Sorp er auðlind - sýning á vegum SORPU og Tækniskólans
SORPA og Tækniskólinn efndu til samstarfs í tilefni af 20 ára afmæli SORPU þar sem lagt var upp með að nota hráefni sem berst til SORPU sem úrgangur í skapandi verkefni í höndum nemenda Tækniskólans.
Settur var upp áfangi innan skólans sem nemendur höfðu val um að skrá sig í og alls tóku 11 nemendur þátt í áfanganum af mismunandi sviðum innan skólans undir stjórn verkefnisstjóranna Sigríðar S Vernharðsdóttur og Önnu Snædísar Sigmarsdóttur en þær kenndu áfangann ásamt Bryndísi Böðvarsdóttur.
Í samstarfsverkefninu hefur verið lögð áhersla á hugmyndafræði um umhverfisvæna hönnun sem hefur það að markmiði að lengja líftíma hluta. Nemendur hafa unnið að umhverfisvænu hönnunarverkefni og hafa kappkostað að taka tillit til umhverfisins og endurvinnslu/endurnýtingu.
Samstarfsverkefnið "Sorp er auðlind" er áfangi sem nemendur hafa haft mjög gaman af. Færri komust að en vildu og verkefnið getur verið uppspretta að nýjum áfanga innan Tækniskólans. Sú vitund sem skapast hefur meðal nemenda áfangans er eitthvað sem vert er að fanga og ala upp hjá þeirri kynslóð sem nú situr á skólabekk. Notagildi hluta, umhverfisvæn hönnun sem tekur tilliti til umhverfis. Orkusparnaður og endurvinnsla/endurnýting eru gildi sem þarf að rækta og koma inn í daglegar venjur og nám almennt með sterkari hætti. Samstarfsverkefni SORPU og Tækniskólans er mögulega uppsprettan að því.
Áfanganum lýkur með sýningu sem verður opnuð í húsnæðinu þar sem Hönnunarsafn Ísland var áður til húsa að Lyngási 7 í Garðabæ, föstudaginn 16.mars kl. 18:00. Sýningin er opin kl. 14-17 laugardag og sunnudag.
Birt:
Tilvitnun:
SORPA bs „Sorp er auðlind - sýning á vegum SORPU og Tækniskólans“, Náttúran.is: March 15, 2012 URL: http://www.nature.is/d/2012/03/15/sorp-er-audlind-syning-vegum-sorpu-og-taekniskolan/ [Skoðað:Oct. 7, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.