Nýtíndir baunabelgir í poka.Vorið 2012 ákvað ég að reyna við baunarækt, jafnvel þó að það hafi ekki gengið nógu vel árið áður. Ástæðan þá var sennilega sú að ég útbjó ekki klifurgrindur fyrir þær svo baunagrösin uxu í flækju við jörð og baunamyndunin varð því ekki mikil.

Baunaræktunin var það sem veitti mér hvað mesta ánægju í garðinum mínum þetta sumar. Það kom mér svo á óvart hve auðveld hún var og hvað baunirnar voru stórkostlega bragðgóðar.

Baunir eru strangt tiltekið ekki grænmeti heldur eru þær belgjurtir (legume) og eru stútfullar af prótíni. Ég aðhylltist jurtafæði eingöngu alveg frá því ég var tvítug til fertugs en þar eru baunir af öllum stærðum og gerðum nauðsynlegur prótíngjafi. Baunaréttir eru því mitt „spezialität“ svo ég sletti nú. Kjöt kann ég varla að elda.

Baunaát ætti að geta leyst kjötát af hólmi í mun meiri mæli en nú er en við framleiðsla kjöts þarf mikið magn vatns, heys, korns og ekki síst lands. Það þarf t.a.m. um 25 sinnum meiri orku til að framleiða eina kaloríu af nautakjöti en til að framleiða eina kaloríu af korni til manneldis (sjá grein). Auk þess er kolefnislosun af völdum kjötframleiðslu um 9%* af heildarkolefnislosun jarðar.

Að borða lítið af kjöti er því eitt það umhverfisvænsta sem hægt er að gera.

Því finnst mér mikilvægt að komast að því hve margar baunategundir gætu vaxið hér á landi. Baunirnar eru algert lostæti og af aðeins einum fermeter lands varð uppskera mín um 3-4 kg. Lífrænt ræktað auðvitað. Sáð eftir Sáðalmanakinu (sáð beint í jörð þ. 20. maí, ath. baunir tilheyra flokknum ávöxtum) og áburður í fyrrum mýrlendi aðeins hrossa- og hænsnaskítur og örlítið af kalksandi. Síðustu baunirnar tíndi ég af baunagrasinu fyrir seint í september.

Næsta ár reyndi ég að rækta fleiri baunategundir en eins og það sumar var nú votviðrasamt þá gekk engin ræktun sérstaklega vel. Mér tókst að láta kjúklingabaunir spíra og vaxa upp í um 30 sm baunagras en það blómstraði ekki. Í ár reyndi ég aftur við kjúklingabaunirnar og grasið óx í um 60 sm hæð og blómstraði. Baunir urðu þó ekki til enda var ég með þetta úti en ekki í gróðurhúsi.

* http://en.wikipedia.org/wiki/Environmental_impact_of_meat_production

Ljósmynd: Baunagrösin og hluti uppskerunnar, ljósm. Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
Sept. 18, 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Af baunarækt í Ölfusi“, Náttúran.is: Sept. 18, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2012/09/21/af-baunaraekt-i-olfusi/ [Skoðað:Dec. 9, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Sept. 21, 2012
breytt: Sept. 18, 2014

Messages: