Um lysthús
Mikla nytsemd má hafa af stærri og minni gróðurhúsum. Þó hefur garður þá fyrst hafist upp í æðra veldi, þegar þar rís lysthús. Frægt er lysthúsið í Sauðlauksdal sem að auki var búin viss rómantísk umgjörð með kvæði Eggerts. Húsið stóð mitt í einum matjurtagarðanna, sem var ferkantaður, en garðarnir voru þrír alls. Ólafur gamli faðir Eggerts byggði húsið sem var ferningslagað eins og garðurinn með timburþaki, inndregið eins og píramídi með áttstrendum hnappi efst. Í því var borð og bekkir og ilmandi mustarðurinn óx upp fyrir þakskeggið í 9 feta hæð eins og vafningsviður og í kvæðinu stendur: Gulligur runnur húsið huldi – og það hefur þótt verulega nýstárlegt og unaðslegt að hafa slíkt athvarf í garðinum.
Laufa byggja skyldi skála skemmtilega sniðka og mála í lystigarði ljúfra kála lítil skríkja var þar hjá, fagurt galaði fuglinn sá tþrar þá við timbri rjála, á tóla smíða fundi; listamaðurinn lengi þar við undi. Aðeins er vitað um tvö lysthús önnur sem eru eldri eða frá 16. öld og stóðu sitt á hvoru höfuðbólinu. Í laukagarðinum á biskupssetrinu á Hólum var lysthús, sem kallað var salur. Einnig er vitað um lysthús á Strönd í Selvogi þar sem Erlendur lögmaður Þorvarðarson, einn mesti höfðingi landsins, bjó. Við Víghól þar nærri er flöt kölluð Sveinagerði. „Þar mun Erlendur hafa látið sveina sína æfa sig, væntanlega í glímum og vopnaburði ... Erlendur á að hafa fylgst með æfingunum úr lystihúsi sem þar hafi staðið.“ Svo vill til að séra Björn í Sauðlauksdal var fæddur í Vogsósum og hefur því efalítið heyrt sögur um lystihúsið á Strönd þegar hann var að alast upp. Fjórða lysthúsið sem vitað er um var á Akureyri hjá Lynge kaupmanni en það var um 1820.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Um lysthús“, Náttúran.is: June 20, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/07/um-lysths/ [Skoðað:Sept. 16, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 7, 2007
breytt: June 24, 2014