Skífa sem sýnir sáningartíma fyrir útirækt á Íslandi, Guðrún Tryggvadóttir.Tvennt segir til um hvenær vorverkin skulu hefjast, annars vegar tíðarfarið og hins vegar hvernig stendur á tungli.

Strax með nýju tungli áttu að planta þær jurtir sem villt fá fræ af. Þá skal pæla upp sáðjörð og mýkja hana. Það er ekki algengt að stunda frærækt, þegar svo auðvelt er að kaupa fræ og nú er. Það skipti meira máli áður fyrr þegar fræsendingar voru óvissar. Margir mæla með að sá einkum fljótspírandi plöntum tveimur til þremur dögum fyrir nýtt tungl. Radísur og næpur og klettasalat eru t.d. fljótspírandi. Eins má þá sá fræi sem tekur sérlega langan tíma að spíra eins og gulrótum. Gott er að vökva nýsáið fræ með vatni úr spírubakkanum. Það örvar. Ekki er gott að uppskera grænmeti með nýkviknuðu tungli eða nokkuð það sem á að geymast, því þá vill plantan halda áfram að vaxa og rot sest í hana.

Með vaxandi tungli skal sá til allra jurta, sem ofan jarðar vaxa, og síðan planta þær í sama mund, líka safna fræjum til útsáðs. Höggva eldiviðarhrís sem þú vilt að vaxi aftur. Þá skal slá há hvar menn ætla að slá hána síðar.
Nú er gott að sá til þeirra plantna sem hafa blaðvöxt sem nýttur til matar. Þetta eru einkum salat, spínat, grænkál, blaðbeðja, steinselja og kál. Einnig má nú planta þeim sem áður hefur verið sáð út í beð. Ef örva skal vöxt á að klippa runna með vaxandi tungli eða slá gras sem menn vilja að vaxi þétt og vel, sama gildir um mannshár. Setja má áburð í beð, planta sígrænum trjám opg runnum og græða nýjan vöxt á ávaxtatré. Þegar ljós mánans er að aukast er gott að umpotta og snyrta inniplöntur og einnig fjölærar plöntur útivið. Ef sáð er strax með nýja tunglinu, eða aðeins fyrr nýtist uppstreymandi kraftur tunglsins best.

Með fullu tungli: Sláðu hey, sem ei skal rýrna, planta lauka og allskyns rætur, sem kólfa hafa. Nú er rafsegulkrafturinn frá tunglinu sterkastur en brátt tekur vökinn að streyma niður á við til rótarinnar. Laukar kunna vel við sig þegar tungl er fullt. Þá má hreyfa þá til og planta. Með fullu tungli má prikla eða planta út í beð. Einnig sá fræjum sem þurfa langan tíma að til að spíra og sáð er beint út í beð. Þau taka þá við sér á næsta nýja tungli. Flest blómfræ spíra hægt. Eftir að tungl hefur fyllt sig má fara að hugsa til að uppskera. Sé grænmeti tekið upp á fullu tungli minnkar það hættu á rotnum í geymslu.

Með minnkandi tungli: Pæl upp land hvar grasrætur eiga að fúna í. Högg þá við, sem lengi skal vara og ei fúna, svo sem til klifbera, hripa og amboða. Eins og blaðávextir eru taldir vaxa betur með vaxandi tungli er því öfugt farið með rótarávextir, sem teygja sig niður í jörðina. Það má sá til þeirra og eins planta út laukum með minnkandi tungli. Þetta er tími fyrir allt sem er samandragandi. Því nefnir Björn trjávið sem skal endast og grasrót sem ekki á að fara að spretta aftur, heldur skal rótin fúna. Þau tré eða runnar sem ekki ættu að missa raka er gott að klippa þegar tungl er minnkandi t.d. stórar greinar. Sömuleiðis er betra að uppskera með minnkandi tungli. Nú má setja niður og skipta fjölærum plöntum þar sem æskilegt er að örva rótarvöxt. Þetta er góður tími til að útrýma sniglum og skorkvikindum.

Á síðasta kvarteli tungls: Sá næpum og öllu rótarfræi, líkar viðarfræi. Planta villivið á hausti. Tak upp úr jörð ávexti þá, sem inni skulu geymast á vetri, undir niðið sjálft, (þegar tungl er aldimmt) en bú vel um hina sem úti eiga að lifa. Björn vill nota regluna að sá tveimur til þremur dögum fyrir nýtt tungl. Á hans tíma voru næpur, hreðkur og kálrætur aðal rótarávextirnir. Síðar komu rófur og gulrætur eins og við þekkjum þær í dag. Sé þeim sáð nú ættu þær að taka við sér og fara að vaxa með nýja tunglinu. Yfirleitt vilja menn hreyfa gróður sem minnst á fjórða kvarteli nema tína arfa og uppræta annað illgresi. Setja má þó niður kartöflur á fjórða kvarteli og sá gulrótum.

En utan þess að minnka og stækka ferðast tunglið gegnum 12 stjörnumerki dýrahringsins og sum þeirra eru talin frjósamari en önnur og þau heyra til mismunandi frumefna sem eru vatn, jörð, loft og eldur. Betra er talið að sá og planta í frjósamari merkjum en safna jurtum og uppskera meðan tunglið er í þeim merkjum sem talin eru ófrjósamari. En loftslag á hverjum stað, jarðvegur, veðurfar og hitastig hefur líka mikið að segja.

Úr Ætigarðinum eftir Hildi Hákonardóttur.

Sjá Sáðalmanak Náttúrunnar en þar er hægt að sjá hagstæða sáningartíma fyrir hina ýmsu tegundir jurta skv. sáðalmanaki Maríu Thun sem byggir á tunglinu og reikistjörnunum.

Birt:
March 14, 2015
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Um tungl og vöxt plantna og gróðursetningu“, Náttúran.is: March 14, 2015 URL: http://www.nature.is/d/2007/04/21/um-tungl-og-vxt-plantna-og-grursetningu/ [Skoðað:Sept. 16, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: April 21, 2007
breytt: March 14, 2015

Messages: