Gengt inngangi IKEA í Kauptúni hefur verið komið upp lítilli móttökustöð fyrir nokkra endurvinnsluflokka ásamt fræðslu um hvernig viðkomandi efni eru endurunnin. IKEA hefur skýra umhverfisstefnu á heimsvísu og IKEA á Íslandi tekur alltaf fleiri og fleiri skref í þá átt að vera fordæmisgefandi á þessu sviði sem er mikilvægt því fáir staðir eru betur sóttir en IKEA í Kauptúni.

Í yfirlýsingu á veggnum segir:

Við höfum ákveðið...

...að leggja okkar af mörkum við að skapa heim þar sem við hugsum betur um umhverfið, auðlindir jarðar og hvert annað.

Við vitum að stundum erum við hluti vandamálsins. Þannig að við leggjum hart að okkur til að vera hluti lausnarinnar.

Við veltum fyrir okkur kostum og göllum, endurskoðum stöðugt og breytum til. Öll þessi skref, á fjölmörgum sviðum, sanast saman í eitthvað stórt ...og eftirtektarvert.

Verkefnið er þegar hafið og það er endalaust. fylgstu með framförum okkar á skiltum um alla verslunina og á www.ikea.is.

Rafhlöður
Það er mikilvægt að endurvinna rafhlöður til að þungmálmar berist ekki í landfyllingu og mengi svo jarðveginn og grunnvatn.

Rör & sparperur
Duftið úr sparperunum er notað aftur í nýjar perur og glerið er einnig endurnýtt í nýja hluti. Kvikasilfrinu úr perunum er safnað saman og því fargað á viðeigandi hátt. Farið gætilega með perurnar og skilið þeim í heilu lagi svo ekki sé hætta á að kvikasilfrið leki.

Halogenperur
Glerið og málmurinn í ljósaperunum þínum eru tekin í sundur og notuð aftur. Glerið gæti jafnvel endað sem bátsskrokkur ef það er nýtt í trefjagler.

Pappír
Það á við um allan prent- og ljósritunarpappír. Hefti og smærri gormar mega fara með. Endurunninn pappír er til að mynda nýttur í salernispappír, eldhúspappír og dagblaðapappír.

Skilagjaldsskyldar drykkjarumbúðir
Áldósir, plast- og glerflöskur. Glerið er mulið og nýtt til landfyllingar hérlendis. Álið og plastið er flutt erlendis til endurvinnslu, áldósir verða að nýjum áldósum en úr plastflöskunum er framleidd polyester ull.

Sjá umhverfisstefnu IKEA á Íslandi.

Ljósmynd: Endurvinnslumóttakan í IKEA í Kauptúni, Einar Bergmundur.

Birt:
Sept. 11, 2012
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Listinn ENDALAUSI“, Náttúran.is: Sept. 11, 2012 URL: http://www.nature.is/d/2012/09/11/listinn-endalausi/ [Skoðað:June 18, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: