Metanframleiðsla hefst á Akureyri snemma á næsta ári gangi áætlanir Norðurorku eftir. Áætluð ársframleiðsla samsvarar eldsneytisþörf um 700 fólksbíla.

Norðurorka hefur þegar borað átta vinnsluholur fyrir hauggas á gömlu sorphaugunum á Glerárdal. Nú hefur fyrirtækið ákveðið að ráðast í hönnun og byggingu vinnslustöðvar og hefja metanframleiðslu.

Talið er að hér sé hægt að vinna um eina og hálfa milljón rúmmetra af hauggasi á ári í 25 ár, en það gefur metan sem dugar til að knýja 700 meðal fólksbíla á ári. Áætlaður kostnaður við verkefnið er 300 milljónir króna.

„Þetta er töluvert mikið mál. Bæði að safna metaninu saman, svo er hreinsistöðin, áffylistöðin og síðan lagnir og búnaður og allt,“ segir Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku.

„Og við væntum þess að þessi búnaður verði smíðaður hér á Akureyri í haust og vetur. Ég gæti nú alveg trúað að við verðum komnir inn í marsmánuð eða svo. En við stefnum að því að gera þetta eins hratt og við mögulega getum.

“Það eru tæplega 1000 bílar á landinu sem geta brennt metani og um tuttugu nýir metanbílar eru skráðir hér á mánuði. Metan er sem stendur aðeins fáanlegt á höfuðborgarsvæðinu og því fáir metanbílar á Akureyri.

„En núna breytist það, þannig að við væntum þess að vöxturinn taki við sér núna.Sjá myndskeið við frétt á RÚV.

Grafík: 3 litliir bílar, Guðrún A. Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir.

Birt:
June 7, 2012
Höfundur:
Ríkisútvarpið
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið „Metanframleiðsla að hefjast á Akureyri“, Náttúran.is: June 7, 2012 URL: http://www.nature.is/d/2012/06/07/metanframleidsla-ad-hefjast-akureyri/ [Skoðað:April 14, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: