Stormur og sumstaðar fárviðri
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vekur athygli á veðurspá frá Veðurstofu Íslands þar sem spáð er ofsaveðri (20-32 m/s) fyrst á Vestfjörðum síðdegis í dag en V-lands í nótt og á morgun. Stórhríð er spáð á norðanverðu landinu í nótt og frammá morgun. Einnig er bent á að samfara óvenju lágum loftþrýstingi er stórstreymt.
Veðurhorfur næsta sólarhringinn: Austlæg átt, 8-13, en NA 15-23 NV-til. Slydda eða snjókoma með köflum, en rigning syðst og austast. Gengur í norðaustan 20-25 á Vestfjörðum síðdegis. Norðan 20-33 og snjókoma V-lands í nótt og á morgun, hvassast á Vestfjörðum og sunnanverðu Snæfellsnesi. Breytileg átt, 5-13 á SA- og A-landi og rigning eða snjókoma. Fer að draga úr vindi seint annað kvöld en hvessir þá A-lands. Hiti víða 0 til 5 stig, en kólnar á morgun. (Veðurspá gerð 28.12.2012 13:26)
Snjóflóðavakt Veðurstofunnar hefur lýst yfir hættustigi vegna snjóflóða á eftirfarandi svæðum.
Ísafirði reit 9
Flateyri, reit 4
Hnífsdal, reit 8
Súðavík, reit 5 og 6
Patreksfirði, reit 4 og 10
Einnig hafa íbúar á um átta bæjum verið beðnir að rýma þá.
Nánari upplýsingar um svæðin og reitina er að finna undir Snjóflóða- og kynningabæklingar um rýmingaráætlanir.
Auk þess hefur verið lýst yfir óvissustigi vegna hugsanlegrar snjóflóðahættu á Mið-Norðurlandi.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Veðurstofan og viðkomandi lögreglustjórar og almannavarnayfirvöld fylgjast vel með framvindu mála. Lögregla og björgunarsveitir verða í viðbragðsstöðu.
Lagt er til að fólk verði ekki á ferðinni að óþörfu á meðan veðrið gengur yfir. Þeir sem þurfa að vera á ferðinni á þessum tíma eru beðnir að fylgjast vel með veðri og færð áður en lagt er af stað.
Tilkynning um lokanir vega frá lögreglunni á Vestfjörðum
Að beiðni lögreglunnar á Vestfjörðum var eftirfarandi tilkynning send á alla GSM síma á Norðanverðum Vestfjörðum, frá Þingeyri að Ísafjarðardjúpi.
Tilkynning frá lögreglunni á Vestfjörðum. Súðavíkurhlíð er lokuð, upplýsingar í síma 1777.
Kl.18:00 verður lokað fyrir umferð um Eyrarhlíð, Suðureyrarveg, Flateyrarveg og Gemlufallsheiði.
Sem fyrr eru þeir sem þurfa að vera á ferðinni hvattir til að fylgjast vel með veðri og færð áður en lagt er af stað.
Birt:
Tilvitnun:
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra „Stormur og sumstaðar fárviðri“, Náttúran.is: Dec. 28, 2012 URL: http://www.nature.is/d/2012/12/28/stormur-og-sumstadar-farvidri/ [Skoðað:Dec. 11, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.