Umsögn Samtaka lífrænna neytenda um umsögn Landbúnaðarháskóla Íslands
Samtök lífrænna neytenda (SLN) töldu óhjákvæmilegt að koma á framfæri athugasemdum við umsögn auðlindadeildar um tillögu til þingsályktunar um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi, 7. mál, því þar koma fram fullyrðingar sem stangast í grundvallaratriðum á við niðurstöður viðamikilla vísindalegra rannsókna sem gerðar hafa verið á lífrænum aðferðum í landbúnaði, svo og langtíma samanburðarrannsókna á lífrænum og hefðbundnum ræktunaraðferðum. Í umsögninni mátti einnig finna rangfærslur og villandi staðhæfingar sem samtökin sáu sig knúin til að leiðrétta.
Starfshópur samtakanna Opinber stefnumótun sendi því eftirfarandi umsögn um umsögn auðlindadeildar LbhÍ til Nefndasviðs Alþingis í gærkvöldi. Umsögn auðlindadeildar má finna hér.
Umsögn samtakanna um þingsályktunartillöguna sjálfa sem var send inn 11. nóvember sl. má finna hér.
Þingsályktunartillöguna um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi má finna hér.
Umsögnin er einnig á vef Alþingis sem má nálgast með því að smella hér. Yfirlit yfir allar umsagnir sem hafa borist má finna hér.
Þeir sem vilja skrá sig í starfshópinn Opinber stefnumótun geta gert það hér.
Hér á eftir má lesa umsögn Samtaka lífrænna neytenda um umsögn Landbúnaðarháskóla Íslands:
Atvinnuveganefnd Alþingis
B.t. Nefndasviðs Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík, 21. nóvember 2011
Efni: Viðauki við umsögn Samtaka lífrænna neytenda (SLN) um tillögu til þingsályktunar um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi, þskj. 7, mál nr. 7: Athugasemd við umsögn auðlindadeildar Landbúnaðarháskóla Íslands.
SLN vísa til áður innsendrar umsagnar sinnar til nefndasviðs Alþingis um þetta mál. Að gefnu tilefni telja SLN hins vegar óhjákvæmilegt að koma á framfæri athugasemdum við umsögn auðlindadeildar LBHÍ. Þar koma fram fullyrðingar sem stangast í grundvallaratriðum á við niðurstöður viðamikilla vísindalegra rannsókna sem gerðar hafa verið á lífrænum aðferðum í landbúnaði, svo og langtíma samanburðarrannsókna á lífrænum og hefðbundnum ræktunaraðferðum (sjá fylgiskjöl).
Í því sambandi má sérstaklega geta þess að um miðjan september birti Rodale-stofnunin í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum nýjar niðurstöður úr rannsókn sem stofnunin hefur unnið að samfleytt í 30 ár. Í rannsókninni var lífrænn landbúnaður borinn saman við hefðbundinn landbúnað, bæði hvað varðar afkomu bænda og umhverfisáhrif. Niðurstöðurnar eru lífræna landbúnaðinum mjög í hag hvað báða þessa þætti varðar.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þessar:
- Lífræn ræktun skilar jafnmikilli eða meiri uppskeru en hefðbundin ræktun.
- Í þurrkatíð er uppskera í lífrænni ræktun mun meiri en í hefðbundinni ræktun.
- Lífrænn landbúnaður byggir upp jarðveginn og stuðlar að sjálfbærni hans.
- Orkunotkun er um 40% meiri í hefðbundnum landbúnaði en í lífrænum landbúnaði.
- Losun gróðurhúsalofttegunda er um 55% meiri í hefðbundnum landbúnaði en í lífrænum landbúnaði.
- Afkoma bænda í lífrænum landbúnaði er betri en annarra bænda.
Nánari upplýsing um niðurstöður rannsóknarinnar má finna hér: http://stefangisla.wordpress.com/2011/10/02/lifraen-raektun-skapar-fleiri-storf-meiri-hagnad-og-betra-umhverfi/
Megininntak umsagnar auðlindadeildar er að lífrænar aðferðir séu ekki sjálfbærari en aðrar ræktunaraðferðir vegna þess að þær valdi rýrnun jarðvegsgæða, skili mun minni uppskeru á flatareiningu og útheimti meiri orkunotkun. Umsögn auðlindadeildar er einhliða og hugmyndafræðilegs eðlis, fremur en vísindalegs eðlis. Hún byggir á hugmyndafræðilegri andstöðu við lífrænar aðferðir. Vísað er til „fjölmargra rannsókna“ án þess að nokkrar þeirra séu tilgreindar, nema hvað einvörðungu er vitnað til skrifa eins harðasta andstæðings lífrænna aðferða á Norðurlöndum, dr. Holger Kirchman.
Fullyrðingar um að lífrænar aðferðir leiði til næringarskorts í jarðvegi stangast algerlega á við niðurstöður vísindarannsókna í Evrópu og Bandaríkjunum. Þær benda til þess að lífrænni ræktun haldist mun betur á næringarefnum og lífrænu efni en hefðbundin ræktun. Sömu rannsóknir benda til þess að lífrænar aðferðir auki kolefni í jarðvegi, stuðli að bættri hringrás og endurnýtingu regn- og grunnvatns, og styrki örveru- og smádýralíf. Allt stuðlar þetta að meira heilbrigði jarðvegs í lífrænni ræktun en í hefðbundinni og tryggir nytjaplöntum meira og varanlegra aðgengi að fjölþættari næringarefnum.
Misskilnings gætir í umsögn auðlindadeildar þar sem segir að niðurbrot lífrænna áburðarefna sé ekki alltaf í samræmi við þarfir plantna og þess vegna verði að nota tilbúinn áburð. Notkun tilbúins áburðar skapar misvægi í næringarsamsetningu jarðvegs. Tilbúinn áburður raskar og jafnvel skaðar lífríki örvera og smádýra, en þau gegna einmitt gríðarlega mikilvægu hlutverki við niðurbrot lífrænna efna og þar með tilflutning næringarefna til nytjaplantna. Auk þess helst jarðvegi illa á tilbúnum áburði, sem getur auðveldlega skolast út í grunnvatn og ár í vætutíð, með tilheyrandi mengunaráhrifum. Líta verður á lífríki jarðvegs og plantna sem eina vistfræðilega heild þar sem heilbrigði og vöxtur nytjaplantna byggist á jafnvægi og heilbrigði alls vistkerfisins. Tilbúinn áburður kann að raska því jafnvægi.
Fullyrðingar um að uppskera í lífrænni ræktun sé „að jafnaði 25-50% minni“ en í hefðbundnu kerfi eru mjög orðum auknar, og eru heldur ekki studdar langtímarannsóknum sem eru forsenda þess að samanburður á uppskeru sé marktækur. Rannsóknir Delate o.fl. í Iowa ríki, Lotter o.fl., og bandarísku Rodale stofnunarinnar benda eindregið til þess að munur á uppskeru lífrænna og hefðbundinna aðferða minnki því lengur sem lífrænum aðferðum er beitt og snúist þeim jafnvel í hag þegar frá líður í einstökum greinum ræktunar. Ein meginskýring þessa er einmitt varanlegri, frjósamari og næringarríkari jarðvegur í lífrænum ræktunarkerfum.
Staðhæfingar um meiri orkunotkun og kolefnislosun í lífrænni ræktun byggja á þeirri forsendu að framleiðsla hverrar einingar fóðurs og fæðu krefjist meira lands og þar af leiðandi meiri brennslu olíu. Eins og áður segir verður að taka alhæfingar um minni uppskeru í lífrænum kerfum með miklum fyrirvara. Samkvæmt niðurstöðu Rodale rannsóknanna notar lífræna kerfið 45% minni orku á hverja flatareiningu og orkunýting er talin mun betri í því en í hefðbundinni ræktun. Þá eru evrópskar og bandarískar rannsóknir samdóma um að hefðbundinn landbúnaður losi gróðurhúsalofttegundir í miklu mun ríkari mæli en lífrænn landbúnaður. Meginskýring þess munar er framleiðsla og notkun á tilbúnum áburði. En auðlindadeild LBHÍ lætur hjá líða að ræða hin gríðarlegu og margþættu umhverfisáhrif tilbúins áburðar almennt, og áhrif áburðarnotkunar á samanburð orkujöfnunnar í lífrænum og hefðbundnum ræktunarkerfum. Einnig er rétt að benda á að auk tilbúins áburðar felur framleiðsla eiturefna, sem ekki eru leyfð í lífrænum landbúnaði, í sér mikla orkunotkun og útblástur, auk mengunar að sjálfsögðu.
Orðræða auðlindadeildar um hollustu og matvælaöryggi í samhengi við lífræna framleiðslu vekur spurningar um hvort starfsmenn deildarinnar hafi misskilið umfjöllun í skýrslu um eflingu græns hagkerfis. Með eflingu lífrænnar framleiðslu er annars vegar stuðlað að sjálfbærari landbúnaði og matvælaframleiðslu og hins vegar leitast við að svara auknum kröfum samfélagsins um matvæli sem vottuð eru samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum staðli sem gerir strangar kröfur til umhverfis- og dýraverndar og bannar notkun tilbúins áburðar, eiturefna, erfðabreyttra lífvera, vaxtarhormóna og reglubundna- og fyrirbyggjandi lyfjagjöf. Þá er ástæðulaust fyrir auðlindadeild að horfa framhjá því að þeim vísindarannsóknum fjölgar ört sem benda til þess að lífrænar afurðir séu auðugri af mikilvægum næringarefnum en sambærilegar hefðbundnar afurðir, og að með lífrænni ræktun er stórlega dregið úr líkum á mengun matvæla af völdum eiturefna eða erfðabreyttra afurða.
Það er einnig mikill misskilningur hjá auðlindadeildinni og ástæðulaust fyrir hana að gefa í skyn að IFOAM, sem stendur fyrir International Federation of Organic Agriculture Movements, sé markaðsdrifinn fjölþjóðarisi sem markaðssetji einhverjar vörur, eins og gert var í umsögninni og hljóðaði svo: "Lífrænt vottaðar vörur undir merkjum og stjórn fjölþjóðarisans IFOAM er markaðsdrifin framleiðslulína sem fylgir sömu lögmálum og aðrar þekktar vörulínur á markaði." IFOAM eru alþjóðleg samtök félagasamtaka og einstaklinga sem eru að byggja upp lífrænan landbúnað með ýmsum hætti. Þar sameinast framleiðendur, kynningaraðilar, vísindastofnanir, vottunarstofur, skólar o.fl. þar sem stefnt er að sjálfbærri þróun. Svæðahópar IFOAM, t.d. IFOAM EU Group, hafa töluverð áhrif á þróunina í Evrópu, bæði innan og utan ESB, t.d. með því að vera í stöðugu samband við lífrænu deildina í höfuðstöðvum ESB í Brussel. Engar vörur eru merktar IFOAM eða vottaðar af IFOAM.
Samtök lífrænna neytenda harma að ein af burðardeildum helsta fræðslu- og rannsóknarseturs í íslenskum landbúnaði skuli fara slíku offari í andstöðu sinni við ræktunaraðferðir sem:
- Þegar hafa sannað tilverurétt sinn hér á landi sem annars staðar.
- Vaxandi fjöldi bænda vill taka upp.
- Vaxandi hópar neytenda kjósa með innkaupavenjum sínum.
- Sambærilegar stofnanir í landbúnaði grannlanda okkar telja sér rétt og skylt að þjóna með öflugu rannsóknar-, fræðslu- og ráðgjafarstarfi.
- ESB hefur gert aðgerðaáætlun um (The European Action Plan for Organic Food and Farming) sem miðar að því að árið 2020 verði 20% af ræktuðu landi í aðildarlöndunum í lífrænni ræktun. Þess má geta að á Íslandi er hlutfallið um 1%.
- Stofnanir Sameinuðu þjóðanna viðurkenna nú að séu skynsamleg og raunhæf leið til að tryggja matvælaöryggi heimsbyggðarinnar til framtíðar og draga jafnframt stórlega úr neikvæðum umhverfisáhrifum landbúnaðar.
Rétt er að benda á að umhverfisdeild sama háskóla sendi einnig inn umsögn sem er í algjörri andstöðu við umsögn auðlindadeildar sem hlýtur að vekja furðu þegar um háskólastofnun er að ræða.
Þess má að lokum geta að Danir hafa sett 72 milljónir danskra króna inn í fjárlög til að ná því markmiði að 60% af öllum mat í opinberum stofnunum (þ.m.t. skólum, leikskólum og sjúkrastofnunum) verði lífrænt vottaður eftir tvö ár.
Virðingarfyllst,
f.h. Samtaka lífrænna neytenda
Oddný Anna Björnsdóttir
Fulltrúi framkvæmdanefndar
lifraen@lifraen.is
www.lifraen.is
Fylgiskjöl:
Rodale Institute (2011), The Farming Systems Trial; http://www.rodaleinstitute.org/files/FSTbookletFINAL.pdf.
Study: Organic farming outperforms conventional in yields, economic viability, conservation, and health: http://www.naturalnews.com/033925_organic_farming_crop_yields.html#ixzz1bKZuYnwQ “Initiated back in 1981, Rodale's FST is the longest running, side-by-side comparison of organic and chemical agriculture that has ever been conducted in the US.”
Vottunarstofan Tún & Sandra B. Jónsdóttir (2011), The Benefits of Organic Agriculture, Review of Scientific Research & Studies; http://www.natturan.is/site_media/uploads/tun_benefits_of_oa.pdf.
Quality Low Input Food (2005-2009), website, leaflets and research archives; see www.qlif.org.
The European Action Plan for Organic Food and Farming: http://ec.europa.eu/agriculture/organic/eu-policy/action-plan_en
60% procent ökologi i alle offentilge kokkene: http://www.okologi.dk/baeredygtigt-forbrug/aktuelt-om-oekologi/oeko-nyheder/2011/nov/ny-finanslov-vil-fremme-oekologi.aspx#.TrEys3mcDcw.facebook
Ny financelov vil fremme ökologi: http://www.okologi.dk/baeredygtigt-forbrug/aktuelt-om-oekologi/oeko-nyheder/2011/nov/60-procent-oekologi-i-alle-offentlige-koekkener.aspx
Birt:
Tilvitnun:
Oddný Anna Björnsdóttir „Umsögn Samtaka lífrænna neytenda um umsögn Landbúnaðarháskóla Íslands“, Náttúran.is: Nov. 24, 2011 URL: http://www.nature.is/d/2011/11/24/umsogn-samtaka-lifraenna-neytenda-um-umsogn-landbu/ [Skoðað:Oct. 4, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.