Kál hefur verið ræktað í nokkur þúsund ár. Líklega óx það fyrst á ströndum Miðjarðarhafsins og nafnið er latneskt. Fyrst er talið að villikál hafi verið tekið til ræktunar og síðan hafi það kál breiðst út úr görðunum um næsta nágrenni og orðið villt á ný. Það kál hafi svo aftur verið tekið til ræktunar og þannig hafi þetta gengið koll af kolli og villikálið því stöðugt verið að taka breytingum. Elsta kálið kann að hafa verið ræktað vegna olíuríkra fræjanna, en svo margþætt er þessi planta, að síðan var grænkálið ræktað vegna blaðanna og hvítkálið einnig, hnúðkálið vegna stilksins, rósakálið vegna blómhnappanna og brodd- og blómkálið vegna blómstursins.

Á eyjunum norður af Skotlandi þótti kál nauðsynlegt, vegna C-vítamíninnihalds síns, til að verjast skyrbjúg, einkum fyrir daga kartöflunnar. Enska orðið kale er nú oftast notað yfir grænkál, sem er frumstæð tegund og auðveld í ræktun. Önnur planta, colewort eða einfaldlega wort, er einnig næst því að samsvara grænkáli í dag.

Margar tegundir káls hafa verið ræktaðar í Orkneyjum, á Hjaltlandi og í Norður-Skotlandi að minnsta kosti frá 15. öld, eða eftir að skrifaðar heimildir liggja fyrir. Kálgarðar voru við hvert hús á Orkneyjum og kálið virðist hafa skipt verulegu máli í fæðubúskapnum. Vörslugarðar  voru hlaðnir úr grjóti utan um kálgarðana. Ritað var um slíkar framkvæmdir og einnig tíðum um kálþjófnað. Stórjarðir voru stikaðar niður og ráðsmenn leigðu út skika til smábænda og leiguliða, ýmist til ræktunar eða búfjárhalds. Þurrabúðarmenn, dryhousecottars, voru líka til en þeir höfðu ekkert annað en kofann og kálgarðinn sem var þá nefndur kailyard. Það var þrautalausn fyrir þurrabúðarfjölskyldur að geta ræktað eitthvað á sínu afar takmarkaða landsvæði.

Í gamla hallargarðinum í Kirkwall í Orkneyjum voru kálreitir leigðir út og kallaðir hundraðsskikar því að þar mátti koma fyrir hundrað kálplöntum. Reyndar var um að ræða stórt hundrað eða tíu plöntur í tólf röðum. Utan við bæinn voru stærri garðar en alltaf var kálið ræktað í afgirtum reitum, svo að skepnur kæmust ekki til að spilla uppskerunni. Á sumum vörslugörðunum var ekkert hlið og þá varð að klifra yfir garðinn til að komast inn fyrir. Það þekktist bæði á Katanesi og víðar um norðanvert Skotland, og einnig á eyjunum, eða á því svæði sem heyrði undir Noregskonunga og norska jarla fram á 14. öld, að kálinu væri sáð að hausti og plantað út snemma á vori, og einnig að plöntur væru forræktaðar og seldar öðrum.

Eftir að hvítkál kemur til sögunnar þótti það fremur vera handa fyrirfólki. Grænkálið, sem hafði verið þekkt miklu lengur, varð eftir það meiri hversdagsfæða og er enn á undanhaldi. Kál var gjarnan soðið með byggi í nokkurs konar súpu eða haft með höfrum í stöppu með söltum kjötbita eða hreinlega borið fram eitt sér með smjöri, mjólk og hugsanlega einhverju kryddi.

Önnur tegund grænmetis, sem á sér ævaforna sögu, er næpan. Margt bendir til þess að hún sé upprunnin við Eystrasalt á sama hátt og kálið er upprunnið við Miðjarðarhaf. Kálið eða garðakál, eins og það heitir í grasafræðinni, og næpan eru skyldar tegundir og hafa komið sér upp sameiginlegum afkomanda, gulrófunni. Sjálft orðið næpa má þó hugsanlega rekja allt aftur til egypsku gegnum latínu og fornensku úr Norðurlandamálunum. Napus eða napy á grísku er skylt sínapy eða sinnepi.

Sagnaritarinn Plíníus telur næpuna þriðju veigamestu matjurtina norðan Pófljótsins og segir að blöðin hafi einnig verið borðuð og það, sem er sérlega athyglisvert er, að þau gulnuðu og hálfföllnu hafi líkað best!

Svíar nota orðmynd dregna af rófu (rova) yfir næpu og fræ hennar hafa fundist í bronsaldarrústum í Svíþjóð. Eldri orðmynd er roa. Þetta kann að vera farandorð sem varð snemma heimavant kringum Eystrasaltið. Á þrettándu öld virðist næpan skipta umtalsverðu máli í þjóðarbúskap á Norðurlöndum. Í Norsku lögum Magnúsar lagabætis, frá því um 1270, var mönnum hótað öllu illu fyrir að umgangast frjálslega náungans næpnareit og Gautalög skylduðu menn til þess að rækta næpur á hverju byggðu bóli upp úr 1200.

Í sænskum bréfum frá fjórtándu öld má sjá að næpur hafa verið ræktaðar í stórum stíl í tengslum við sviðurækt þess tíma. Eftir að villigróður hafði verið brenndur var næpunni fyrst sáð í volga öskuna en korn var ræktað annað og þriðja árið. Eftir það var landið tekið til beitar. Svo gamalgróin var þessi venja að þegar næpan síðar var ræktuð í görðum þótti bráðnauðsynlegt að hrista sót saman við fræið til þess að verja ungplönturnar fyrir sníkjudýrum. Mun sá siður hafa haldist fram á síðustu öld. Í Finnlandi tóku menn fræin upp í sig og spýttu þeim út um sitt hvort munnvikið á víxl, í stað þess að sá þeim með höndunum. Hlýtur þá munnvatnið, eða rekjan, að hafa þótt æskileg fyrir vöxtinn.

Eftir siðaskipti er talið að kynbætur á næpunni hefjist og þá farið er að tala um hvítar rófur. Gulrófan var fyrst kölluð (undirjarðar)kálrabí eða kálrabbi á íslensu en kålrot, kålrabi og kålroe á Norðurlandamálum og er það tilvísun í að næpan hafi víxlast með einhverri gerð garðakáls, til dæmis hnúðkáli.

Í sænskri lækningabók frá árinu 1538 er í fyrsta sinn nefnt að til séu tvenns konar rófur. Þessar tvær gerðir eru þar nefndar rapa og napus. Sú síðarnefnda hefur að öllum líkindum verið gulrófan og full vissa er fyrir því að hún hefur verið komin fram um 1600. Hin eiginlega gulrófa, eins og við þekkjum hana í dag, er eindregin ræktunarplanta og gul í sárið. Guli liturinn var kominn í gulrófuna um 1820. Han ræðst af einum víkjandi erfðavísi og þekkist líka í næpum. Gulrófan er, eins og áður segir,kynblendingur milli garðakáls og næpu.
Með tilkomu kartöflunnar var næpunni ýtt til hliðar og margt úr matarmenningu hennar hefur líklega glatast. Óvíst er hvort gulrófan, þrátt fyrir kynbæturnar, hafi náð þeirri útbreiðslu til manneldis sem næpan hafði til forna. Í þýddum, eða að öðru leyti breyttum, textum getur auðveldlega ruglast merking orðanna næpur, rófur og gulrófur.

Úr „Blálandsdrottningin og fólkið sem ræktaði kartöflurnar“  eftir Hildi Hákonardóttur.

Mynd: Grænkál í garði höfundar, Hildar Hákonardóttur. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
April 12, 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Tvær fornar ræktunarjurtir, kál og næpur“, Náttúran.is: April 12, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2009/04/11/tvaer-fornar-raektunarjurtir-kal-og-naepur/ [Skoðað:Sept. 16, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: April 11, 2009
breytt: April 12, 2014

Messages: