Hrafnaklukkan er nú í blóma en hún getur verið annað hvort ljósfjólublá eða hvít á lit. Þetta smáa, að virðist viðkvæma blóm, býr þó yfir ýmsum leyndum kröftum og kostum sem nýta má til heilsubóta. Nú er rétti tíminn til að safna hrafnaklukku og þurrka. Nýttir plöntuhlutar er öll jurtin sem vex ofanjarðar, ekki rótin.

Á floraislands.is segir svo um hrafnaklukkuna:
Hrafnaklukka
[Cardamine nymanii] er allstórvaxin jurt af krossblómaætt.  Hún er algeng um allt land í deigum jarðvegi og mýrum frá láglendi upp í 700 metra hæð.  Hún er einnig algeng um hálendið og allhátt til fjalla (hæst fundin á Skessuhrygg í Höfðahverfi í 1150 m, og Seljadalsbrúnum við Hörgárdalsheiði í 1100 m), en blómstrar þar oft lítið. Stofnblöð hennar eru fjöðruð með heilrendum smáblöðum.  Hún blómstrar snemma á vorin.*

Sem lækningajurt fellur hrafnaklukkan undir „bitrar jurtir“ sem örva meltingu og upptöku næringarefna úr fæðunni og getur því nýst gegn þunglyndi. Hrafnaklukkan hefur mest verið notuð til þess að örva blæðingar hjá konum. Jurtin er mjög bitur og er þess vegna góð til að örva matarlyst ef hennar er neytt hálfri klukkustund fyrir máltíð. Hrafnaklukkute er mjög styrkjandi fyrir máttfarið fólk sem hefur átt lengi í veikindum.**

Jurtin er krampalosandi, blóðhreinsandi og getur unnið gegn vorþreytu svo fátt eitt sé nefnt***

*floraislands.is/cardanym.html
**Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir

***Sjá meira um hrafnaklukkuna á liberherbarum.com. Íslenskaða útgáfan er afurð samvinnu milli Náttúran.is og Liberherbarum.com.

Mynd: Hrafnaklukkur í Arnarfirði þ. 15.júni 2005. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
May 29, 2014
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hrafnaklukkan, fjólublá og hvít“, Náttúran.is: May 29, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2009/06/13/hrafnaklukkan-bleik-og-hvit/ [Skoðað:Dec. 9, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: June 13, 2009
breytt: May 29, 2014

Messages: