Nýtnivikan verður haldin hér á landi í fyrsta sinn vikuna 17. - 25. nóvember en markmið vikunnar er að draga úr myndun úrgangs og hvetja fólk til að nýta hluti betur. Vikan er samevrópsk og er ætlað að vekja fólk til vitundar um nauðsyn þess að lengja líftíma hlutanna eða gefa þeim nýtt hlutverk.

Dagleg neysla hvers og eins hefur áhrif á umhverfið. Við sem neytendur höfum mikið vald til að breyta framboði á vörum með neyslumynstri okkar. Bara með því einu að nota plastpoka oftar en einu sinni leggjum við eitthvað af mörkum í viðleitni til að draga úr myndun úrgangs. Þeim vörum sem við kaupum frá degi til dags fylgja umbúðir auk þess sem hluti þess sem við kaupum fer í ruslið án þess að vera notað. Talið er að árið 2008 hafi verðmæti matar sem hent var hér á landi verið rúmir 3 milljarðar. Úrgangur frá heimilum í Reykjavík sem ekki er flokkaður frá og endurnýttur eða endurnotaður er urðaður í Álfsnesi.

Reykjavíkurborg tekur þátt í Nýtnivikunni ásamt Neytendasamtökunum, Sorpu, Landvernd og Umhverfisstofnun ásamt öðrum sveitarfélögum á Íslandi og í Evrópu. Vikan verður helguð betri nýtingu hluta og að dregið sé úr myndun úrgangs.

Samkeppni um best nýtta hlutinn verður á fésbókarsíðu Reykjavíkurborgar, en þar geta allir tekið þátt og sent inn mynd af hlut sem er vel nýttur eða fengið hefur nýtt hlutverk. Veglegir vinningar verða í boði fyrir hvern þann sem sýnir frumlega nýtingu á gömlum hlut. Nánar verður sagt frá keppninni síðar í vikunni.

Reykjavíkurborg hvetur til betri nýtingu hluta og vitundarvakningar um að nýta og njóta þess sem í kringum okkur er.

Grafík: Nýtnispilið, borðspil fyrir alla. Ná í Nýtnispilið hér.

Birt:
Nov. 15, 2012
Höfundur:
Reykjavik.is
Uppruni:
Reykjavíkurborg
Tilvitnun:
Reykjavik.is „Nýtnivika - nýtum og njótum“, Náttúran.is: Nov. 15, 2012 URL: http://www.nature.is/d/2012/11/15/nytnivika-nytum-og-njotum/ [Skoðað:Feb. 29, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: