Norman Ernest Borlaug

Í nýúkomnu Bændablaði (18 tbl. ná í hér) birtist á sömu opnu, grein um Norman Ernest Borlaug*, föður „Grænu byltingunnar“ svokölluðu og auglýsing um námskeið hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, en þar af eru þrjú námskeið helguð erfðatækni. Greinin um Borlaug er fróðleg þó minna fari fyrir hörmulegum áhrifum Grænu byltingarinnar en þeim sem margir hafa talið vera með merkilegustu uppgötvunum heims.

Borlaug taldi að fólk sem aðyllist lífræna ræktun væri öfgafullt í gagnrýni sinni á vísindi og líftækni, og sagði m.a.: „Það er draumórafólk sem lifir í skýjunum og kemur inn í þriðjaheimsríki og veldur þar alls konar ringulreið og nekvæðum áhrifum.“

Sagan hefur þó sannað hið gagnstæða, þ.e. að „Græna byltingin“ hafi haft gríðarlega neikvæð áhrif í löndum eins og Indlandi þar sem jarðvegurinn hefur dáið vegna áhrifa einræktunar á erfðabreyttum afbrigðum á vatnsbúskap og jarðveginn sjálfan. Vandana Shiva** hélt því fram, bæði á fundinum í Háskólabíói hér fyrir rúmu ári síðan (sjá grein og hlusta á upptöku) að „Græna byltingin“ hafi eyðilagt jarðveginn í stórum hlutum Indlands sem hefur aftur leitt til sjálfsvígs um 200 þúsund Indverskra bænda sem flæktir voru í viðskiptamódel frærisans Monsanto en hugmyndafræði Monsanto byggir á því að bændurnir verði algerlega háðir því að halda áfram að kaupa fræ og eitur frá þeim. Eitur sem átti að vera ónauðsynlegt en reynist þó alltaf þurfa meira og meira af þangað til jarðvegurinn hreinlega deyr. Þar með er öll von úti fyrir fátæka bændur.

Erfðatækninámskeið hjá Endurmenntun LBHÍ

Í auglýsingu frá LBHÍ sem nefnd var hér að ofan er boðið upp á eftirtalin námskeið til að efla framgang erfðatækni á Íslandi;

  • Hagnýting erfðatækni í landbúnaði
  • Hagnýting erfðatækni í matvælaiðnaði
  • Hagnýting erfðatækni í heilbrigðisvísindum.

Athygli vekur að ekkert af þeim námskeiðunum sem í boði eru hafa með lífræna ræktun að gera. Eitt námskeið ber yfirsögnina „Sjálfbærni gróðurs í þéttbýli“ en það virðist ekkert með lífrænar ræktunaraðferðir hafa að gera.

Áslaug Helgadóttir prófessor við LBHÍ virðist smám saman koma sínu ætlunarverki í ágætis farveg en hún hefur um árabil staðið uppi í hárinu á öllum sem benda á kosti*** lífrænnar ræktunar og vistræktunar fram yfir ólífrænar og líftæknivæddar og fengið háa opinbera styrki til að „greiða braut“ erfðatækni í landbúnaði.

Tímasetningin á þessari opnu í Bændablaðinu er skondin því gær bárust þau tíðindi í Food and Chemical Toxicology að niðurstöður nýrrar vísindarannsóknar G-E Seralini og kollega á heilsufarsáhrifum erfðabreyttra afurða hafi leitt í ljós að erfðabreyttar afurðir séu langt frá því að vera öruggar til eldis manna, músa og annarra dýrategunda (sjá grein Oddnýjar Önnu hér).

*http://en.wikipedia.org/wiki/Norman_Borlaug

**http://www.youtube.com/watch?v=UfKi47Vfriw

***http://www.natturan.is/greinar/6818/

Birt:
Sept. 20, 2012
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Er „Græna byltingin“ komin til Íslands?“, Náttúran.is: Sept. 20, 2012 URL: http://www.nature.is/d/2012/09/20/er-graena-byltingin-komin-til-islands/ [Skoðað:Dec. 5, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: