Hólmsárvirkjun og einstök víðerni Skaftárhrepps
Að undanförnu hefur nokkuð verið fjallað í fjölmiðlum um væntanlega Hólmsárvirkjun í Skaftárhreppi. Það hefur vakið athygli mína að mörgum virðist það mikið kappsmál að gera lítið úr þeim miklu breytingum sem fyrirhuguð virkjun hefur á náttúrufar héraðsins. Það er fáránlegt að hlusta á umræðu, eða lesa umfjöllun um að landið sem fari undir væntanlegt lón sé aðallega sandar og áraurar. Þegar fyrir liggur að meirihluti þeirra u.þ.b. 1000 hektara sem fara undir lón er gróið land og sumt vaxið fjölbreyttum trjá- og runnagróðri með blómskrúði og lyngi. Það er líka ljóst að nánast allt land sem fer undir línur, vegi og önnur mannvirki utan fyrirhugaðs lónstæðis er algróið land. Enda er um láglendi að ræða, yfirfall fyrirhugaðs lóns er aðeins í 175 metra hæð yfir sjó.
Birkiskógar njóta verndar
Strandlína lónsins austan Hólmsár liggur á u.þ.b. 4 km kafla um ása, dali og hlíðar í skóglendi Hemru- og Snæbýlisheiða. Þessi skógur er talinn síðustu leifar Dynskóga hina fornu sem náðu milli fjalls og fjöru á svæðinu, sjá meðfylgjandi mynd. Þess má geta að gamlir birkiskógar njóta verndar skógræktarlaganna. Lagt er til í skýrslu um vernd og endurheimt íslenskra birkiskóga frá 1997 að Hrífunesskógur verði tekinn inn í næstu náttúruverndaráætlun, þar er hann sagður „samfelldur og víðáttumikill skógur“. Nú er sjálfsáður skógur að koma upp víða þar sem áður voru sandar og melar vestan Hólmsár og er það að sjálfsögðu sprottið af fræi úr gömlu birkiskógunum í utanfljótsheiðum Skaftártungu.
Verði af þeim áformum að þessum skógi, sem talinn er um 42 hektarar að flatarmáli verði sökkt undir lón verður það að öllum líkindum Íslandsmet í eyðingu skóga í seinni tíð. Þar sem landið er afar mishæðótt er skóglendið töluvert stærra. Þetta er í meira lagi undarlegt háttarlag og ekki beint í anda Sveins Pálssonar náttúrufræðings og fleiri góðra manna. Með óumdeildri framsýni og baráttu, sem hófst fyrir tveimur öldum síðan beittu þeir sér fyrir heilbrigðri umgengni um þessa þýðingarmiklu auðlind og komu í veg fyrir að birkiskógunum á Suðurlandi yrði aleytt.
Öllum frjálst að tjá sig
Þegar talað er um Hólmsárvirkjun er nauðsynlegt að hafa í huga að lang stærstur hluti þess lands sem fyrir áhrifum verður er eign þjóðarinnar. Það á við um allt land vestan Hólmsár sem er Þjóðlenda og þá er stór hluti landsins austan Hólmsár sömuleiðis í eigu ríkisins. Það þarf ekki að taka fram að öllum er að sjálfsögðu heimilt að hafa skoðanir á þessum aðgerðum og ættu allir að fagna því að fólk tjái sig um þessar óafturkræfu framkvæmdir.
Lítil virkjun. Mikið inngrip
Fyrirhuguð Hólmsárvirkjun er áætluð um 65 MW, hún er því lítil virkjun samanborið við virkjanir á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Hún er innan við 10% af afli Kárahnjúkavirkjunar. Miðað við áætlað uppsett afl virkjunarinnar er væntanlegt lón hlutfallsega með því allra stærsta sem gerist, u.þ.b. 1000 hektarar sem er nálægt 20% af stærð Hálslóns.
Uppsett heildarafl í íslenskum virkjunum er núna 2669 MW (heimild Orkumál 1.tbl.2012). Fyrirhuguð Hólmsárvirkjun er því innan við 2,5% af heildar rafafli á íslandi eins og það er í dag. Það að ráðast með slíka framkvæmd inn á lítt raskað víðerni Skaftárhrepps er ótrúleg skammsýni og stórkarlaleg aðgerð. Hún er líka glöggt dæmi um græðgi og von um skjótfenginn gróða og hrossalækningu á fjárhagsvanda sveitarfélagsins og þjóðarinnar. Þetta er dæmigerð 2007 aðgerð þar sem lítið er gert úr sjónarmiðum þeirra sem efast um gagnsemina og því haldið fram að þeir séu niðurrifs- eða öfgamenn, sem ekki hafi vit eða þekkingu á málunum. Í staðinn eru upphrópanir forgöngumanna virkjunarinnar um að lónið sé að mestu á söndum og áraurum, sem engum komi að gagni, látnar berast sem víðast eða samþykktar með þögninni.
Mikið fyrir lítið
Þegar talað hefur verið um tekjur sveitafélagsins af virkjuninni vekur athygli hvað þar er um lágar tölur að ræða. Má segja það mælt í bíl- eða traktorsverðum á ári. Það eru ekki miklar upphæðir þegar horft er til þess að fyrirtæki í ferðaþjónustu í Skaftárhreppi einum velta á bilinu hálfum til einum milljarði árlega. Sú velta hefur aukist hratt á undanförnum árum og mun halda áfram að aukast, ef rétt er á málum haldið.
Ekki er hjá því komist í þessu sambandi að minnast á fyrirhugaða Búlandsvirkjun, en hún er jafn fráleit framkvæmd og Hólmsárvirkjun. Svo stutt er á milli fyrirhugaðra lóna að telja verður að hér sé um sama svæði að ræða. Líkt og talað er um virkjanir á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu í sömu hendingu.
Manngerð jökullón
Virkjanir sem byggja á stórum manngerðum jökullónum sem flæða yfir gróin lönd eru úreltar. Það er með þær eins og svo fjöldamargt annað að aðrar aðferðir taka við. Við getum ekki leyft okkur að fara alltaf það sem virðist í fljótu bragði vera ódýrasta leiðin. Þetta má t.d. vel sjá í nútíma vegagerð. Jarðýtum er ekki lengur beitt á gróinn svörð, nema rétt í vegastæðinu, ekki er tekið efni hvar sem er í hraunum og ám. Sjálfsagt væri það ódýrara, en menn eru hættir að leyfa sér slíkt. Það sama er að gerast með raforkuframleiðslu, miðlunarlón með opnum strandsvæðum og sand- og leirfoki út á gróið land er of mikil fórn til þess að það verði réttlætt.
Náttúruperlur einstakar á heimsvísu
Hið lítt raskaða víðerni Álftaversafréttur, Torfajökulssvæðið og þaðan austur í Vatnajökul með Eldgjá, Fögrufjöllum, Langasjó, Lakagígum, Eldhrauni og Eldgjárhrauni er algerlega einstök náttúruperla, ekki bara á íslenskan mælikvarða heldur líka á heimsvísu. Þetta er langdýrmætasta auðlind framtíðarinnar og verður skilyrðislaust með öllum tiltækum ráðum að halda utan virkjana sem nú eru til umræðu. Það er ekki nokkur vafi að það mun tryggja þessu svæði sterka stöðu og langmestu tækifærin fyrir komandi kynslóðir. Það er um leið hagsmunir Íslendinga allra að eiga óröskuð víðerni sem við erum með að láni hjá komandi kynslóðum.
Opin og öfgalaus umræða
Fólk lýsir eftir sannri og öfgalausri umræðu um Hólmsárvirkjun. Ég legg því til að þeir sem komið hafa þessari hugmynd á flot og þeir sem eru fylgismenn þeirrar landníðslu sem virkjunin hefur í för með sér, efni við fyrsta tækifæri til skoðunarferðar á áhrifasvæði virkjunarframkvæmdanna. Gangi með hæðarmæli og skoði fyrirhugaðan jaðar lónsins. Þannig gefst áhugasömum og þeim sem vilja fjalla um málið af sanngirni og á upplýstan hátt, kostur á að sjá og kynnast með eigin augum hvar strandlínan liggur og hvernig það land lítur út sem fer undir lónið. Þetta ætti að vera sjálfsögð krafa til þeirra sem eru að fjalla um virkjunina, til að eyða öllum efa og upphrópunum um ímyndaðar aðstæður á vettvangi.
Ljósmyndir: Efri: Horft til vestur. Lónstæði Hólmsárvirkjunar, fyrirhuguð stífla yrði í gljúfrinu vinstra megin á mynd. Mýrdalsjökull í baksýn. Efri: Skógá í botni væntanlegs lóns sem fyllir inn í dalinn á myndinni. Af dfs.is
Birt:
Tilvitnun:
Vigfús Gunnar Gíslason „Hólmsárvirkjun og einstök víðerni Skaftárhrepps“, Náttúran.is: Dec. 20, 2012 URL: http://www.nature.is/d/2012/12/20/holmsarvirkjun-og-einstok-viderni-skaftarhrepps/ [Skoðað:Nov. 9, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.