Ný reglugerð Evrópusambandsins um merkingar matvæla (food information to consumers) var birt 22. nóvember s.l. Reglugerðin verður innleidd á Íslandi á næstu misserum og mun leysa af hólmi núverandi reglugerðir um merkingu matvæla og merkingu  næringargildis matvæla. Matvælastofnun heldur fræðslufund til að kynna þessar nýju reglur þriðjudaginn 6. desember 2011 kl. 15:00 - 16:00.

Meðal nýjunga í nýju reglugerðinni er að lágmarksleturstærð er skilgreind. Skylt verður að næringargildismerkja flest matvæli (orku, fitu og mettaða fitu, kolvetni, sykur, prótein og salt). Skylt verður að upprunamerkja kjöt og merkja samsett kjöt sem „mótað kjöt“. Það sama mun eiga við um óunnar fiskafurðir. Ofnæmis- og óþolsvalda ber að merkja á áberandi hátt með lita- eða leturbreytingu skv. reglugerðinni. Frestur til að uppfylla reglurnar í löndun Evrópusambandsins er 3 ár (5 ár fyrir næringargildismerkingar). Fresturinn rennur trúlega út á sama tíma hér á landi.

Á fræðslufundinum verður farið yfir helstu ákvæði reglugerðarinnar og verða breytingar frá núverandi reglum kynntar fyrir framleiðendum og dreifingaraðilum matvæla, ásamt öðrum áhugasömum.

Hægt verður að fylgjast með fræðslufundinum í beinni útsendingu á vef MAST undir Útgáfa - Fræðslufundir. Þar verður einnig birt upptaka að fræðslufundi loknum.

Fyrirlesarar:

  • Jónína Þ. Stefánsdóttir, fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun
  • Zulema Sullca Porta, sérfræðingur hjá Matvælastofnun

Fræðslufundurinn verður haldinn í umdæmisskrifstofu Matvælastofnunar í Reykjavík að Stórhöfða 23. Gengið er inn í húsnæði stofnunarinnar að norðanverðu (Grafarvogsmegin). Allir velkomnir!

Birt:
Dec. 6, 2011
Höfundur:
Hjalti Andrason
Tilvitnun:
Hjalti Andrason „Fræðslufundur MAST um merkingu matvæla“, Náttúran.is: Dec. 6, 2011 URL: http://www.nature.is/d/2011/11/30/fraedslufundur-mast-um-merkingu-matvaela/ [Skoðað:July 25, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 30, 2011
breytt: Dec. 6, 2011

Messages: