Maðurinn er jarðfræðiafl og hreyfir árlega yfir 10 sinnum meira af efni en öll náttúruöfl. Sjötíu prósent þessa er vegna „hefðbundins“ landbúnaðar sem veldur jarðvegsrýrnun og rofi vegna vélvæðingar, eyðingu skjólbelta, vatnsrofs og ofbeitar. Lífrænn landbúnaður hins vegar, vinnur með náttúrunni, bindur kolefni, stuðlar að frekari frjósemi jarðvegsins um leið og stutt er að viðhaldi líffræðilegs fjölbreytileika.

Gefnar hafa verið út skýrslur þar sem niðurstaðan er að matvælaframleiðsla þurfi að aukast um 70% fyrir 2050 (FAO, 2006). Þar er gert ráð fyrir að kjötneysla aukist til muna þegar þróunarríki taki upp matarvenjur borgarbúa á vesturlöndum. Þessi aukning gæti því verið minni ef gert yrði áták í að breyta matarvenjum borgarbúa og neyta kornvara beint í stað þess að nota þær sem fóður fyrir dýr.  En samt eru góð ráð dýr.

Nútíma hefðbundinn landbúnaður með notkun á tilbúnum áburði og varnarefnum veldur mikilli mengun á umhverfinu og nitursambönd úr áburðinum valda nú yfir 20% af hlýnun jarðar (Rockström og fl., 2009). Hann hefur valdið mengun á vatni og jarðvegi og minnkað líffræðilegan fjölbreytileika. Þessi landbúnaður er háður notkun á olíu (fyrir vinnuvélar, flutninga, framleiðslu, kælingu, framleiðslu áburðar og varnarenfa) og fosfats. Bæði olía og fosfat eru unnin úr náttúruauðlindum sem fara þverrandi. Við höfum bæði brennt upp 50% af þeirri olíu sem náttúruöflin hafa framleitt handa okkur og 50% af fosfatnámum hafa verið tæmdar (Ragnarsdottir og fl. 2011, Sverdrup og Ragnarsdottir 2011). Þetta mun fljótlega leiða til þess að bæði olía og áburður verða svo dýr að flestir bændur hafi ekki efni á að kaupa þessar vörur. Við sáum vísa að þessu 2008 þegar matvælaverð rauk upp með olíuverði. Því þarf landbúnaður að taka stakkaskiptun í átt til vistvænna framleiðsluaðferða þar sem næringarefnahringjum er lokað og komið er í veg fyrir sóun á náttúruauðlindum.

Í nýlegri grein í hinu virta vísindatímariti Nature (Foley og fl., 2011), voru lagðar til nauðsynlegar breytingar á landbúnaðarháttum fyrir fæðufraöryggi í heiminum. Niðurstöður rannsóknarinnar eru að hætta skuli að taka nýtt land til landbúnaðarframleiðslu, en auka hins vegar uppskeru þar sem hún er léleg vegna áburðar- og vatnsskorts og að rækta þurfi fleirri tegundir en nú er gert.  Enn er unnt er að auka framleiðni með kynbætingu sumra tegunda og með því að taka upp aðferðir lífrænnar ræktunar þar sem næringarefnahringjum er lokað.  Þetta þarf að gera um leið og dregið er úr notkun tilbúins áburðar og vernarefna.  Loks þarf að minnka kjötát og notkun á fæðutegundum til framleiðslu lífdísels og minnka sógun á matvælum.  Á þennan máta mætti auka aðgengi að matvælum í heiminum milli 100% og 180% og um leið minnka mengun og útblástur gróðurhúslofttegunda og draga úr minnkun lífffæðilegs fjölbreytileika.  Áhugavert er að lagt er til að bændum verði greitt fyrir að halda við vistþjónustu náttúrunnar.*

Núverandi matvælaframleiðsla hefur ekki leitt til fæðuöryggis í heiminum.  Gífurlegt magn af matvælum skemmist og kemst ekki til þeirra sem á þurfa að halda og á Versturlöndum hendum við um það bil 30% af þeim matvörum sem við kaupum. Önnur 20% eyðileggjast annars staðar í fæðukeðjunni. Vegna rýrnunar á náttúruauðlindum þurfa nú öll lönd heimsins að fara að huga að fæðuöryggi sinna landa og vinna að upptöku vistvænna aðferða og sölu á grannmörkuðum.

Olivier de Schutter (2010) skrifaði nýlega skýrslu fyrir Mannréttindaráð Sameinuðuþjóðanna (Human Rights Council) þar sem hann gerir grein fyrir niðurstöðum fimm ára yfirgripsmikillar alþjóðalegrar samanburðarkönnunar á framleiðslu matvæla. Niðurstaðan er að landbúnaður eigi að fara til baka til framleiðsluaðferða sem eru sjálfbærari hvað umhverfi varðar og þjóðfélagslega réttlátari. Þessar aðferðir þurfi að takmarka olíunotkun (low carbon), sem og notkun á örðum náttúruauðlindum. Aðferðin sem mælt er með nefnist vistlandbúnaður (agroecology). Vistlandbúnaður er skilgreindur sem nýting á vistfræðilegum lögmálum fyrir framleiðslu á fæðu, eldneyti, trefja og lyfja (www.agroecology.org).

Núverandi matvælaframleiðsla er byggist á línulegri hugsun með nýtingu á náttúruauðlindum til framleiðslunnar. Tíu kaloríur af olíu fara í hverja kaloríu af fæðu sem framleidd er á hefðbundinn máta (Soil Association, 2008). Í stað þessara aðferða þarf að læra af náttúrunni þar sem ferlarnir eru sjálfbærir og í hringrás. De Schutter (2010) kemst að þeirri niðurstöðu að hlúa þurfi að vistlandbúnaði til að auka framleiðslu og fæðuöryggi, auka tekjur og hag landsbyggða og spyrna við eyðlingu tegunda og genarofi.

Vistlandbúnaður er byggður á aðferðafræði sem leitast við að styrkja landbúnaðarkerfi með því að líkja eftir náttúruferlum, og þar með byggja upp jákvætt lífræðilegt samspil og samvinnu mismunandi þátta vistlandbúnaðarkerfisins. Þessi aðferðafræði veldur jákvæðasta jarðvegsástandi fyrir vöxt plantna, og þá sérstaklega með því að viðhalda lífrænu efni og vegna aukinnar lífvirkni. Vistlandbúnaðaraðferðir vinna að hringrás næringarefna og orku á býlinu, í stað þess að koma með áburð og orku utan að. Þessi aðferð tengir saman uppskeru og húsdýr, eykur lífræðilega fjölbreytni og genesamsetningu í vistlandbúnaðarkerfum með tíma og í vídd, leggur áherslu á samspil framleiðslu fyrir allt landbúnaðarkerfið, í stað þess að einblína á eina tegund framleiðslu. Vistlandbúnaður er ekki byggður upp á þekkingu úr fílabeinsturnum landbúnaðarháskóla heldur byggist hann á mikilli þekkingu og kunnáttu bænda, sem leitt hefur af sér aðferðafræði vistlandbúnaðar. Vistlandbúnaður er nú studdur af vísindamönnum út um allan heim auk Sameinuðuþjóðanna (FAO, UNEP) og Biodiversity International (sjá de Schutter, 2010).

Auk vistlandbúnaðar mælir de Schutter einnig með landbúnaðarskógrækt (agroforestry) en þar vaxa tré á milli landspildna þar sem ræktað er grænmeti, korn eða gras. Trén verða skjólbelti, breyta míkróveðurfarinu og vinna næringarefni og vatn djúpt í jarðveginum (t.d. fosfat, kalíum) sem síðan blandast við jarðvegin þegar lauf falla á landið. Einnig er hægt að planta trjám sem vinna köfnunarefni úr andrúmsloftinu. Ræktun slíkra trjáa hafa orðið til þess að uppskera jókst all að 100% til 200% í Malawi!
Aðferðafræði skógarlandbúnaðar sem byggir upp á verndun náttúruauðlinda og litlum aðflutningi aðfanga (low-input) hefur verið sýnd áhrifamikil víða um lönd og orðið til þess að uppskeran jókst um 25% til 100% í 57 löndum (Pretty og fl., 2006). Vistlandbúnaður er einnig iðkaður með fleiri tegundir og það veldur því að heilsa folks batnar, vegna þess að einsleit fæða inniheldur ekki öll þau næringarefni sem fólk þarf á að halda. Hann getur því komið í veg fyrir næringarskort.

Vistlandbúnaður eykur seiglu (resilience) gagnvart loftslagsbreytingum. Sýnt hefur verið fram á að slíkur landbúnaður verður ekki fyrir jafn miklu raski vegna fellibylja og  veldur því lækkun á jarðvegsrofi og efnahagslegu tjóni en hefðbundinn landbúnaður (Holz-Gimenez, 2002). Einnig hefur verið sýnt fram á að jarðvegur í lífrænni ræktun veitir uppskeru meira þurrkaþol (Eyhord og fl., 2007). Sú aðferð vistlandbúnaðar að planta fleiri en einni tegund af fræjum dregur einnig úr hættunni á ágangi skordýra, illgreis og sjúkdóma sem tilkomnir eru vegna loftslagsbreytinga (Zhu og fl., 2000) og minnka því þörfina fyrir notkun varnarefna. Vistlandbúnaður bindur kolefni í jarðvegi og er eitt af hinum mikilvægu skrefum til þess að hægja á loftslagsbreytingum.
Vistlandbúnaði hefur vaxið fiskur um hrygg undanfarin 10 ár, í gegn um grasrótarhreyfingar og bændasamfélög. Á Kúbu unnu t.d. einungis 115 ráðgjafar við upplýsingastörf 2001 en voru orðnir nær 12 þúsund árið 2009 og á þessum tíma voru haldnir 121 þúsund vinnufundir um vistlandbúnað.

Rodale stofnunin í Bandaríkjunum sem vinnur að rannsóknum á lífrænni ræktun hefur gert 30 ára samanburðartilraunir sem sýnir fram á að lífræn ræktun veiti jafn mikla uppskeru og noti 30% minni orku á hverja flatareiningu en hefðbundinn landbúnaður (www.rodaleinstitute.org/fst30years). Einnig er hagnaður lífrænna bænda yfir 30% betri og 15% minni útblástur af gróðurhúsalofttegundum.  Verkefnið MAT21 (www-mat21.slu.se ) sem unnið var í samvinnu á milli Sænska landbúnaðarháskólans (SLU) í Uppsölum og Háskólans í Lundi fann engan mun á uppskeru hefðbundins landbúnaðar og lífræns landbúnaðar í Svíþjóð. Eitt af þessum rannsóknarbýlum er Öjebyn sem er rétt fyrir utan Umeå og á sömu breiddargráðu og Akureyri.

Í skýrslu ríkisstjórnarinnar (Græna hagkerfið) er stefnt að 15% lífrænni framleiðslu á Íslandi fyrir 2020, en nú er hún einungis 1%. ESB stefnir að 20% lífrænni framleiðslu fyrir sama tíma.  Það er því með ólíkindum að Landbúnaðarháskóli Íslands vinni markvisst að því að rakka niður yfirlitsgreinar Söndru B. Jónsdóttur með áróðurskenndum blaðaskrifum um að lífræn ræktun geti ekki brauðfætt heiminn og að sú staðhæfing sé í „besta falli hjákátleg en í versta falli stórhættuleg“ (Áslaug Helgadóttir og Guðni Þorvaldsson Bændablaðið 21. tbl. 24. nóvember).  Þar lýsa þau einnig „marklausar“ niðurstöður Rodalestofnarinnar sem vísað er í hér að ofan. Að ofangreindu má sjá að þessar staðhæfingar standast alls ekki vísindavinnu sem unnin hefur verið út um allan heim.

Síðastliðin sumur hef ég heimsótt nokkuð marga íslenska lífræna bændur sem hafa unnið hörðum höndum, og gegn ráðgjöf Landbúnaðarháskólans, að lífrænni ræktun á Íslandi, sumir í áratugi. Nokkrir þeirra stunda skógræktarlandbúnað (agroforestry) þar sem skjólbelti hlífa gróðri þegar veður er kalt. Eymundur Magnússon á Vallanesi sagði mér nýlega að eina byggið sem náði þroska í kuldanum síðastliðið sumar voru þreskin sem voru undir skjólbeltunum. Allir þessir bændur hafa sýnt fram á að lífræn ræktun sé möguleg á Íslandi, líkt og í öðrum löndum. Uppskera þeirra er ekki rýrari (að þeirra eigin sögn), og þeir nota minni orku á flatareiningu (óbirtar niðurstöður frá mínum rannsóknahópi). Með samstarfsmönnum mínum á Íslandi, 10 Evrpópulöndum, Bandaríkjunum og Kína erum við að vinna stærsta jarðvegsrannsóknarverkefnið sem nú er styrkt af ESB (sjö milljónir Evra eða rúmlegur milljarður íslenskra króna). Hlutverk okkar á Íslandi er að kanna frjósemi jarðvegs í lífrænum landbúnaði til samanburðar við hefðbundinn landbúnað. Einnig erum við að þróa sjálfbærnivísa fyrir jarðvegsnýtingu, og kanna orkunýtingu býla og vistkerfaþjónustu jarðvegs í mismunandi landbúnaðarkerfum. Loks munum við gera hagrænar mælingar á mismunandi framleiðsluaðferðum. Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með niðurstöðum verkefnisins geta leitað að nánari upplýsingum á vefsíðu verkefnisins SoilTrEC (Soil Transformations in European Catchments - www.soiltrec.eu).

Kristín Vala Ragnarsdóttir
Forseti Verkfræði og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands

Heimildir:
De Schutter O. (2010) Mannréttindaráð sameinuðuþjóðanna, A/HRC/16/49, Genf. Eyhord F. og fl. (2007) International Journal of Agricultural Sustainability 5, 25-38. FAO (2006) World Agriculture: Towards 2030/2050, Rome. Holt-Giménez E. (2002) Agriculture, Ecosystems and the Environment 93 87-105.  Pretty J. og fl. (2006) Environmental Science and Technology 40, 1114-1119. Ragnarsdottir K.V. og fl. (2011) Applied Geochemistry 26S, 303-304. Sverdrup H.U. and Ragnarsdottir K.V. (2011) Applied Geochemistry 26S, 307-310. Rockström J. og fl. Nature 461, 472–475. Soil Association (2008) Soil Not Oil, Bristol. Zhu Y.Y. og fl. (2000) Nature 406, 718-722.
*Foley og fl. (2011) Nature 478, 337-342.

Ljósmyndir:

Efsta myndin er af Kristínu Völu Ragnarsdóttur með samstarfsmönnum sínum að taka jarðvegssýni á Stóra Núpi í Þjórsárdal síðastliðið sumar. Stóri Núpur er samanburðarbýli fyrir næsta bæ, Skaftholt, þar sem stunduð er lífræn ræktun lífvirkri (biodynamic) ræktun. Slík lífræn ræktun er byggð á hugmyndafræði Rodolf Steiner. Á myndinni eru frá hægri: Dr. Kristín Vala Ragnarsdóttir, samstarfsmenn hennar við HÍ, þau Taru Lehtinen doktorsnemi, Dr. Guðrún Gísladóttir, Dr. Jaap Bloem (háskólanum í Wageningen, Hollandi) og Dr. Georg Lair (Lífvísindaháskólanum í Vín, Austurríki). Þau eru öll samstarfsaðilar í jarðvegsverkefninu SoilTrEC sem getið er um í greininni.
Miðmyndin er af „gullstöngum“ Kristjáns Oddssonar og Dóru Ruf í Neðra Hálsi í Kjós en þær eru sambland
af kúamykju og lífrænum leyfum af bænum t.d. gras, matarleyfar o.fl.
Neðsta myndin er af grænmetisrækt á milli skjólbelta á Vallanesi í Fljótsdalshéraði. Þar eru ábúendur Eymundur Magnússon og Eygló Björk Ólafsdóttir. Þau stunda skógarlandbúnað (agroforrestry) og lífrænan búskap.

Birt:
Dec. 19, 2011
Uppruni:
Bændablaðið
Tilvitnun:
Kristín Vala Ragnarsdóttir „Fæðuöryggi og vistlandbúnaður“, Náttúran.is: Dec. 19, 2011 URL: http://www.nature.is/d/2011/12/19/faeduoryggi-og-vistlandbunadur/ [Skoðað:June 24, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Jan. 5, 2012

Messages: