Hjá GuðjónÓ - prentplata án framköllunarefna
Árið 2000 fékk prentsmiðjan GuðjónÓ fyrst Svansvottun. Á þeim tíma var umhverfisstarf komið vel á veg á Norðurlöndum og í Þýskalandi, en prentsmiðjur hér heima ekki byrjaðar að skoða sín mál. Það var því mikið brautryðjendastarf að koma á fyrstu vottuninni og tók 2 ár að breyta starfsemi prensmiðjunnar innanfrá til að uppfylla kröfur Svansins.
Nú hefur GuðjónÓ haft Svansvottun í rúm 12 ár, lengst allra prensmiðja í landinu og græna þróunin heldur stöðugt áfram þar innandyra. Stór gæfuspor hafa verið stigin í umhverfismálum með innleiðingu stafrænna myndavéla og einnig hafa miklar breytingar átt sér stað á sviði stafrænnar prentplötugerðar.
Núna í ágústmánuði sl. byrjaði prentsmiðja GuðjónsÓ að nota þurrplötu en sú tækni felur í sér að platan fer í gegnum plötuskrifarann án framköllunarefna.
Það er liðinn rúmur áratugur síðan flestar prentsmiðjur notuðu filmu til að lýsa á prentplötu og þá þurfti að að nota tvær tegundir framkallara og fixer við þá iðju. Það er því mikið stökk fram á við í umhverfisvænni prentframleiðslu að losna við öll spilliefni úr forvinnslunni sem þurfti að koma til eyðingar.
Prentplatan framkallast með vatni og fonti á prentvélinni við prentun og telja forsvarsmenn GuðjónsÓ að það sé eitt stærsta spor i umhverfismálum í prentiðnaði á síðstu árum.
Nú hafa 8 prentsmiðjur á Íslandi fengið Svaninn. Sjá Svansmerktu prentsmiðjurnar hér á Grænum síðum.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hjá GuðjónÓ - prentplata án framköllunarefna“, Náttúran.is: Oct. 15, 2012 URL: http://www.nature.is/d/2012/10/15/hja-gudjono-prentplata-framkollunarefna/ [Skoðað:Sept. 20, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.