í jólum ætti það að lifa jólahátiðina af. Það er óneitanlega skemmtilegt að gefa trénu séns á lífi og sjá það dafna á næstu árum sem lifandi tré í garðinum.

Eftir að jólunum lýkur og hlutverk trésins sem tákn í okkar huga lýkur er mikilvægt að koma trénu þangað sem að það nýtist til endurvinnslu. Í flestum stærri sveitarfélögum er trén sótt á ákveðna staði dagana eftir 13. dag jóla og eru nýtt í moltu eða þau eru kurluð og nýtast þannig á jarðvegsblöndur, göngustíga og í beð. Þannig fær gamla jólatréð það hlutverk að næra og hlúa að nýju lífi á sumri komandi.

Eftir þessar vangaveltur um umhverfisáhrif lifandi jólatrjáa, dettur eflaust einhverjum í hug hvort ekki sé betra fyrir umhverfið að við notum plasttré sem endast árum saman. En sú er ekki raunin. Rannsóknir benda þvert á móti til að lifandi jólatré séu 5 sinnum umhverfisvænni en jólatré úr plasti. Ástæðan er m.a. sú hversu mikla orku þarf til að framleiða plasttrén og til að flytja þau á markað. Flest plasttrén eru nefnilega framleidd í Asíu. Íslensk jólatré hafa algjöra yfirburði yfir innflutt tré þegar umhverfisáhrif ræktunarinnar eru borin saman. Þar við bætast svo flutningarnir.

Skáletraði textinn er frá Stefáni Gíslasyni umhverfisstjórnunarfræðing.

Grafík: Eftri myndin er af skreyttu jólatré, sú í miðið af greinum og sú neðsta af dauðu tré að næra nýja plöntu. Guðrún Tryggvadóttir ©Náttúran.is.

Birt:
Dec. 21, 2015
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Jólatréð og umhverfið“, Náttúran.is: Dec. 21, 2015 URL: http://www.nature.is/d/2007/12/13/jolatreo-og-umhverfio/ [Skoðað:April 14, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Dec. 13, 2007
breytt: Dec. 21, 2015

Messages: