Frosið grænkál.Hér á Suðurlandi vill oft koma frost kringum 10. október sem er grænmetinu erfitt. Það sem stendur úti eftir þann tíma – næst stundum inn, stundum ekki. Ef tíðin er góð og tækifæri gefst er gott að bera núna áburð í garðana, stinga upp og gera klárt. Það léttir mikið vorverkin. Það er líka gott að taka til inni við, ef það hefur ekki þegar verið gert. Stafla pottum og kössum, raða upp verkfærum og sópa. Þegar búið er að ganga frá beðunum hefur bóndi minn það fyrir sið að breiða yfir gott og sterkt svart plast. Þannig bíða þau vorsins og ekkert að gera nema raka yfir. Til að halda plastinu niðri þarf að setja steina eða timburborð á endana og afar þægilegt er að kasta svolítilli mold yfir svo vindur komist ekki undir og þrífi allt á brott með sér eða tæti. Plastið dregur verulega úr því að harðgresi sái sér eða fræ þess spíri.

En það tekur því ekki að hafa of miklar áhyggjur af því hvort þessu eða hinu hefur verið komið í verk. Verkin eru hvort eð er endalaus. Skáldið og dulspekingurinn Rumi var fæddur árið 1207 í Afganistan, sem þá tilheyrði Persíu, og hann var því samtíðarmaður Snorra Sturlusonar. Rumi sá ræktun í nokkuð sérstæðu ljósi sem vert er að hugleiða og lýsir því í ljóðinu Langi þráðurinn, sem er nokkurs konar samræða milli músar, frosks og súfameistara. Músin lýsir matgræðgi sinni fyrir froskinum og atyrðir sjálfa sig fyrir eigin heimsku en segir svo: – Sjáðu samt grösin og blómin sem sólin töfrar fram þegar hún skín á jörðina og lætur þau spretta upp úr skítnum, sem gengur niður af okkur dýrunum. Og hugsið svo til alls þess sora, sem syndarar jarðarinnar skilja eftir sig, og íhugið þau stórkostlegu undur sem drottni hefur tekist að láta vaxa upp af þeim áburði.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.

Ljósmynd: Frosið grænkál, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Oct. 2, 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Fyrsta frostið“, Náttúran.is: Oct. 2, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/12/fyrsta-frosti/ [Skoðað:Sept. 16, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 12, 2007
breytt: Oct. 2, 2014

Messages: