Háskólanemar vilja hjólaleigustöðvar víðsvegar um borgina
Reykjavíkurborg er tilbúin að veita nokkrum háskólanemum leyfi til að koma sjö hjólaleigustöðvum fyrir víðsvegar um borgina.
Nokkrir nemendur við Háskólann í Reykjavík unnu að verkefni í nýsköpunaráfanga í vor þar sem markmiðið var að meta hvort að hjólaleiga, líkt og er til staðar í mörgum stórborgum, væri raunhæfur möguleiki hér á landi.
„Þetta ætti algjörlega að vera raunhæft. Með sextíu milljónir í upphafskostnað væri hægt að setja upp stöðvarnar með um það bil 70 hjólum á sjö stöðum," segir Þorgeir Sveinsson, nemandi í heilsuverkfræði. Hópurinn sér fyrir sér stöðvar í Nauthólsvík, við Hlemm, Háskóla Íslands, BSÍ, Kringluna og á Ingólfstorgi. Rekstrarkostnaðurinn við leiguna myndi vera breytilegur en hann gæti hljóðaða upp á þrjúhundruð þúsund krónur á mánuði til að byrjar með.
„Ef við myndum selja 2000 árskort þá værum við í ellefu milljón króna hagnaði á ári miðað við að kortið kosti 8000 kr." Og þau búast einnig við að hægt verði að fá auglýsingatekjur af hjólunum.
„Það eru miklir auglýsingamöguleikar á hjólunum, enda er þetta auglýsing sem ferðast um og hollur og grænn kostur. Þannig að þetta er mjög jákvæður kostur í rauninni," segir Þorgeir. Hópurinn hefur átt fund með fulltrúum umhverfis- og samgönguráðs borgarinnar.
„Þeim leist mjög vel á þetta og voru tilbúnir til að gefa leyfi fyrir staðsetningu á stöndunum. Það sem okkur vantar helst er þessi upphafskostnaður sem er svolítið erfitt þar sem við erum öll í fullu námi. En um leið og við fáum einhvern með okkur í þetta þá væri þetta ekkert mál."
Ljósmynd: Hjólaleigustandur eins og má finna erlendis. Af visir.is.
Birt:
Tilvitnun:
Hugrún Halldórsdóttir „Háskólanemar vilja hjólaleigustöðvar víðsvegar um borgina“, Náttúran.is: May 31, 2012 URL: http://www.nature.is/d/2012/05/31/haskolanemar-vilja-hjolaleigustodvar-vidsvegar-um-/ [Skoðað:Oct. 15, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.